Laugardagurinn 6. mars 2021

Europol varar við útlægum mótórhjólaklúbbum - líkur á innbyrðis átökum aukast - nýir koma til sögunnar


22. desember 2012 klukkan 16:51

Europol, Evrópulögreglan, óttast að koma fulltrúa nýrra glæpagengja eins og Comancheros og Rebels frá Ástralíu, Rock Machines frá Kanada og Mongols og Vagos frá Bandaríkjunum skapi spennu gagnvart þekktum mótórhjólaklúbbum í Evrópu.

Í tilkynningu frá Europol föstudaginn 21. desember segir að útlaga mótórhjólaklúbbum (ÚTMK) Outlaw Motorcycle Gang (OMCG) hafi fjölgað verulega síðan 2010 og þeir séu nú rúmlega 700. Fjölgunin hafi einkum orðið í Norðaustur- og Suðaustur-Evrópu. Til hliðar við fjóra höfuðklúbba - Hells Angels Motorcycle Club (MC), Bandidos MC, Outlaws MC og Gremium MC – hafi einnig orðið til nýir heimaklúbbar eins og Satudarah Maluku MC og Blue Angels MC í Norðvestur-Evrópu.

Talið er að spenna aukist ekki aðeins milli þeirra ÚTMK sem hafa búið um sig í Evrópu heldur séu nú nýir ÚTMK að sækjast eftir áhrifum í álfunni frá Ástralíu (þ.e. Comanchero MC og Rebels MC), Kanada (þ. e. Rock Machine MC), og Bandaríkjunum (þ.e. Mongols MC og Vagos MC). Þetta kunni að leiða til vopnaðra átaka.

Europol óttast að aukin umsvif ÚTMK megi rekja til áforma klúbbanna um að ná betri og meiri ítökum á svæðum þar sem „markaður“ sé fyrir glæpi, til dæmis við smyglleiðir á fíkniefnum, vopnum og fólki. Sækist nýr klúbbur eftir aðstöðu á yfirlýstri „torfu“ annars ÚTMK er litið á það sem ögrun og kann að leiða til átaka og hefndaraðgerða. Bent er á „Norrænu hjólastríðin“ á tíunda áratugnum sem sláandi dæmi um hve ofbeldisverkin geti orðið ofsaleg þegar ÚTMK í Evrópu vilja tryggja sér aðstöðu.

Europol segir að meginhættuna sem steðjar að almenningi vegna ÚTMK megi rekja til þess hve félagsmenn klúbbanna grípi til skelfilegra ofbeldisverka. Þeir noti til dæmi sjálfvirka rifla af Kalashnikov-gerð og sprengiefni eins og handsprengjur og þá sé einskis svifist í átökum milli klúbbanna. Það sé hluti af starfi ÚTMK að beita hótunum og ofbeldi og með þessum aðferðum sé höfð stjórn á mönnum innan klúbbsins og aðrir neyddir til undirgefni. Með því að sýna „lit“ sinn og merki – eða „pjötlur“ – reyni klúbbfélagar að nýta sér hið grimma orðspor sem af þeirra ÚTMK fer til að tryggja stöðu sína á glæpamarkaði heimabyggðar sinnar. Eins og málum er nú háttað kemur helst til ofbeldisverka vegna átaka um yfirráðasvæði milli ólíkra ÚTMK auk þess sem klúbbarnir eiga í útistöðum við skipulagða glæpahópa og götugengi.

Europol segir að notkun mótórhjóla setji minni svip en áður á lífsstíl klúbbfélaga – raunar sé svo komið að sumir félaganna eigi hvorki mótórhjól né ökuskírteini. Þessi breyting móti hvernig unnið sé að fjölgun félaga og að því að nýta götugengi í þágu klúbbanna. Hells Angels MC hafi til dæmis komið á fót hópnum AK81 (Altid Klar 81) til að taka með vopnum þátt í „gengjaátökum“ um heimamarkaði í Danmörku. Við leit að nýjum félögum beini ÚTMK athygli að fangagengjum, öfgahópum til hægri, ólátabullum og hermönnum í von um að geta nýtt þjálfun þeirra og þekkingu.

Félagar í ÚTMK eru einnig þekktir sem eitt-prósentið (1%) og þeir ganga jafnvel með pjötlu á leðurvestum sínum sem sýnir að þeir eru ekki hluti hinna 99% mótórhjólamanna sem fara að lögum.

Europol hefur upplýst yfirstjórnendur lögreglumála í einstökum löndum um umtalsverða útþenslu ÚTMK í Evrópu og hvatt þá til að fylgjast náið með og greina starfsemina hver á sínum stað vegna þeirra áhrifa sem hún kann að hafa á þróun skipulagðrar glæpastarfsemi á einstökum svæðum auk þess sem líkur á staðbundnum átökum ólíkra hópa vaxa. Þá býður Europol fram aðstoð við þau ríki þar sem menn standa frammi fyrir vaxandi hættu frá útlægum mótórhjólaklúbbum. Loks eru stjórnendur lögreglumála í einstökum löndum hvattir til að færa á eina hendi ákvarðanir um aðgerðir gegn ÚTMK.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS