Þriðjudagurinn 2. mars 2021

Ber ekki að gera kröfur þegar fræðimenn tala til almennings? Útlistanir um stjórnmál og ESB einskis virði.


3. janúar 2012 klukkan 17:21

Í leiðara Morgunblaðsins 3. janúar segir meðal annars:

Háskóli Íslands

„Á þessum tæpu þremur árum “nýju„ stjórnarinnar [stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur] er hún sífellt að gera breytingar á ráðherraliðinu. Og í hvert sinn “styrkist ríkisstjórnin„, eins og Gunnar Helgi prófessor hefur ekki við að staðfesta. …

Ögmundur fór og Álfheiður kom og þá styrktist ríkisstjórnin. Álfheiður fór og Ögmundur kom og þá styrktist ríkisstjórnin aftur. Gylfi, konsúll Kúbu norðursins, kom og Ragna ráðuneytisstjóri og þá styrktist stjórnin rosalega, enda hafði ekki nokkur maður kosið þau. Svo fóru þau aftur án skýringa og enn styrktist ríkisstjórnin. Hringlað var með ráðuneyti og stofnanir og Guðbjartur Hannesson kom inn og þá gerðist að vísu ekki neitt nýtt nema að ríkisstjórnin styrktist mjög við það og eins þegar Kristján Möller fór út og styrkti ríkisstjórnina með því. Og nú er Árni Páll búinn að styrkja ríkisstjórnina með því að yfirgefa hana og Jón Bjarnason lagði sitt af mörkum með því að verða samferða Árna.

Katrín Júlíusdóttir mun ekki styrkja ríkisstjórnina fyrr en eftir fáeinar vikur þegar hún fer í frí. Katrín Jakobsdóttir mun þá styrkja stjórnina um sinn með því að taka ráðuneytið yfir þar til að Steingrímur J. getur bætt því við hin fjögur og styrkt þar með stjórnina. Á meðan verður kona úr þingflokki Samfylkingarinnar fengin til að styrkja ríkisstjórnina með því að „verma ráðherrastólinn“ í fjármálaráðuneytinu í einhverja mánuði þar til að Katrín Júlíusdóttir kemur til baka til að verða fjármálaráðherra í fáeina mánuði til að styrkja ríkisstjórna. …

Það verður mikið að gera hjá Gunnari Helga og hinum fræðimönnunum við að gera grein fyrir þessum miklu styrkingum á ríkisstjórn á næstunni. Þær bætast við þá styrkingarvild sem varð þegar Lilja, Atli og Ásmundur Einar fóru úr þingflokki VG, en stjórnmálafræðingum bar einmitt saman um að sú fækkun stjórnarliðsins myndi styrkja ríkisstjórnina.

Til þess að hugga Samfylkinguna hafa fræðimennirnir upplýst að aldrei áður hafi einn flokkur í ríkisstjórn fengið að fara með forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið á sama tíma. En þeir telja auðvitað ekki Framsókn með flokkum enda er hann ekki í Samfylkingunni. Ólafur Jóhannesson, Halldór E. Sigurðsson og Einar Ágústsson fóru með forsætisráðuneyti og efnahagsmálin, dómsmálaráðuneytið fjármálaráðuneytið landbúnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið frá 1971-1973. En Jóhanna fékk að vísu kvenréttindi fyrir efnahagsmálin í heild, sem vissulega styrkti ríkisstjórnina.“

Þegar þetta er lesið er ástæða til að velta fyrir sér hvaða fræðilegar kröfur eru gerðar til þess að menn virði staðreyndir innan stjórnmálafræðinnar. Í ESB-umræðunum hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því, meðal annars hér á Evrópuvaktinni, að þeir sem kallast sérfræðingar í ESB-málum séu ekki alltaf vandir að fræðilegri virðingu sinni þegar þeir lýsa því sem gerist á vettvangi ESB.

Nú um áramótin má lesa um skýrslur erlendra fræðimanna og hugveitna þar sem því er spáð að Evrópusambandið og evru-ríkin sigrist ekki á erfiðleikum sínum á grundvelli þeirra ákvarðana sem teknar voru á fundi ESB-leiðtoganna 8. og 9. desember í Brussel. Vissulega er mikið alvörumál fyrir þjóðir sem eru á myntsvæði í kreppu ef ekki sést neitt til marks um að menn nálgist leiðarenda.

Hitt er ekki síður alvörumál að búa í landi þar sem ríkisstjórn stefnir á aðild að þessu vandræðasamstarfi og enginn innan stjórnkerfisins eða meðal fræðimanna í háskólastofnunum fæst til að ræða það sem við öllum blasir í fyrirheitna landinu. Af opinberri hálfu láta menn allar viðvaranir sem vind um eyru þjóta og fræðimennirnir þegja þunnu hljóði nema þegar hringt er í þá frá RÚV til að leggja blessun sína yfir eitthvað sem stjórnarherrarnir hafa gert.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins bregður ljósi á samspil fræðimanna og stjórnarherranna til að setja allt sem að vandræðum ríkisstjórnarinnar lýtur í sem best ljós fyrir hana. Öllum er hins vegar ljóst að í öllu talinu um að ríkisstjórnin styrkist í vaxandi hremmingum er álíka holur hljómur og í talinu um að á fundi í Brussel geti leiðtogar ríkja í kreppu tekið ákvarðanir sem gjörbreyti stöðu á fjármálamörkuðum og falið lögfræðingum að færa þær í trúverðugan búning á nokkrum vikum og haga gjörðinni helst þannig að ekki þurfi að bera hana undir almenning.

Vissulega er kennurum háskóla frjálst að segja það sem þeim sýnist við nemendur sína í kennslustundum. Þegar þeir koma fram fyrir almenning ættu þeir hins vegar að tala á þann veg að ekki grafi undan trú á þeim fræðum sem þeir stunda og kenna á kostnað skattgreiðenda.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS