Föstudagurinn 13. desember 2019

NYT: Króatar búa sig nauðugir undir að samþykkja aðild að ESB sunndudaginn 22. janúar


18. janúar 2012 klukkan 11:22

Króatar greiða sunnudaginn 22. janúar atkvæði um hvort þeir vilji aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Allar kannanir benda til þess að meirihluti samþykki aðild. Fréttamenn The New York Times (NYT) sem hafa ferðast um landið og birta grein um afstöðuna til ESB í blaðinu 18. janúar segja að áhugi á aðild minnki og augljóst sé að margir ætli að styðja hana án sannfæringar um gildi hennar fyrir land og þjóð.

Í blaðinu er sagt frá eggjabóndanum Zoran Sluga og heimsókn á 300 ára gamalt fjölskyldubýli hans skammt frá landamærum Slóveníu. Við honum blasi að sætta sig við þungt regluverk ESB um hæsnarækt sem verði til þess að hann verði að gjörbreyta öllu hæsnabúi sínu, umgjörðinni utan um hænurnar og meðferð á eggjum þeirra. Þá telji hann líklegt að ódýr egg frá Ítalíu muni kippa fjárhagslegum grundvelli undan rekstri hans. Ævistarfi hans sé stefnt í voða og hann spyrji: Hvers vegna?

„Sjáið hvað gerðist í Grikklandi,“ segir hann. „Þeir fengu milljarði frá ESB og dæmið gekk ekki upp.“

Blaðamennirnir segja að margt hafi breyst síðan Króatar sóttu um aðild að ESB. Þá hafi þeir haft áhuga á að slást í hóp hinna ríku, nú sé vonin um það orðin að engu. Skuldakreppa herji á evru-svæðinu, ríki séu að verða gjaldþrota og sjálf tilvist ESB sé jafnvel talin í hættu.

Bent er á að nýlegar kannanir sýni að Króatar segir líklega já við aðild. Síðan þurfi þjóðþing ESB-ríkjanna 27 að samþykkja aðildina sem komi til sögunnar 1. júlí 2013 og þá segir „að öllum líkindum síðasta nýja ríkið um langt árabil“. Bendir orðalag blaðamannanna ekki til þess að þeir telji líklegt að ESB opni aðildardyr sínar að nýju í bráð, ekki fyrr en eftir mörg ár.

Rætt er við Srdjan Dumicic, forstjóra Ipsos Plus, fyrirtækis sem efnt hafi til margra kannana á afstöðunni til ESB á undanförnum árum. Hann segir að stuðningur við aðild hafi minnkað undanfarnar vikur og hann kunni að verða naumur samkvæmt síðustu könnun sem ekki hafi verið birt. Sumir Króatar segja í gríni, að hans sögn, að þetta sé eins og koma í partí klukkan 2 eftir miðnætti. Helmingur gestanna sé fullur. Hinn helmingurinn sé farinn heim. „Þetta er ekki sama partí og var á miðnætti,“ segir Dumicic.

Blaðamennirnir segja að jafnvel hinn nýkjörni forsætisráðherra. jafnaðarmaðurinn Zoran Milanovic, lýsi því ekki af mikilli sannfæringu sem bíði Króata innan ESB. Hann segi að plúsarnir séu að vísu fleiri en mínusarnir. Hann leggur áherslu á gildi þess að tengjast 500 milljón manna markaði og fá 2 milljarða dollara í þróunarstyrki á næstu tveimur árum. Minna sé vitað um það hvað síðar gerist. Hann telur einnig mikils virði að laga réttarfar í landinu að kröfum Evrópusambandsins.

Honum er einnig ljóst að atburðir síðustu ára sýni að það séu ekki einvörðungu kostir sem fylgi aðild og Króatar verði að leggja mjög hart að sér í kröfuhörðu samkeppnisumhverfi.

NYT segir að gagnrýnendur aðildar gangi lengra en forsætisráðherrann. Þeir segi að nýlegir atburðir hafi sannað að Þjóðverjar og Frakkar taki allar mikilvægar ákvarðanir innan ESB og að þjóð á borð við Króata, aðeins 4,5 milljónir manna, muni hafa lítið að segja í sambandinu.

Þeir hafi einnig áhyggjur af því að ganga í sambandið um það leyti sem ESB-ríkjunum sé sendur reikningur vegna skulda Grikkja og annarra skuldugra þjóða. Þá óttist þeir að flóttamenn muni sækja til Króatíu sem á land að Adríahafi og þeir muni koma þangað á bátum eins og til Spánar, Möltu, Ítalíu og Grikklands.

„Á ESB-þinginu munum við eiga 12 þingmenn af meira en 740; í ráðherraráðinu höfum við sjö atkvæði af 350,“ segir Marjan Bosnjak, framkvæmdastjóri Króatíuráðsins, samtaka gegn ESB-aðild. „Við verðum eins og tölfræðileg skekkja. Hver mun láta sig sjónarmið Króata einhverju skipta?“

Bent er á að Króatar hefðu aldrei komist á þetta stig í samskiptum sínum við ESB án algjörrar aðlögunar að kröfum ESB, þeir hafi orðið að fara í mót þess til dæmis með því að samþykkja 350 ný lög. Enginn viti í raun hve mörg skjöl hafi gengið á milli viðræðuaðila af því að Króatar hefðu hætt að telja eftir 150.000 blaðsíður. Um 3.000 Króatar hefðu komið að aðildar- og aðlögunaraðgerðunum.

Bandarísku blaðamennirnir segja að oft vanmeti menn hve langt Evrópusambandið seilist í afskiptum sínum með það að markmiði að fella öll aðildarríki sín í sama rammann. Í því samhengi megi benda á eggjaframleiðslu. Þar virðist ekki litið fram hjá neinu smáatriði. Í reglum ESB segi að búr hæsna verði að vera að minnsta kosti 750 fersentimetrar að stærð fyrir hverja hænu og þar skuli vera hreiður, dritskál, prik og „krafs-bretti“. Sluga bóndi geri grín að þessu segi: „Hænur njóta meiri réttindin en menn innan ESB.“

Í NYT er hins vegar bent á að hvorki Sluga né aðrir eggjabændur í Króatíu sjái ástæðu til að fagna ESB-reglunum vegna þess kostnaðar sem þær hafi í för með sér. Sluga segist þurfa að verja 100.000 dollurum í ný búr eða 13.000 dollurum kaupi hann þau notuð. Hinn kosturinn sé að leyfa hænunum að ganga um lausar innan eða utan dyra, sem honum finnst skrýtið, því að við þær aðstæður geti hænurnar étið eigið drit og geri það. Auk þess mundi slík tilhögun kosta miklu meiri vinnu.

Þá lýsa blaðamenn NYT hvað ESB-aðild hafi í för með sér fyrir skipasmíðaiðnað Króata. Hann muni líklega ekki þola ESB-reglur og hverfa úr sögunni.

Í greininni er vitnað til sérfræðinga sem segja að aðild að ESB hafi stuðlað að aukinni siðmenningu meðal Króata sem hafi tekist á við mikla skömm vegna ógnarverka sem framin voru þegar barist var fyrir sjálfstæði landsins við upplausn Júgóslavíu á tíunda áratugnum.

Tvrtko Jakovina, sagnfræðingur við Háskólann í Zagreb, segir að Króatar hafi orðið fyrir áfalli þegar aðrar þjóðir mið og austur Evrópu, þar á meðal nágrannaþjóðin Slóvenar, hefðu gengið í Evrópusambandið árið 2004. „Þá gerðist það í fyrsta sinn í allri sögunni að landsvæði Króatíu var skilið frá einhvers konar evrópskum samruna,“ segir sagnfræðingurinn.

Evrópusambandið neitaði að hefja aðildarviðræður við Króata fyrr en þeir hefði aðstoðað við að handtaka Ante Gotovina, fyrrverandi hershöfðingja, sem var síðar dæmdur sekur um stríðsglæpi af dómstóli Sameinuðu þjóðanna. Þá var þess einnig krafist að ráðist yrði gegn spillingu með upptokkun á réttarkerfinu. Ivo Saander, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur verið ákærður fyrir spillingu.

Í NYT segir að baráttunni gegn ESB-aðild sé stjórnað úr þröngri þriggja herbergja skrifstofu án hita. Hinn eini sem hafi komið þangað fyrir klukkan 10 að morgni dag nokkurn fyrir skömmu hafi verið leigusalinn að krefjast greiðslu. Bosnja, framkvæmdastjóri Króatíuráðsins, sagði að það sameinaði 25 litla hópa og hefði aðeins 4.000 til 5.000 dollara til ráðstöfunar. (Ríkisstjórnin hafi sagt að hún ætlaði að verja 800.000 dollurum í sjónvarpsauglýsingar og aðildarupplýsingaherferð.)

Grein sinni ljúka bandarísku blaðamennirnir á því að meira að segja andstæðingar ESB-aðildar meðal Króata átti sig á því að eina framtíð lands þeirra sé innan ESB.

„Mér er ljóst að við verðum að ganga í ESB en ég veit einnig að það hefur ekki neitt gott í för með sér,“ segir Sluga eggjabóndi í lok greinarinnar í The New York Times.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS