Danska ríkisstjórnin var mynduð í fyrra með það fyrirheit í sáttmála sínum að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku á kjörtímabilinu og leitað álits þjóðarinnar á því hvort falla ætti frá fyrirvörum sem Danir hafa sett vegna aðildar sinnar að ESB í varnarmálum og lögreglu- og dómsmálum. Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar vegna óróans innan ESB og vanda ríkisstjórnarinnar.
Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra skýrði frá því þriðjudaginn 26. júní að ekki yrði staðið við þetta fyrirheit stjórnarsáttmálans. „Við viljum svo sannarlega að gengið verði til atkvæðagreiðslunnar en óróleikinn í málefnum Evrópu um þessar mundir er slíkur á þessari stundu að ég tel ekki ráðlegt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu núna. Ég held að Danir vilji helst að meiri ró ríki í Evrópumálum áður en þeir ganga til atkvæða um þau,“ segir forsætisráðherrann á dr.dk, vefsíðu danska ríkisútvarpsins.
„Það er margt á döfinni innan ESB og nú ræða menn einnig breytingar á sáttmálunum og ég held að mikilvægt sé að stöðugleiki ríki innan ESB áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu hér,“ segir danski forsætisráðherrann.
Marlene Wind, sérfræðingur í ESB-málefnum við Kaupmannahafnarháskóla, segir við DR að það mundi í raun breyta litlu fyrir stöðu Danmerkur hvort efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um dómsmála- og varnarmálafyrirvarana núna. ESB hefði fjarlægst Danmörku svo mikið að litlu breytti hvað ákveðið yrði á þessum sviðum.
„Nú kemur tveggja hraða ESB til sögunnar og taki Danir nokkru sinni ákvörðun um að tengjast hinum öfluga kjarna þá hefur það í för með sér að ekki nægir að falla frá fyrirvörunum heldur verðum að taka jákvæða afstöðu til ESB,“ segir Marlene Wind.
Hún segist skilja pólitísk rök forsætisráðherrans fyrir að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem ekki séu líkur á að sagt verði já við að fella niður fyrirvarana. Í þessu felist hins vegar að ekki sé lengur nein alvara í umræðum um að greiða atkvæði um fyrirvarana. Miklu nær sé að greiða atkvæði um „allt málið“ frekar en bita hér og þar vilji menn á annað leita álits kjósenda.
„Ég get hins vegar ekki ímyndað mér að það gerist. Hvorki nú né eftir mörg ár því að það tekur venjulega nokkur ár að breyta sáttmálum og við stöndum frammi fyrir því vilji menn ganga eins langt og nú og virðist vera,“ segir ESB-sérfræðingurinn. Hún telur því líklegt að Danir lendi í sömu stöðu og Norðmenn [og Íslendingar] sem sitji utan við fundarsalina og ljósriti það sem kjarnaríkin innan ESB vilja og ákveða.
„Við munum laga okkur að því sem þeir gera í ríkisfjármálasambandinu og bankasambandinu á einhvern hátt,“ segir Marlene Wind.
Forystumenn dönsku stjórnarandstöðunnar lýsa vonbrigðum yfir afstöðu stjórnarflokkanna og að ekki verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um fyrirvarana á kjörtímabilinu.
Lykke Friis, málsvari Venstre-flokksins í ESB-málum, segir að nota hefði dönsku formennskuna innan ESB betur til að búa í haginn fyrir atkvæðagreiðslu um fyrirvarana. Nú sé hins vegar mikilvægast að huga að því hvernig unnt sé að búa þannig um hnúta að einhvern tíma verði unnt að greiða atkvæði um málið. Til þess sé hins vegar að líta að ríkisstjórnin njóti lítils stuðnings um þessar mundir og þess vegna hljóti allar þjóðaratkvæðagreiðslur að snúast um framtíð ríkisstjórnarinnar. Stjórnin mundi tapa atkvæðagreiðslu á þessari stundu.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.