Bernard Arnault, franski kaupsýslumaðurinn (63 ára), sem Forbes telur fjórða auðugasta mann heims, hefur sótt belgískan ríkisborgararétt við hlið hins franska. Þingnefnd í Belgíu er með málið til afgreiðslu. Fréttin um þetta veldur Frökkum áfalli og miklu pólitísku uppnámi á sama tíma og François Hollande Frakklandsforseti og franska ríkisstjórnin leggja lokahönd á lagafrumvarp um 75% skatt á hátekjumenn. Arnault staðfesti laugardaginn 8. september við belgíska blaðið La libre Belgique að hann hefði fyrir nokkru sótt um ríkisborgarétt í Belgíu. Hann ætli hins vegar áfram að greiða skatta í Frakklandi.
Bernard Arnault fer fyrir fyrirtækinu Louis Vuitton Moët Hennessy (LVHM) sem sérhæfir sig í sölu á lúxusvörum. Forbes setur hann í sæti fjórða auðugasta manns í heimi árið 2012, metur blaðið hann á 41 milljarð dollara. Hann er ekki aðeins auðugasti maður Frakklands heldur í Evrópu. Carlos Slim í Mexíkó er talinn auðugastur (69 milljarðar dollara), þá Bill Gates Bandaríkjunum (61 milljarður) og þriðji Warren Buffett Bandaríkjunum (44 milljarðar).
Í tilkynningu frá (LVHM) vegna umræðna um ríkisborgararéttinn segir að tvöfalt ríkisfang Arnaults breyti engu um skattborgararétt hans, hann verði áfram franskur. Stjórnendur LVHM segja að Bernard Arnault hafi um langt árabil átt hús í London og Belgíu. Hann hefði getað nýtt sér búsetu sína þar til að flytja skattborgararéttinn – við val á honum sé ríkisfang í fjórða sæti, komi á eftir aðal búsetustað eða staðnum þar sem efnahagsumsvifin séu mest. Menn þurfi ekki endilega að skipta um ríkisfang til að standa betur að vígi í skattalegu tilliti.
Bernard Arnault er fæddur í Norður-Frakklandi 1949. Hann hefur lengi látið að sér kveða í frönsku viðskiptalífi. Þegar François Mitterrand, fyrstur sósíalista, varð forseti Frakklands 1981 hvarf Arnault þrjú ár úr landi og stundaði viðskipti í Bandaríkjunumm, einkum fasteignaviðskipti í Flórída.
Við komuna aftur til Frakklands árið 1984 tók hann við stjórn fyrirtækisins Boussac sem þá átti í miklum erfiðleikum. Hann sneri dæminu við og eignaðist Christian Dior, Bon Marché og Conforama auk fleiri fyrirtækja. Árið 1988 eignaðist Christian Dior 32% í LVMH eiganda Louis Vuitton, kampavínsframleiðandans Moët & Chandon, koníaksframleiðandans Hennessy, ilmvatnsframleiðendanna Christian Dior, Givenchy et Kenzo. Síðan hefur fyrirtækið eignast Sephora lúxusverslanirnar DFS, úraframleiðendur eins og Tag Heuer, Zenith, Hublot og Chaumet.
Í La libre Belgique segir að umsókn Arnaults sé meðal 47.000 umsókna um ríkisborgararétt sem liggi fyrir belgísku þingnefndinni sem um þau mál fjalli. Nefndinni hafi borist umsókn auðmannsins fyrir viku. Með hana verði farið á sama hátt og aðrar. Til að geta fengið belgískan ríkisborgararétt verði menn að vera 18 ára, hafa búið þrjú ár í Belgíu, ef ekki að sýna fram á veruleg tengsl við landið. Þá verði menn að hafa hreint sakavottorð.
Bernard Arnault studdi Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í maí 2012. Hann hefur snúist hart gegn ofurskattastefnu sósíalista og gekk miðvikudaginn 5. september á fund Jean-Marcs Ayraults forsætisráðherra og lýsti áhyggjum sínum vegna áhrifa hennar á samkeppnishæfni franskra fyrirtækja.
Þingmenn franskra sósíalista hafa brugðist hart við fréttunum um að Arnault vilji fá belgískan ríkisborgararétt. Brun Le Roux, formaður þingflokks sósíalista, sakar Bernard Arnault um „landráð“. Þá vilja þeir að þingið kjósi nefnd til að rannsaka streymi fjár í skattaskjól.
François Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, sem nú berst fyrir formennsku í UMP-flokknum (mið-hægri), segir augljós tengsl á milli ákvörðunar Arnaults og skattastefndu Hollandes og ríkisstjórnar hans. Fillon er ómyrkur í máli og segir:
„Þegar teknar eru heimskulegar ákvarðanir verður niðurstaðan hroðaleg. Stjórnandi eins besta fyrirtækis í heimi sem er tákn fransks hugvits og velgengni og er þekkt um heim allann kann að neyðast til að skipta um ríkisfang vegna skattastefnu sem rekin er í landi okkar. Þetta er stórskaðlegt. Ef þetta mál – ég veit ekki hvort það hefur verið skýrt til fulls – gæti orðið til þess að ríkisstjórnin íhugaði sinn gang áður en hún hrindir framkvæmd áformum sínum sem reist eru á hugmyndafræði, lýðskrumi og stöðnun yrði það jákvætt.“
Kommúnistaflokkur Frakklands kveður einnig fast að orði. Hann tekur undir með þeim sósíalistum sem saka Arnault um landráð. Kommúnistar segja að hann hafi grátbænt franska forsætisráðherrann um að falla frá 75% skattinum og þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann leiti til annars lands, það hafi hann gert árið 1981. Arnault sé pape de l'ultralibéralisme , páfi öfgafrjálshyggju með Nicolas Sarkozy, og það þurfi að grípa til refsiaðgerða gegn þeim sem kosti Frakka 80 til 100 milljarða evra á ári.
Philippe Poutou, sem var forsetaframbjóðandi Nouveau Parti anticapitaliste (NPA), Nýja flokks andkapítalista, segir:
„Ef Bernard Arnault ætlar að verja gróða sinn með því að flytjast til Belgíu ber að refsa honum með því að gera eignir hans upptækar, það ber að taka fyrirtæki hans eignarnámi. Hann getur farið ef hann vill en fjármunirnir fara ekki! Auðlegðin hefur orðið til vegna vinnu þeirra sem hafa innt hana af hendi með erfiði sínu og hugviti.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.