Lára Hanna Einarsdóttir er bloggari á Smugunni, málgagni vinstri-grænna, pistlar hennar birtast einnig á Eyjunni. Lára Hanna var rekin frá RÚV sem pistlahöfundur fyrir að blogga á Smugunni. Egill Helgason, sem bloggar á Eyjunni, heldur hins vegar úti tveimur þáttum í RÚV. Lára Hanna bloggar á Eyjuna 27. nóvember og birtir þar pistil sinn á Smugunni frá 1. nóvember, þar sem segir meðal annars:
„Á Íslandi eigast nú við tvær fylkingar um ESB – önnur með aðild, hin á móti. Undanfarna mánuði hafa báðar fylkingar haldið fundi og ýmsir verið kallaðir til að tala á þeim. Það sem mér hefur virst einkenna fundina er að fyrirlesarar eru ævinlega sömu skoðunar um ESB og fundarhaldarar. Fundirnir virðast vera haldnir til þess eins að styrkja fólk í fyrirfram gefinni afstöðu þess og engir andmælendur boðaðir til að kryfja þá afstöðu eða draga hana í efa.
Ég tek fram að ég hef ekki farið á neinn þessara funda, en gjarnan beðið eftir upplýsingum um þau skoðanaskipti sem þar fóru fram. Af þeim fer litlum sögum og ekki hef ég heyrt að fylkingarnar tvær hafi nokkurn tíma haldið sameiginlegan fund þar sem afstaða beggja hópa er rædd og fróðir menn kallaðir til svo svara megi ýmsum fullyrðingum á báða bóga. Öll umræða þessara hópa er mjög einhliða og hefur á sér trúarbragðablæ sem stundum er erfitt að meta á hvaða grunni er byggður.
Ég giska á að töluverður meirihluti þjóðarinnar hafi ekki tekið afstöðu til inngöngu Íslands í ESB en bíði þess að aðildarsamningur verði kynntur og gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Ég er einmitt ein af þeim og sakna málefnalegrar umræðu um þetta stórmál sem taka þarf afstöðu til innan tíðar. Mér finnst vanta einhvern vettvang þar sem sérfróðir og hlutlausir einstaklingar svara ýmsum fullyrðingum beggja fylkinganna með beinhörðum staðreyndum og rökum. Og spurningum okkar hinna sem óhjákvæmilega vakna þegar umræðan býður upp á þær.
Sýnu meiri ákafi og háreysti virðist vera í andstæðingum aðildar sem fara mikinn, kalla jafnvel hófsamasta fólk sem veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga landráðamenn og þjóðníðinga og hóta landsmönnum eldi og brennisteini ef þeir taka afstöðu með aðild. Þar fara fremst í flokki ríkisrekin samtök bænda og útgerðarmenn sem auðguðust á sameign þjóðarinnar. Samtökin dæla peningum í blaðaútgáfu, auglýsingar og fleira sem á að sannfæra óákveðinn almenning. Engu skiptir þótt bændur hafi notið styrkja frá ESB um áratugaskeið og útgerðarmenn nýti heimildir sem EES veitir til að athafna sig á erlendum fiskimiðum. Það má auðveldlega loka augunum fyrir tvískinnungi þegar verja skal sérhagsmuni.
Hópurinn sem aðhyllist aðild fer oft líka í mikinn ham, kallar hina grjóthörðu andstæðinga ýmsum nöfnum, hæðist að þeim og gerir lítið úr skoðunum þeirra í hvívetna.“
Í pottinum þótti mönnum merkilegt að Lára Hanna skuli leggja dóm á það sem gerist á fundum sem hún hefur ekki sótt. Evrópuvaktin telur að hún lesi ekki heldur upplýsingar um ESB-málefni, að minnsta kosti ekki á Evrópuvaktinni, ef hún telur það, sem hér er sagt með „trúarbragðablæ“ og hún eigi „erfitt að meta á hvaða grunni“ er byggt. Langmest efni hér á síðunni eru fréttir af því sem er að gerast á vettvangi ESB eða tengist því álitaefni, hvort skynsamlegt sé fyrir Íslendinga að ganga í ESB.
Að segja það efni sem Evrópuvaktin birtir ekki eiga erindi í málefnalega umræðu um ESB og Ísland er með öllu fráleitt og einfaldlega sleggjudómur eins og orð Láru Hönnu um boðskap þeirra sem eru andvígir aðild að ESB. Að samtök bænda og útgerðarmanna „dæli peningum í blaðaútgáfu, auglýsingar og fleira“ er einfaldlega alrangt. Þá má spyrja: Hvaða styrkja hafa bændur notið frá ESB „um áratugaskeið“ og hvers vegna er gert tortryggilegt að útgerðarmenn nýti sér EES-samninginn?
Texti Láru Hönnu ber með sér að hún hallast undir sjónarmið ESB-aðildarsinna, enda vill hún leiða viðræður við ESB til lykta til að „fá“ að kjósa um niðurstöðuna. Hið einkennilega er, að hún virðist ekki átta sig á því, að engin niðurstaða fæst án þess að Íslendingar sætti sig til dæmis við að land þeirra er ekki lengur strandríki í skilningi hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með afsali þeir sér réttinum, sem hefur dugað þeim best í makríldeilunni, svo að dæmi sé tekið.
Lára Hanna fór til Brussel í boði ESB á dögunum. Hver skyldi niðurstaða hennar vera eftir þá för?
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...