Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Kostir utanríkis­ráðherra: Ísland lítið „snjallríki“ eða partur af stærri ESB-heild


13. febrúar 2013 klukkan 15:29

Össur Skarphéðinsson í Brussel

Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til alþingis sem lögð var fram þriðjudaginn 12. febrúar eru í kaflanum um ESB-málefni kynntir tveir kostir fyrir Ísland. Að þjóðin rói ein á báti í „litlu snjallríki“ og telji sig klárari en „flestar aðrar þjóðir“ eða að Ísland verði „partur af stærri og sterkari“ efnahagslegri heild innan Evrópusambandsins. Valið stendur að mati ráðherra á milli þess að vera einn á báti „í ólgusjó þjóðanna“ eða að vilja styrkja fullveldið „með því að deila því með

öðrum þjóðum“.

Í skýrslunni kemur fram að „fast“ hafi verið haldið á hagsmunamálum Íslendinga í ESB-aðildarviðræðunum sem lýst er sem einu „stærsta utanríkispólitíska viðfangsefni sem Ísland“ hafi tekið sér fyrir hendur. Til marks um hve „fast“ hefur verið haldið á málstað Íslands er nefnt að viðurkenning hafi fengist á því um sjálft ferlið að Íslendingar hafi heimild til að haga aðlögun reglna, laga og stofnana sinna þannig að til hennar komi ekki „fyrr en þjóðin hefur goldið jáyrði í þjóðaratkvæði“. Sömuleiðis hafi náðst sterkur skilningur á sérstöðu Íslands vegna „fámennis, einangrunar og strjálbýlis“. „Forysta ESB“ hafi bréfað þennan skilning „í opnun bæði byggða- og landbúnaðarkafla“. Stöðugt sé unnið að því „að ná upp sama skilningi varðandi sjávarútvegsmálin“,þar sem enn sé ólokið að opna viðkomandi kafla.

Í skýrslunni segir:

„Eitt meginmarkmið aðildar er að tryggja efnahagslegan stöðugleika með lágum vöxtum, lágri verðbólgu og lágu verðlagi, og skapa íslensku atvinnulífi og heimilum þannig trausta umgjörð. Vill Ísland vera áfram litla snjallríkið sem rær eitt á báti, ekur seglum eftir vindum og telur sig klárara en flestar aðrar þjóðir? Viss reynsla af þeirri leið fékkst með hörmulegum afleiðingum 2008. Hinn valkosturinn, sem Evrópuleiðin býður upp á, er að Ísland verði partur af stærri og sterkari efnahagslegi heild, og öðlist þannig stöðugleika, með þeim ávinningum sem honum tengjast: lægri vöxtum, lægri verðbólgu, lægra verðlagi, og að lokum afnámi verðtryggingar.

Aðild að ESB snýst líka öðrum þræði um fullveldi Íslands og öryggi – hvort Íslandi farnist betur eitt á báti í ólgusjó þjóðanna eða vilji styrkja fullveldi sitt með því að deila því með öðrum þjóðum, einsog við höfum gert á öðrum sviðum. Þátttaka í Evrópusambandinu gæfi Íslendingum sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar, og reynsla smáríkja sýnir að þau læsa klóm saman til að verja hagsmuni hvers annars. Fyrir vikið er geta þeirra til að hafa áhrif að jafnaði langt ofan við þann þyngdarflokk sem stærð smáþjóða gefur ella til kynna. Athyglisvert er að smáþjóðir á Norðurlöndum, í Eystrasalti og í Mið-Evrópu eru samdóma um að reynslan sýni að þessi leið hafi styrkt fullveldi þeirra.“

Undir lok inngangskafla skýrslunnar ESB-viðræðurnar segir:

„Nú sér til lands í aðildarviðræðunum. Segja má að aðeins sé lokaáfanginn eftir. Þar verður

útkljáð hvernig sérstaða Íslands verður metin í sjávarútvegi og landbúnaði, og hver verða

efnahagsleg áhrif aðildar fyrir íslensk heimili og fyrirtæki þegar íslenska krónan kemst í skjól

innan ERM II, og stefnan verður tekin á upptöku evru. Þegar aðildarsamningur liggur fyrir

munu Íslendingar sjálfir fá að taka afstöðu til efnislegrar niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS