Laugardagurinn 27. febrúar 2021

John Major: ESB mun óhjákvæmilega breytast - Bretar eiga að nota tækifærið til að sættast innbyrðis með nýjum aðildarskilmálum


17. september 2012 klukkan 14:13
John Major

John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, ritaði grein í The Sunday Telegraph hinn 16. september til að minnast þess að þá voru 20 ár liðin frá því að Bretar neyddust til að segja sig úr gjaldmiðlasamstarfi ESB-ríkjanna, ERM. Hann segir að því hafi fylgt pólitískar hamfarir sem vörpuðu löngum og illvígum skugga yfir ríkisstjórn Íhaldsflokksins sem hann leiddi á þeim tíma. Klofningur hafi orðið innan Íhaldsflokksins og harka hlaupið í bitrar deilur innan flokksins um stöðu Bretlands í Evrópu, umburðarlyndi hafi horfið í flokknum og flokkshollustan, leynivopn hans til þessa, orðið að engu. Eftirleikurinn hafi getið af sér fleiri goðsögur en Grikkir á sínum tíma.

Hann fer yfir aðdraganda aðildar Breta að ERM og segir sögu málsins frá sínum sjónarhóli. Hann segir að mistök eins og gerð voru í málinu hverfi ekki úr huga þeirra sem hlut áttu að máli. Hann segist hafa ákveðið að segja af sér árið 1992 en samstarfsmenn og vinir hafi hvatt sig til að sitja áfram, hann hafi gert það en aldrei sannfærst um að það hafi verið rétt hjá sér. Nú sé þetta allt að baki og fái sinn sess í sögunni. Hin pólitíska arfleifð birtist hins vegar í erfiðum umræðum um Evrópumálin.

Þá segir John Major:

„Brýn úrlausnarefni bíða í Evrópu. Hugsjónin um Evrópusambandið er göfug: raunveruleikinn er annar. Aðilana greinir á um krísuna á evru-svæðinu, fjárlagahalla, stjórn á seðlabankanum, kjarnorkuver og marga þætti alþjóðamála. Þetta er samband að nafninu til en ekki þegar kemur að stefnumörkun.

Fyrir rúmum 20 árum ákvað ég að ganga ekki í evru-samstarfið. Ég gerði það með vísan til flókinna raka, augljósasta ástæðan var að ég taldi að myntsamstarf án ríkisfjármálasamstarfs gengi ekki upp efnahagslega. Aðrir evrópskir leiðtogar voru annarrar skoðunar. Þeir litu á evruna sem pólitískt forgangsmál. Við sjáum nú afleiðingar þess að velja frekar stjórnmál en efnahagsmál.

Tekist hefur að verja evruna til skamms tíma með gífurlegu fjármagni. Ekkert hefur hins vegar verið gert til að leysa vandann sem að baki býr: hvernig er unnt að tryggja sambúð máttlausra hagkerfa við hlið öflugra hagkerfa innan sama myntsvæðis?

Sannleikurinn er einfaldur, það er ekki unnt til langframa: til að halda lífi verða máttlausu hagkerfin að styrkjast. Breyting í þá átt krefst hins vegar fjárstuðnings til langs tíma og þá er einnig óhjákvæmilegt að grípa til erfiðra aðgerða eins og launalækkunar til að bæta samkeppnisstöðu. Það verður aldrei auðvelt né fljótlegt og kann ef til vill alls ekki að takast. Ríkin sem eru í hópi lánveitenda verða að átta sig á að ekki er unnt að krefjast endalauss niðurskurðar: sé of þungra byrða krafist kunna opin lýðræðisríki ekki að standa undir þeim. Rétt er að minnast þess að Grikkland, Ítalía, Portúgal og Spánn eiga sér ekki langa sögu sem lýðræðisríki eða sem fullþroskuð lýðræðisríki.

Atburðir á evru-svæðinu nálgast það stig að ekki verði haldið áfram á sömu braut. Enginn veit með vissu hvað gerist næst en þó má sjá útlínur framtíðarinnar. Ég býst við að evru-svæðið verði í stórum dráttum óbreytt. Áform Þjóðverjar um dýpri samruna – til ríkisfjármálasambands og sambandsríkisskipan - munu ganga eftir en mjög hægt. Á þessum biðtíma verður vöxtur evru-svæðisins brenndur af óvissu og ráðleysi.

Sum evru-ríkju kunna að segja skilið við vegferðina í átt til sambandsríkis annaðhvort vegna efnahagslegs veikleika eða pólitísks viljaleysis til að fella mikilvægar ákvarðanir undir sameiginlega stjórn. Ríkin sem eftir verða – nýi innri kjarninn ˗ munu tengjast nánari böndum, falla betur saman, verða meira í ætt við sambandsríki, meira sjálfum sér nóg og ˗ það sem ræður úrslitum ˗ þau munu breyta framvindu alls Evrópusambandsins. Við [Bretar] verðum ekki hluti af innri kjarna. Við viljum það ekki heldur. Það mundi ganga gegn sögu okkar, tilfinningum okkar og hagsmunum okkar. Staða okkar mun breytast vegna þess að staða þeirra breytist.

Breytingarnar undir stjórn Þjóðverja eru svo djúpstæðar að ekki er unnt að lauma þeim í gegn með feluleik. Áhrifanna mun gæta hjá hverri ESB-þjóð. Með dýpkandi samruna verðum við ekki hinir einu sem leitumst eftir að skapa trúverðugt skipulag utan sambandsríkis-kjarnans en innan sameiginlegs markaðar og ESB í heild. Sáttmáli – sem krefst einróma samþykkis – kann að reynast nauðsynlegur.

Við verðum að setja okkur skýr markmið. Enginn helstu stjórnmálaflokkanna vill segja skilið við ESB. Í heimi þar sem samvinna verður sífellt meiri væri það öfugþróun: rómantískt glapræði. Breskir kjósendur vilja hins vegar ekki taka upp evru. Um fyrirsjáanlega framtíð er mikill meirihluti andvígur því þótt hinir forsjálu vilji ekki loka dyrunum í eitt skipti fyrir öll ˗ aðstæður verða ef til vill aldrei til upptöku, jafnvel í augum þeirra sem vilja skoða allt með opnum huga. Hún verður ekki á meðan ég lifi.

Mótist sameinaður evru-kjarni leiðir það til grundvallarbreytinga. Þær kunna að verða skref fyrir skref og taka mörg ár en fráleitt er að efast um áhrif þeirra. Við þetta verða einnig til tækifæri. Geti innri kjarnaríkin breytt tengslum sínum við ESB í heild á róttækan hátt kann ríkjum utan kjarnans að þykja eðlilegt að gera hið sama. Unnt er að komast að málamiðlun. Í meira en hálfa öld hafa tengslin við Evrópu skapað vandræði í breskum stjórnmálum. Tækifærið til að leysa þau á þann hátt að falli betur að hagsmunum okkar og tilfinningum er á næsta leiti.

Umræðurnar um Evrópu hafa í of mörg ár stjórnast meira af tilfinningahita en raunsæju mati – og aldrei hefur skort hinn mesta illvilja. Nú er tími til þess kominn að kanna staðreyndir af nákvæmni og taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra. Framtíð okkar allra er í húfi.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS