Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé „grætilegt eftir á að hyggja að okkur [ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur] skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum og eftir atvikum landbúnaðar- og dýraheilbrigðisköflunum lengra áfram [í ESB-viðræðunum] þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum“. Sérfræðingur sem hefur kynnt sér gang aðildarviðræðnanna telur að þeim hafi í raun lokið á árinu 2011 þegar ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál. Steingrímur J. gerði sér ferð til Brussel í janúar 2012 til að fá rýniskýrsluna en var neitað um hana.
Í viðtali á sjónvarpsstöðinni ÍNN miðvikudaginn 12. mars sagði Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri og höfundur þess kafla skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar að viðræðunum hefði í raun lokið á árinu 2011 þegar framkvæmdastjórn ESB ákvað að kynna Íslendingum ekki niðurstöðu rýnivinnu sinnar um sjávarútvegsmál. Megi draga þá ályktun að svo mikið hafi borið í milli í afstöðu ESB annars vegar og þeirra takmarkana á umboði íslensku viðræðunefndarinnar sem sett hafi verið í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar alþingis að litið yrði á það sem viðræðuslit ef sjónarmið ESB yrðu kynnt.
Í umræðum um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afturköllun aðildarumsóknar Íslands á alþingi þriðjudaginn 11. mars vakti Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, máls á því að Steingrímur J. Sigfússon, þáv. formaður vinstri-grænna, hefði við atkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina 16. júlí 2009 sagt:
„ Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“
Lagði Óli Björn þá spurningu fyrir Steingrím J. hvort nokkuð hefði breyst síðan hann gaf þessa yfirlýsingu. Steingrímur J. svaraði að þessi yfirlýsing hefði verið gefin þar sem það gæti „einfaldlega verið svo langt á milli aðila og svo fjarri því t.d. að Evrópusambandið féllist á okkar grundvallarhagsmuni að við settumst niður, mætum stöðuna og segðum: Þetta þýðir ekki neitt, við skulum bara hætta þessu. Auðvitað. Ég vildi bara hafa það á hreinu. […]Staðan núna er allt önnur. Nú erum við þar sem við erum.“
Óli Björn Kárason spurði eftir þetta svar:
„Ef umsóknarferlið var ekki siglt í strand 2012, ef það er ekki siglt í strand núna og var siglt í strand í janúar 2013 þegar þáverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að gera hlé á samningunum, af hverju var ekki tekin ákvörðun í samræmi við yfirlýsingu í atkvæðagreiðslu í júlí 2009 um að slíta aðildarviðræðum líkt og [Steingrímur J.] áskildi sér allan rétt til að gera?“
Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon:
„Mitt mat var það að á árinu 2012, a.m.k. langt fram eftir því ári, voru engin þau tímamót uppi sem kölluðu á að endurskoða viðræðurnar, hvað þá slíta þeim. Það var m.a. þannig að allt það ár fram á haust bundu menn vonir við að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Eitt af mínum fyrstu verkum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2012 var einmitt að fara til Brussel og leggja ekki síst áherslu á það að Evrópusambandið drifi sig í að leggja fram rýniskýrslu sína þannig að við gætum farið í að ræða sjávarútvegsmálin eða sjá a.m.k. á spil Evrópusambandsins í því. Það var ekkert nýtt af okkar hálfu. Við höfðum lagt á það mikla áherslu. Í raun og veru er það sem er grætilegt eftir á að hyggja að okkur skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum og eftir atvikum landbúnaðar- og dýraheilbrigðisköflunum lengra áfram þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum. Ég var og er mjög spenntur fyrir því að sjá það. Það er í sjálfu sér það sem eftir er til að við fáum einhverja mynd af því í hve ríkum mæli eða hvort Evrópusambandið býður upp á einhverjar þær sérlausnir fyrir okkur í þessum efnum sem gætu verið athugunarvirði.
Það voru að mínu mati engin tilefni til að gera brot í þetta ferli á árinu 2012 fyrr en leið að lokum þess og eftir ríkjaráðstefnuna í desembermánuði. Þá var orðið ljóst að við yrðum engu nær þegar kæmi að kosningunum enda biðum við átekta fram yfir ríkjaráðstefnuna í desember. Í beinu framhaldi af því tóku stjórnarflokkarnir [Samfylking og vinstri grænir] að ræða saman um að úr því sem komið væri yrði að horfast í augu við að mikið meira mundi ekki gerast í þessu ferli fyrir kosningar. Þá væri lýðræðislegast að hægja á því og láta næsta kjörtímabil um að takast á við framhaldið.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.