Samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) eftir bankahrunið 2008 bendir til þess að mati aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands að „landið mundi dafna vel“ undir þeim „aga“ sem fælist í aðild að gjaldmiðilsbandalagi, það er með evru-aðild. Standi aðild að evru-svæðinu hins vegar ekki til boða þurfi „aginn að koma innan frá“.
Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, var einn fjögurra ræðumanna á morgunverðafundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var þriðjudaginn 10. janúar um undir fyrirsögninni: Íslenska krónan – bölvun eða blessun? Ræddi Arnór um kosti Íslands í gjaldmiðils- og peningamálum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að yrði á annað borð skipt um mynt á Íslandi væri evran besti kosturinn, enginn annar gjaldmiðill kæmist „nálægt því að deila kostum evrunnar fyrir Ísland“ og „verulegir annmarkar væru þess vegna á því að taka upp annan gjaldmiðil en evruna“.
Í ræðu sinni vék Arnór að viðræðunum um aðild að Evrópusambandinu sem snerust einnig um aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) að uppfylltum Maastricht-skilyrðunum. Hann taldi engan ávinning af því að fresta aðild Íslands að ERM II, gengissamstarfi eða fastgengiskerfi ESB. Án aðildar að ERM II í tvö ár er engin þjóð metin til evru-aðildar af Seðlabanka Evrópu. Hann sagði að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hefðu fyrst og fremst á valdi sínu hve fljótt tækist að fullnægja Maastricht-skilyrðunum og þar skipti mestu hve hratt tækist að lækka skuldir ríkissjóðs niður fyrir 60% af landsframleiðslu.
Það markmið hefði Ísland hvort sem er sett sér, m.a. með því að stefna að afgangi á jöfnuði hins opinbera, sem væri aðhaldssamari stefna en 3% hallinn sem Maastricht-skilyrðin gera kröfu um. Þótt vergar skuldir hins opinbera yrðu í lok þessa árs nálægt 100% af landsframleiðslu næmu hreinar skuldir aðeins u.þ.b. 40% af landsframleiðslu. Stór hluti skuldanna væri tilkominn vegna mikils tímabundins gjaldeyrisforða. Losun gjaldeyrishafta, bætt lánshæfi ríkissjóðs og minni áhætta vegna vegna endurfjármögnunar erlendra skulda minnkaði þörfina fyrir stóran gjaldeyrisforða. Með aðild að ERM II og síðar upptöku evru minnkaði einnig þörfin fyrir gjaldeyrisforða. Þá ætti ríkið umtalsverðar eignir sem það gæti selt til þess að lækka vergar skuldir, m.a. eignarhluti í bönkum.
„Þótt margvísleg rök bendi til þess að aðild að gjaldmiðilsbandalagi henti Íslandi vel er óvíst að meirihluti þjóðarinnar muni greiða aðild að Evrópusambandinu atkvæði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Arnór Sighvatsson. Vandi ríkja á evru-svæðinu yki ekki líkur á því. Hann sagði „illu heilli“ væri fjármálastöðguleiki að meginhluta á ábyrgð einstakra evru-ríkja. Því væri eðlilegt að huga að öðrum kostum, færi svo að ESB-samningur yrði felldur. Þá bæri að grípa til úrræða á heimavelli. Um framkvæmd þeirra sagði Arnór:
„Hve góðum árangri það skilar ræðst að verulegu leyti af því hvort hið pólitíska bakland umbóta sé nægilega sterkt. Munu þeir sem telja ákvarðanir sjálfstæðrar peningastefnunefndar “galnar„ t.d. samþykkja að afhenda Seðlabankanum eða sjálfstæðri fjármálanefnd enn fleiri stjórntæki? Sambland af skammsýni og “popúlisma„ sem löngum hefur einkennt umræðu um efnahags- og peningamál á Íslandi, er hindrun í vegi aukins efnahags- og peningalegs stöðugleika. Því er ég ekki bjartsýnn á að mildari form fastgengisstefnu af því tagi
sem hér var rekin áður en verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001 skili góðum árangri.“
Aga þyrfti hagstjórnina meira en gert hafi verið til þessa, með því að setja henni umgjörð sem þvingi „stjórnvöld til þess að hverfa frá skammsýni og horfa til lengri tíma“. Ein leið til þess væri að ganga í gjaldmiðilsbandalag. Reynsla Grikkja og annarra landa á jaðri evrusvæðisins sýndi hins vegar að sneru stjórnvöld ekki baki við skammsýnni hagstjórn og frestuðu því
of lengi að takast á við aðsteðjandi vanda yrði það agavald allt annað en blítt. „Ég hygg að reynsla Íslands af samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn bendi hins vegar til þess að landið muni dafna vel undir slíkum aga. Standi aðild að evrusvæðinu hins vegar ekki til boða þarf aginn að koma innan frá. Úrbætur sem Seðlabankinn hefur lagt til í tveimur skýrslum undanfarin ár miða að því að auka hann. Sömu aðgerðir gætu í mörgum tilvikum einnig stuðlað að stöðugleika og sjálfbærum hagvexti innan gjaldmiðilsbandalags og að sumu leyti orðið auðveldari í framkvæmd innan þess,“ sagði Arnór Sighvatsson í lok ræðu sinnar.
Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.