Laugardagurinn 23. janúar 2021

Dönsk stjórnvöld undir smásjá vegna forystu innan ESB - fylgislítil stjórn hjá fyrirvaraþjóð


30. desember 2011 klukkan 10:24

Athygli beinist nú að dönskum stjórnvöldum og stöðu Dana innan Evrópusambandsins því að danska ríkisstjórnin verður í forsæti innan Evrópusambandsins frá 1. janúar til 1. júlí. Í nýjasta hefti The Economist er vakin athygli á því hve lítilla vinsælda vinstri-stjórn Helle Thorning-Schmidt nýtur heima fyrir. Það auðveldi henni ekki að takast á við formennsku innan ESB að 60% Dana trúi því ekki að ESB ráði við skuldakreppuna og aðeins 24% styðji upptöku evru. Fyrirsögnin í The Economist er: Hroðalegir hveitibrauðsdagar Helle.

Þá er þess getið að innan eins stjórnarflokkanna, Sósíalíska þjóðarflokksins, sé vaxandi óánægja með að Villy Søvndal, formaður flokksins, sé utanríkisráðherra auk þess sem hann sæti gagnrýni fyrir klæðaburð og litla málakunnáttu. The Economist vekur einnig athygli á vandræðum Ole Sohns, atvinnumálaráðherra Dana, vegna starfa hans sem formanns Kommúnistaflokks Danmerkur fyrir tveimur áratugum.

Í frétt AFP-fréttastofunnar í tilefni af því að Danir setjast í forsæti innan ESB sunnudaginn 1. janúar 2012 er minnt á að vinstri-stjórnin í Danmörku eigi ekki marga hugsjónabræður meðal ríkisstjórna innan ESB. Þá eigi stjórnin á hættu að standa á hliðarlínunni í átökunum sem framundan séu innan ESB af því að Danir noti ekki evru og þeim sé ekki skylt að taka hana upp vegna fyrirvara frá árinu 1992 þegar þeir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég skil fullkomlega að ríkisstjórnir landanna 17 á evru-svæðinu verða að taka ákvarðanir sem snerta þær einar,“ segir Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra við AFP-fréttastofuna.

Hún segir það hins vegar í samræmi við hagsmuni kjarnaríkja ESB, Frakklands og Þýskalands að „halda ríkjunum 27 saman“ og hafa samráð við öll ESB-ríki „.þegar ákvarðanir snerta þau“ þar sem á „hættustundu verðum við að hafa trú á stofnunum okkar,“ segir forsætisráðherrann.

Fyrirvarar Dana frá 1992 snerta fleira en aðild að evru-samstarfinu. Þeir „verða að sjálfsögðu virtir,“ segir Nicolai Wammen, Evrópumálaráðherra Dana, við AFP. Hann leggur jafnframt áherslu á að „við munum einnig stjórna fundum um þessi málefni“.

Thorning-Schmidt sagði að dönsk stjórnvöld myndu reyna að verða „brú á milli ríkjanna 17 og 27“ til að koma í veg fyrir að bilið breikkaði milli evru-ríkja og ekki-evru-ríkja innan ESB.

Wammen sagði að hann vildi að Bretar yrðu áfram „mjög virkir innan evrópsku fjölskyldunnar“ og að innan ESB yrðu menn að „finna skýrar lausnir á skýrum vandamálum“.

Auk þess sem Danir verða að finna leið til að halda ríkjunum 27 að sama borði verða þeir að leita sátta vegna ágreinings um efni fjárlaga ESB á árunum 2014 til 2020. Thorning-Schmidt kvíðir ekki að takast á við það verkefni enda hafi danskir stjórnmálamenn það sem „sérgrein“ að komast að málamiðlunum, sjálf sé hún í forsæti þriggja flokka stjórnar.

Þá segir að í forsætistíð sinni ætli Danir að beina athygli að endurnýjanlegum orkugjöfum til að fjölga störfum og ýta undir hagvöxt í Evrópu.

„Við teljum að hluti lausna vandans felist í því að tryggja fjárfestingu í orkusparnaði og grænum hagvexti. Hver evra sem rennur til þess að nýta orkugjafa betur er til þess fallin að tryggja störf í Evrópu. Hver evra sem nýtt er til að flytja inn olíu hverfur frá Evrópu. Þetta leiðir til þess að græn-markmið skipta einna mestu fyrir framtíðarsamstarf í Evrópu,“ sagði Martin Lidegaard, loftslagsmálaráðherra Dana, við AFP.

Þá kemur fram að dönsk stjórnvöld vilji leita að nýjum viðskiptatækifærum fyrir evrópsk fyrirtæki með því að semja við Japani, Kínverja, Indverja og Túnisbúa . Þá er stefnt að því að herða landamæraeftirlit og eftirlit með innflytjendum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS