Endurskoðendur Evrópusambandsins, European Court of Auditors (ECA), birta jafnan í nóvember skýrslu sína um ESB-reikninga ársins áður. Fyrir fáeinum dögum sendu þeir frá skýrslu fyrir árið 2012. Eins og jafnan áður í tæp 20 ár neita endurskoðendurnir að samþykkja reikningana og stofnað er til umræðna um svik og hrikalega óstjórn. Forráðamenn ESB reyna að gera sem minnst úr málinu og snúast ekki til varna gegn gagnrýnendum ESB sem telja þetta til marks um brotalöm í sambandinu og stjórn þess.
Þegar endurskoðendurnir (ECA) birtu skýrslu sína fyrir árið 2012 kom í ljós að eitthvað var athugavert við ráðstöfun á um 4,8% af sjóðum ESB. Þetta er hærri tala en 2011 þá var hún 3,9%. Sé þetta hlutfall innan við 2% geta endurskoðendurnir sagt að reikningarnir séu „án efnislegra villna“.
Á vefsíðunni EUobserver segir að nú hafi orðið sú breyting á afstöðu embættismanna ESB að þeir sitji ekki lengur þegjandi undir gagnrýni vegna reikningshaldsins heldur svari fyrir sig.
Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, var í september sakaður um að skipta sér af starfsumboði endurskoðendanna eftir að hann hvatti þá til „íhuga frekar hvernig þeir gætu ýtt undir slípaðri frásagnir fjölmiðla“. EUobserver segir orðum aukið að Van Rompuy hafi reynt að fá endurskoðendurna til að beita óheiðarlegum spuna um ESB-reikningana.
Um er að ræða tæplega 140 milljarða evru ráðstöfunarfé á fjárlögum og reikningum ESB. Það er ekki sanngjarnt að halda því fram að við ráðstöfun á þessu fé sé unnt að skilja skýrt á milli útgjaldaliða og meta hvort staðið hafi verið að ráðstöfun fjár eftir svart/hvítri reglu. Í mörgum tilvikum er um grá svæði að ræða og þar er matið oft flókið.
Almennt lýsa endurskoðendurnir þeirri skoðun að rétt sé staðið að reikningshaldi ESB. Sumar greiðslur hafi hins vegar verið inntar af hendi án þess að fara að réttum reglum eða um aðra ágalla er að ræða.
Framkvæmdastjórn ESB segir að endurskoðendurnir hafi almennt lagt blessun sína yfir reikningana allt frá árinu 2007 og bendir á „að skráð hafi verið í bækur og gerð grein fyrir ráðstöfun á hverri einustu evru“. Frakvæmdastjórnin segir einnig að ekki sé unnt að bæta ráðstöfun fjár úr sjóðum ESB „nema aðildarríkin leggi sig einnig fram í því skyni“.
Í skýrslunni segir til dæmis að 56% af villum við ráðstöfun á fé úr byggða- og samheldnisjóðum ESB „hefði mátt og hefði átt“ að koma í veg fyrir af ríkisstjórnunum sem sóttu um fé í sjóðina.
Vitor Manuel da Silva Caldeira, frá Portúgal og formaður ECA, lagði áherslu á þetta þegar hann skýrði skýrslu endurskoðendanna fyrir fjölmiðlamönnum þriðjudaginn 5. nóvember.
Þegar litið er til þeirra 10 milljarða evra sem renna til stjórnunarkostnaðar ESB-stofnana hafa endurskoðendurnir engar athugasemdir fram að færa, þar sé ekki um nein „efnisleg mistök“ að ræða við reikningshald.
Af ESB-sjóðum falla 80% beint undir ráðstöfun einstakra ríkja, þar er helst misfarið með fé þegar um dreifbýlisstyrki er að ræða, 7,9%.
Málsvarar ESB taka meðal annars til varna með því að benda á alríkisreikningur Bandaríkjanna hafi ekki hlotið þá blessun endurskoðenda í 15 ár að allt sé með felldu þegar litið sé til útgjalda.
Það er í greiningu af þessu tagi sem menn ná markmiðinu um hófstilltari og slípaðri umræðum um reikninga ESB. Hún má hins vegar ekki verða til þess að menn missi sjónar á meginmarkmiðinu sem er að auka gagnsæi vegna greiðslna ESB og skýrari ábyrgð á töku ákvarðana um þær. Þá sé unnt að endurheimta fé sem lendir í röngum höndum.
Framkvæmastjórninni ber að krefjast endurgreiðslu ef ríkisstjórnir láta undir höfuð leggjast að bregðast við misbresti í reikningshaldi. Árið 2012 tókst Brusselmönnum að endurheimta 4,4 milljarða evra sem lentu í röngum höndum eða farvegi.
Heimild: EUobserver
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.