Þriðjudagurinn 16. ágúst 2022

Evrópa verður að nýju tákn vonar segir Van Rompuy í Osló - Nóbels­nefndin sætir harðri gagnrýni


9. desember 2012 klukkan 18:22

Evrópa kemur sterkari frá núverandi kreppu og verður að nýju tákn vonar, sagði Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, í Osló sunnudaginn 9. desember en þangað var hann kominn til að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels til ESB. Veiting verðlaunanna er umdeild og telja margir að Nóbelnefndin undir formennsku Thorbjörns Jaglands sé að gera þau léttvægari en áður.

Þrír forsetar frá ESB, formaður Nóbelsnefndar og framkvæmdastjóri á blaðamannafundi í Osló 9. desember.

„ESB glímir nú við erfiðleika. Ég er viss um að við munum sigrast á þeim. Við munum standa sterkari eftir að óvissu og samdrætti er lokið,“ sagði Van Rompuy. „Við viljum að Evrópa verði að nýju tákn vonar.“

Efnt var til blaðamannafundar daginn fyrir verðlaunaafhendinguna mánudaginn 10. desember. Herman Van Rompuy kom til Oslóar með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Martin Schulz, forseta ESB-þingsins.

Thorbjörn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, er formaður Nóbelnefndarinnar. Hann er eindreginn talsmaður ESB-aðildar Noregs. Það sjónarmið hefur sjaldan eða aldrei notið minni stuðnings Norðmanna, þeir hafa tvisvar sagt nei við aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Jagland sagði við fréttamenn að í rúma sex áratugi hefði ESB gegnt lykilhlutverki við að breyta átakaálfu í friðarálfu. Oft hafi menn deilt á dramatískan hátt á þessum árum en allar deilur hafi að lokum verið leystar með sáttargjörð.

Angela Merkel Þýsklandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti verða við athöfnina í Osló en ekki David Cameron, forsætisráðherra Breta.

Ákvörðunin um að heiðra ESB á þennan veg hefur ekki mælst vel fyrir hjá öllum í Noregi. Jens Stoltenberg forsætisráðherra er ESB-aðildarsinni og fagnar ákvörðun Nóbelnefndarinnar en hið sama verður ekki sagt um ráðherra Miðflokksins sem ætla ekki að taka þátt í athöfninni 10. desember.

Samtökin Nei til EU efna til mótmæla og segja að ESB sé ekki verðugur viðtakandi þessa heiðurs: hernaðarstefna þess sé ekki í þágu afvopnunar; innan þess ríki krísa sem leiði af sér „óreirðir, öfgar“; viðskiptastefna gagnvart fátækum ríkjum sé hrokafull og flóttamenn séu illa séðir enda reynt að halda þeim utan ESB-ríkja.

„Í stað þess að hafa á sér yfirbragð samheldni í anda kjörorðsins: einn fyrir alla, allir fyrir einn, er ESB nú að klofna í norður og suður hluta, milli ríkra og fátækra, ríki innan eða utan evru-svæðisins og svo framvegis,“ sagði Hemming Olaussen formaður Nei til EU.

Í frétt AFP um afhendingu verðlaunanna segir að Evrópuhreyfingin í Noregi hafi hætt að berjast fyrir aðild Noregs að ESB og mæli nú aðeins með nánari tengslum. Forystumenn hreyfingarinnar átti sig á að enginn áhugi sé á aðild meðal Norðmanna.

AFP segir að gagnrýnendur verðlaunanna í Noregi telji að jafnaðarmaðurinn og ESB-aðildarsinninn Thorbjörn Jagland hafi fært sér í nyt að Ågot Valle, ESB-andstæðingur, hefur ekki getað sótt fundi Nóbelnefndarinnar vegna veikinda.

Olaussen vekur athygli á að verðlaunin séu ekki veitt af Noregi eða Norðmönnum. „Þau eru veitt af sjálfstæðri nefnd fimm fyrrverandi stjórnmálamanna sem að mínu mati hafa pólitísk markmið,“ sagði hann.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS