Föstudagurinn 5. mars 2021

Finnar: Vígbúnaður og hættan af Rússum til umræðu í forsetakosningabaráttunni


23. desember 2011 klukkan 11:14

Umræður um öryggismál stöðu Finna gagnvart Rússum, Evrópusambandinu og NATO setja nokkurn svip á kosningabaráttuna sem nú er háð um finnska forsetaembættið. Síðustu daga hefur athygli beinst að hernaðarmætti Rússa og spurningunni um hvort hann sé að aukast í nágrenni Finnlands eða ekki. Þar takast meðal annars á sérfræðingar í öryggismálum og fyrrverandi sendiherra Finna í Moskvu eins og hér er lýst.

Iskander-eildflaugaoddur. Flaugarnar draga 400 km. Þær eru nú í stöð Rússa 100 km frá landamærum Eistlands, búnar kjarnorkusprengjum.

Forsetakosningar verða í Finnlandi 22. janúar 2012. allir stjórnmálaflokkarnir átta bjóða fram í kosningunum. Samkvæmt könnunum nýtur hægrimaðurinn Sauli Niinstö mesta fylgis (43%) næstur honum er Timo Soini, frambjóðandi Sannra Finna, (11%). Sunnudaginn 18. desember vakti frambjóðandi jafnaðarmanna, Paavo Lipponen, (6%) máls á hættunni af því að Finnar segðu skilið við evruna og jafnvel Evrópusambandið. Það myndi leiða til einangrunar og viðkvæmrar stöðu Finna á öxlinum milli Moskvu og Berlínar.

Ræða Lipponens varð til þess að Heikki Talvitie, formaður í vináttufélaginu Finnland-Rússland, fyrrverandi sendiherra í Moskvu og Stokkhólmi, lét í ljós óánægju með að dregin væri sú mynd af Rússlandi í kosningabaráttunni að Finnar þyrftu að óttast vígbúnað Rússa og aukin hernaðarleg umsvif við austur landamæri Finnlands. Gagnrýndi sendiherrann fyrrverandi niðurstöður fræðimanna um þetta sem birtust í skýrslu Strategiska institutionen við finnska Försvarshögskolan í september. Telur Talvitie að þar sé farið rangt með staðreyndir.

Talivitie segir að sú breyting hafi orðið að varnir Moskvu hafi verið fluttar undir Vestur-herstjórn Rússlands, þar með hafi varnir Moskvu og St. Pétursborgar verið færðar undir sama hatt. Það liggi í augum uppi að þetta styrki vestur-herstjórnina án þess að um nokkra raunverulega aukningu í herstyrk sé að ræða við austur landamæri Finnlands. Staðreynd sé að Finnar búi yfir meiri herafla en Rússar við landamærin.

Sendiherrann fyrrverandi segir að umræðurnar hafi farið inn á rangar brautir vegna þess að þær séu reistar á röngum forsendum. Heikki Talvitie segir að ræða verði samskiptin við Rússa í forsetakosningabaráttunni en á réttum forsendum. „Þegar rætt er um NATO verða menn að átta sig á því hvað felst í aðild að bandalaginu. Ef við förum í NATO byggjum við Rússlandssamskipti okkar á vopnum. Það er í lagi að styðja það, en menn verða að vita hvað í því felst,“ segir sendiherranna fyrrverandi.

Tveimur dögum eftir að þessi frásögn birtist á hbl.fi svöruðu fjórir höfundar skýrslunnar sem hann taldi byggða á röngum forsendum og saka sendiherrann fyrrverandi um dæmalausa fákunnáttu á því sem sé að gerast við austur landamæri Finnlands og í varnarmálum Finna.

Höfundarnir, fræðimaður og þrír herforingjar, minna á að hinn 17. október 2011 hafi formaður rússneska herráðsins, Nikolaj Makarov hershöfðingi, sagt að ógnin sem að steðjaði væri þess eðlis að „staðbundin hernaðarátök gætu hafist fyrirvaralaust … Líkur á því að staðbundin átök hefjist hvarvetna við landamæri okkar hafa aukist á dramatískan hátt“.

Makarov útiloki ekki að átök af þessu tagi geti stigmagnast í allsherjar stríð og boði að efla verði allan liðsafla en lét þess jafnframt getið að viðbragðssveitir hefðu verið efldar á þann veg að þær gætu látið til skarar skríða innan klukkustundar frá því að fyrirmæli um aðgerðir bærust.

Skýrsluhöfundar benda á að þessa afdráttarlausu yfirlýsingu verði að skoða í ljósi hernaðarstefnunnar sem forseti herfræðiakademíu Rússlands, Machmut Garejev hershöfðingi, mest metni herfræðingur Rússa, hafi kynnt fyrir tveimur árum. Hann taldi að Rússar stæðu alls staðar hernaðarlega illa að vígi. Kjarnorkuvopn dygðu ekki einu sinni til að tryggja öryggi Rússlands.

Garejev andmæli kenningum þeirra sem vilji eingöngu styrkja kjarnorkuheraflann og bendi á þá rökréttu niðurstöðu að kjarnorkuvopnum beiti menn ekki í staðbundnum átökum. Þess í stað mæli hann með því að menn einbeiti sér að því að styrkja þann herafla sem yrði beitt við upphaf átaka.

Í þessu ljósi verði menn að líta til þess að hernaðarmáttur á Vestur-herstjórnarsvæði Rússlands hafi aukist um 90% í samanburði við það sem var í gamla Leníngrad-herstjórnarsvæðinu. Bandarískir og sænskir Rússlandsfræðingar bendi á að þungamiðja innan svæðisins hafi færst í norð-vestur. Sú skoðun Talvities að varnarviðbúnaður Finna í nágrenni Rússlands sé meiri en Rússa standist ekki og sé í raun fáránleg. Finnski herinn sé ekki í bardagastöðu á friðartímum heldur í þjálfunarstöðu. Það séu engin herfylki í viðbragðsstöðu; þurfi að kalla til menn komi þeir úr varaliðssveitum. Það sé alrangt að bera saman getu Finna til að kalla út liðsafla og viðbúnað Rússa á friðartímum.

Þá standi Finnar illa að vígi þegar litið sé vígbúnaðar. Rússar vinni að því hörðum höndum að efla vopnabúnað í vestur Rússlandi. Nýjasta dæmið sé að þeir hafi sett niður nýjar Iskander-eldflaugar í Luga, aðeins um 100 km frá landamærum Eistlands. Þarna sé fyrsta herfylkið með hinar nýju flaugar í Rússlandi og sé það nú í viðbragðsstöðu. Talið sé að svipuð eldflaugastöð verði næst reist í Kaliningrad. Iskander-flaugarnar séu fjölbnota nákvæmnisvopn sem falli vel að þeirri stefnu sem Garejev hafi boðað. Hún rúmi greinilega að grípa megi til kjarnorkuvopna.

Sérfræðingarnir segjast ekki svara spurningu Talvities um hvort ógn steðji frá Rússlandi eða ekki. Annarra sé að leggja mat á það og taka ákvarðanir í ljósi þess. Þeir hafi ekki gert annað en bent á framtíðarþróun í ljósi hernaðarmáttar eins og honum sé lýst í rússneskum heimildum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS