Föstudagurinn 13. desember 2019

Fjármagnsflótti frá Spáni meiri en nokkru sinni fyrr - evru-svæðið „ekki lífvænlegt“ í óbreyttri mynd segir Mario Draghi


1. júní 2012 klukkan 11:38

Meiri fjármagnsflótti er nú frá Spáni en nokkru sinni fyrr vegna orðróms um að ríkisstjórn landsins verði að leita neyðaraðstoðar vegna hruns bankakerfisins. Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, segir evru-svæðið „ekki lífvænlegt“ að óbreyttu.

Seðlabanki Spánar birti tölur fimmtudaginn 31. maí sem sýna að í apríl hafi meira fjármagn verið flutt úr landinu en nokkru sinni fyrr. Spánverjar fluttu 66,2 milljarða evra til annarra landa í apríl í samanburði við 5,4 milljarða evra í sama mánuði 2011. Hefur aldrei verið flutt jafnmikið fé úr landi frá því að skráning fjármagnsflutninga hófst árið 1990. Spánverjar leggja peninga sína til geymslu í ríkjum Norður-Evrópu sem búa við eigin mynt (Bretland, Danmörk, Noregur og Svíþjóð) auk Sviss.

Bankia, fjórði stærsti banki Spánar, hefur farið fram á 19 milljarða evru aðstoð frá spænska ríkinu sem þegar á tæp 50% í bankanum. Spænska ríkið ræður yfir 4 milljöðrum evra í neyðarsjóði banka og verður því að snúa sér til fjármálamarkaða til að afla þess fjár sem dugar til að halda bankakerfi landsins á floti. Luis de Guindos, efnahagsmálaráðherra Spánar, sagði blaðamönnum miðvikudaginn 30. maí að spænski neyðarsjóðurinn mundi bjarga Bankia með því að gefa út skuldabréf.

Ávöxtunarkrafa á 10 ára spænsk ríkisskuldabréf nálgast nú 7%. Grikkir, Írar og Portúgalir neyddust til að leita á náðir annarra þegar vaxtakrafan á hendur þeim varð þetta há.

Í The Wall Street Journal hafa birst fréttir um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hafi þegar gert áætlun um neyðaraðstoð við Spán. Christine Lagarde, forstjóri AGS, bar þessar fréttir hins vegar til baka eftir fund sinn í Washington með Soraya Saenz de Santamaria, varaforsætisráðherra Spánar.

Varanlegi neyðarsjóður evru-svæðisins, European Stability Mechanism (ESM), kemur til sögunnar 1. júlí 2012. Hugsanlega kunna Spánverjar að leita til hans og herma fréttir að Santamaria hafi rætt þann kost við Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, fimmtudaginn 31. maí.

Robert Zoellick, forstjóri Alþjóðabankans, segir í grein sem birtist föstudaginn 1. júní í The Financial Times að líta beri til ESM, því að ólíklegt sé að ábyrgð sumra ríkisstjórna dugi bankakerfinu.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, sagði í ESB-þinginu fimmtudaginn 31. maí að seðlabankinn hefði að mestu nýtt alla þá kosti sem á hans valdi væru til að takast á við evru-vandann. Draghi minnti þingmennina á að seðlabankinn hefði þegar lækkað vexti á 1,2 trilljón evra lánum til banka.

Seðlabankastjórinn hvatti leiðtoga evru-ríkjanna 17 til að líta á málið í stóru samhengi og með nýjum úrræðum til framtíðar, seðlabankinn gæti ekki „fyllt tómarúmið sem skapast vegna aðgerðaleysis einstakra ríkisstjórna“.

Draghi hvatti til gjörbreytingar á bankakerfi evru-svæðisins, það yrði að koma á bankabandalagi evrunnar með sameiginlegu innstæðukerfi og einum sjóði til aðstoðar lánastofnunum í vanda.

„Sú skipan sem við höfum haft í meira og minna 10 ár og var talin lífvænleg við aðstæður þeirra tíma […] er ekki lífvænleg lengur nema gripið sé til frekari aðgerða,“ sagði Draghi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS