Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ


23. maí 2014 klukkan 11:27
Kolbeinn Árnason

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ESB því útséð sé um að innan ESB fengi Ísland full yfirráð yfir samningum um markaðssvæði eða um veiðar úr flökkustofnum. Kolbeinn var formaður sjávarútvegshóps ESB-viðræðunefndar Íslands sem var aflögð á árinu 2013.

Ummæli Kolbeins Árnasonar féllu á fundi sem Evrópustofa boðaði til í Víkinni í hádegi fimmtudags 22. maí og er sagt frá honum í Fréttablaðinu föstudaginn 23. maí. Auk Kolbeins voru Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ, Bjarni Már Magnússon, lektor við HR, og Henrik Bendixen, sérfræðingur í sjávarútvegi við sendinefnd ESB á Íslandi, frummælendur á fundinum. Bjarni Már skrifaði um sjávarútvegsmál í skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Henrik Bendixen áréttaði mikilvægi þess að ítarleg umræða færi fram um stöðu sjávarútvegsins í tengslum við mögulega aðild að ESB. Þá væri eina leiðin til að leiða fram afstöðu ESB í álitamálum að ljúka viðræðum. Hans persónulega skoðun væri hins vegar að hvað viðræðurnar sjálfar varðaði þá hafi staða mála viljað bjagast í almennri umræðu.

Viðræður Íslands og ESB sigldu í strand vegna þess að fulltrúar ESB neituðu að afhenda íslensku viðræðunefndinni skýrslu sína um niðurstöðu rýniviðræðna. Íslensk stjórnvöld settu afhendingu rýniskýrslunnar sem skilyrði fyrir kynningu sinni á samningsmarkmiðum Íslendinga í sjávarútvegsmálum.

Í Fréttablaðinu er vitnað í Henrik Bendixen um að sérfræðingar Evrópusambandsins hafi séð „lítil vandkvæði … á kaflanum um sjávarútvegsmál eftir ítarlega kynningu íslenskra sérfræðinga úti í Brussel“. Helstu vandamál annarra landa í þessum efnum hafi verið veikburða stjórnsýsla, en hér væri við lýði eitt besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims. „Augljóst væri að íslenska svæðið yrði sjálfsstjórnarsvæði og engin ástæða væri til að ætla að Evrópusambandið hefði afskipti af ákvörðunum sem hér yrðu teknar um úthlutun aflaheimilda,“ er haft eftir Bendixen í Fréttablaðinu og einnig:

„Íslendingar gætu hagað sínum málum eftir eigin höfði, svo fremi sem það gengi ekki gegn grunngildum sambandsins. Vegna þess að Ísland er ekki í ESB þá eru í sambandinu ekki til neinar reglur um hafsvæði Íslands. Ákveðið eins mikið og hægt er á meðan á viðræðum stendur til þess að þetta liggi fyrir komi að aðild.“

Kolbeinn Árnason sagði óþarfa að ganga lengra í samningum því útséð sé um það að innan ESB hefði Ísland full yfirráð yfir samningum um markaðssvæði eða um veiðar úr flökkustofnum. Við bættust svo hlutir eins og að hér væri erlend fjárfesting í sjávarútvegi óheimil, sem samrýmist ekki grunnreglum ESB. Þá færi illa saman ríkisstuðningur við sjávarútveg sem viðgengist í Evrópulöndum og kerfið sem hér er við lýði.

Kolbeinn sagði ljóst að aðild að Evrópusambandinu fylgdu bæði kostir og gallar og enn vægju fyrirsjáanlegir gallar þyngra en ábati sem kynni að fylgja hlutum á borð við nýjan gjaldmiðil, niðurfellingu tolla og aukinn aðgang að markaðssvæðum. Deilur um flökkustofna endurspegluðu stöðuna ágætlega, Ísland hefði engan makrílkvóta fengið hefði það verið aðili að ESB, enda ekki með veiðireynslu úr stofninum.

Henrik Bendixen sagðist aldrei hafa skilið vandamálið við erlenda fjárfestingu. Íslensk fyrirtæki fjárfestu í sjávarútvegi víða um heim og staða sjávarútvegs væri svo sterk á Íslandi að hugaðan fjárfesti þyrfti til að ætla sér að hasla sér völl í þeim geira hér og hann hefði heldur aldrei áttað sig á því hvaða vandamál væru því tengd að útlendingar fjárfestu í sjávarútvegi hér og efldu með því atvinnuuppbyggingu, segir í Fréttablaðinu.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS