Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

Mál Birgittu: Twitter fær ósk um efni á netsvæðum 5 einstaklinga vegna WikiLeaks


9. janúar 2011 klukkan 14:37

Bandarískir saksóknarar sem rannsaka birtingu þúsunda bandarískra trúnaðarskjala á vefsíðunni WikiLeaks hafa lagt fyrir dómara lista með fimm nöfnum og óskum um upplýsingar tengdar persónulegu netsvæði (account) þeirra á Twitter-netsíðunni. Á listanum sem birtur var opinberlega föstudaginn 7. janúar eru meðal annars nöfn Julians Assanges, stofnanda WikiLeaks-síðunnar, og Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.

Birgitta Jónsdóttir

Í New York Times (NYT) segir frá því sunnudaginn 9. janúar að þessi tilmæli til dómarans séu fyrsta opinbera merkið um að fram fari sakamálarannsókn í tengslum við starfsemi WikiLeaks. Eric H. Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi boðað slíka rannsókn í desember 2010 eftir hvatningu frá þingmönnum beggja flokka á Bandaríkjaþingi. NYT segir hins vegar að ríkisstjórn Obama eigi erfitt með að verða við óskum þingsins af pólitískum og lagalegum ástæðum. WikiLeaks hafi harðlega mótmælt áformum um sakamálarannsóknina. Til þessa hafi aðeins 1% af 250.000 trúnaðarskýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins birst á netinu. Forráðamenn síðunnar hafi hótað að birta öll skjölin verði þeir dregnir fyrir sakadóm.

NYT segir að fjöldi embættismanna í varnarmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi mánuðum saman unnið að því að meta tjónið af birtingu skjalanna fyrir bandarísku utanríkisþjónustuna og hermálayfirvöld. Síðustu vikur hafi embættismenn dómsmálaráðuneytisins kannað lagalegan grundvöll fyrir ákæru á hendur Assange fyrir að hafa staðið fyrir lekanum.

Í NYT segir að upplýst hafi verið um kvaðningu dómarans um upplýsingar frá fimm frammámönnum WikiLeaks síðdegis föstudaginn 7. janúar, þegar Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi WikiLeaks-aðgerðasinni og þingmaður á Íslandi, hafi fengið tölvubréf um málið frá Twitter. (The move to get the information from five prominent figures tied to the group was revealed late Friday, when Birgitta Jonsdottir, a former WikiLeaks activist who is also a member of Iceland’s Parliament, received an e-mail notification from Twitter.)

NYT segist hafa þetta tölvubréf undir höndum og í því tilkynni Twitter Birgittu að netfyrirtækið hafi fengið réttartilmæli um atriði varðandi skráningu hennar hjá Twitter og bendir henni á að fyrirtækið verði að svara tilmælunum nema úr málinu hafi verið leyst eða „gerðar hafi verið ráðstafanir til að stöðva málið fyrir dómi.“ Kæran frá dómsmálaráðuneytinu fylgdi tölvubréfinu til Birgittu.

Í tilmælunum sem saksóknari í austursvæði Virginíu-ríki lagði fyrir dómara 14. desember er beðið um allar upplýsingar frá Twitter um Bradley Manning, njósnasérfræðing í landhernum sem bíður dóms fyrir að hafa lekið efni til WikiLeaks, Birgittu Jónsdóttur, Julian Assange og tvo forritara Rop Gonggrijp og Jacob Appelbaum. Farið er fram á upplýsingar um heimilisföng, nöfn á vefsíðum, símanúmer, númer á kreditkortum og bankareikningum. Að sögn NYT er ekki óskað eftir aðgangi að efni einkabréfa sem send hafa verið um Twitter.

NYT segir að í sumum prentuðum heimildum hafi á undanförnum vikum verið gefið til kynna að bandaríska dómsmálaráðuneytið kynni með leynd að hafa komið á sérstökum rannsóknarrétti (grand jury) í austursvæði Virginíu-ríki, þar sem oft sé fjallað um mál vegna þjóðaröryggis, til að safna sönnunargögnum og hlýða á vitni í WikiLeaks-rannsókninni. Hins vegar hafi kvaðningin, sem birt var opinberlega samkvæmt dómsúrskurði að ósk lögfræðinga Twitters 5. janúar, ekki komið frá sérstökum rannsóknarrétti.

WikiLeaks staðfesti með Twitter-boðum að réttarkvaðningin hefði borist og gaf í skyn að Google og Facebook kynnu að hafa fengið samskonar kvaðningar. Starfsmenn Facebook vildu ekki segja neitt um málið við NYT og Google svaraði ekki fyrirspurn blaðsins.

Í tilkynningu WikiLeaks sagði að Bandaríkjastjórn sýndi tvískinnung með því annars vegar að boða „Internet frelsi“ og gagnrýna afskipti stjórnvalda í Íran af því að aðgerðasinnar noti netið og undirbúa hins vegar sakamál á hendur WikiLeaks.

Philip J. Crowley, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði við NYT að net-frelsi hefði „ávallt átt samleið með því sem heimilt væri að lögum“ og í því fælist ekki „að nota megi netið til að valda öðrum tjóni“ eins og til dæmis fólki sem stofnað yrði í hættu ef unnt væri af þekkja það með birtingu á skýrslum stjórnarerindreka.

Jacob Appelbaum skrifaði á Twitter laugardaginn 8. janúar að lögfræðingar Twitters hefðu varað hann við að nota Twitter til að senda eða taka á móti skeytum. „Sendið mér ekki bein skeyti,“ skrifaði hann. „Efnið á Twitter-svæði mínu hefur líklega verið boðið (að líkindum rannsóknarréttinum) í Alexandríu.“

Jodi Olson, talskona Twitters, sagði við NYT að fyrirtækið myndi ekkert segja um málið. Hún bætti þó við að stefna fyrirtækisins væri að aðstoða notendur vefsvæðisins til að vernda réttindi sín og þess vegna léti Twitter þá vita ef lögregla eða ríkisstofnanir óskuðu eftir upplýsingum, nema slík miðlun upplýsinga væri bönnuð að lögum.

NYT bendir á að af þeim fimm einstaklingum sem nefndir séu í réttarkvaðningunni séu aðeins tveir – Manning og Appelbaum – bandarískir ríkisborgarar. Assange sé Ástrali, Birgitta Íslendingur og Gonggrijp Hollendingur. Vegna þessa sé líklegt að ágreiningur verði við stjórnvöld annarra ríkja, sem kynnu að halda því fram að bandarískum lögum væri beitt til að hindra frjáls fjarskipti milli manna sem ekki væru bandarískir og hefðu ekki verið í Bandaríkjunum þegar þeir sendu tölvubréfin.

NYT segir að blaðamenn þess hafi hringt til Birgittu á Íslandi og hún hafi sagt að hún snerist gegn aðgerðum dómstólsins. Hún sagðist ekki hafa sent viðkvæmar upplýsingar um Twitter „á hinn bóginn snýst málið einfaldlega um að annað ríki hafi beðið um slíkar persónuupplýsingar frá kjörnum fulltrúa án þess að geta borið mig nokkrum sökum.“

Hún sagði NYT að utanríkisráðherra Íslands hefði óskað eftir fundi með bandaríska sendiherranum á Íslandi meðal annars til að spyrja hann hvort rannsóknarréttur hefði farið fram á upplýsingarnar.

„Þetta er mjög dapurlegt,“ sagði hún. „Ég á svo marga vini í Bandaríkjunum og ég ber virðingu fyrir svo mörgu í landinu. Bandaríkin vilja ekki sýna veröldinni þessa mynd af sér.“

Embættismenn Obama-stjórnarinnar sögðu við NYT laugardaginn 8. janúar að rannsóknin væri á frumstigi, farið væri yfir stórt svið til að afla vitneskju um samskipti WikiLeaks við Manning, 23 ára gamlan hermann, sem hefur setið marga mánuði í haldi í fangelsi í Quantico í Virginíu-ríki, grunaður um að hafa verið heimildarmaður WikiLeaks við miðlun trúnaðarskjala hers og utanríkisþjónustu.

Í tilmælum réttarins er óskað eftir upplýsingum um aðgerðir á Twitter-svæðinu frá 1. nóvember 2009, það er fáeinum vikum áður en talið er að Manning hafi hafist handa við að hlaða niður skjölum með tölvu sinni í hernum og miðla þeim til WikiLeaks.

Glenn Greenwald, lögfræðingur og rithöfundur, sem hefur birt réttarkvaðninguna á vefsíðu sinni Salon.com, getur sér þess til að rannsóknarmenn kunni að einbeita sér að hinu fyrsta sem Manning er sakaður um að hafa hlaðið niður – myndefni hersins sem sýnir tvær bandarískar þyrlur í Írak árið 2007 þegar skotið var úr á fólk á jörðu niðri þar á meðal tvo blaðamenn frá Reuters, sem týndu báðir lífi. Eftir að myndefnið hafði lotið ritstjórn segir í útgáfu þess að Assange, Birgitta og Gonggrijp hafi framleitt það.

NYT segir að sjaldgæft sé að málaferli verði í Bandaríkjunum vegna leka og þau hafi næstum alltaf beinst gegn opinberum embættismönnum, réttvísinni hafi ekki verið beint gegn blaðamönnum eða öðrum sem birt hafi efnið. Ríkisstjórn Obama hafi hins vegar sótt fleiri til saka en fyrri ríkisstjórnir fyrir leka, fimm fyrrverandi ríkisstarfsmenn á fyrstu tveimur árum forsetans.

Blaðið minnir á að ákæra á hendur venjulegum borgara fyrir að dreifa opinberum trúnaðarskjölum hafi aldrei leitt til sakfellingar. Flestir kunnáttumenn í lögum telji að það verði síður en svo einfalt að sækja sjálfboðaliða í þágu WikiLeaks til saka og ýmis mannréttindasamtök og stjórnlagafræðingar segi að saksókn vegna þessa kunni að skaða tjáningarfrelsið.

NYT segir að tilmæli réttarkerfisins um upplýsingar um viðskiptavini upplýsingatækni- og fjarskiptafyrirtækja séu svo mörg og margbreytileg að stofnað hafi verið til samtaka fyrirtækjanna og mannréttindasamtaka, Digital Due Process, til að hafa áhrif á þingmenn í því skyni að sett verði strangari lög um vernd einkaupplýsinga á netinu og samin verði einfaldari löggjöf um aðgang löggæslunnar að þessum upplýsingum.

WikiLeaks sætti harðri gagnrýni í júlí 2010 eftir að settar voru hernaðarlegar upplýsingar á netið um stríðið í Afganistan án þess að afmá nöfn þeirra Afgana sem höfðu aðstoðað Bandaríkjamenn. NYT segir að síðan hafi WikiLeaks sýnt miklu meiri aðgát með því að afmá nöfn í skjölum um stríðið í Írak sem birt hafa verið á netinu fyrir utan að fara sér hægt við að birta þær 251.287 skýrslur utanríkisþjónustunnar sem séu í höndum stjórnenda síðunnar.

Assange hafi hins vegar sett „tryggingar“ skjöl á dulmáli á nokkrar vefsíður. Þúsundir stuðningsmanna hans hafi halað þetta efni niður og Assange segi að verði hann eða WikiLeaks sótt til saka muni hann senda dulmálslykilinn frá sér og þá verði skjölin birt opinberlega.

Scott Shane í Washington og John F. Burns í London eru höfundar þessa efnis í New York Times 9. janúar 2011 með aðstoð frá Ravi Somaiya í London, Claire Cain Miller og Miguel Helft í San Francisco, Eric Lipton í Washington, og J. David Goodman í New York.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS