Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ritar persónulegan inngang að skýrslu um utanríkismál sem hann lagði fyrir alþingi 12. febrúar 2013. Hér fara nokkrar glefsur úr honum þar sem ráðherrann segir frá samskiptum sínum við alþingi:
Fyrir þann sem stendur í stríðu fyrir Ísland í fjörrum löndum er gott að eiga styrkan bakhjarl í því prýðilega fólki sem þjóðin hefur kosið fulltrúa sína. Ég hef jafnan kappkostað að eiga gott samstarf við þingið. […]
Rökræður við þingið, ekki síst utanríkismálanefnd, hafa stundum breytt sýn minni. Líklega yrðu fulltrúar þeirrar ágætu nefndar hissa vissu þeir hversu oft fundir með þeim hafa skákað til ákvörðunum og breytt nálgun minni og efnistökum sem utanríkisráðherra í glímu við flókin verk erlendis. Minnist ég kaldsams fundar um skriflega greinargerð Íslands til framkvæmdastjórnar ESB árla í ferlinu. Að honum loknum henti ég þeirri greinargerð og skrifaði nýja í anda samræðna við utanríkismálanefnd. Bjuggum við lengi að þeirri römmu smíð.[…]
Kannski er ekki tiltökumál að ráðherra sé jafnan reiðubúinn til funda við utanríkismálanefnd, jafnvel um síma ef hann er óínáandisk á mikilvægum fundum í öðru landi. Sá sem lengi hefur lifað við pólitískan háska telur hins vegar ekki eftir sér beint og milliliðalaust samráð við þingnefndir og er mér til efs að á síðari árum, ef ekki í gervallri lýðveldissögunni, hafi nokkur utanríkisráðherra átt jafn marga fundi með utanríkismálanefnd og ég. Margir voru þeir málsbætandi, sumir mannbætandi. Mínu pólitíska lífi gáfu þeir allavega glit og ljóma. Er því vonum seinna að ég færi utanríkismálanefnd og hennar góðu starfsmönnum mínar bestu þakkir fyrir prýðilegt og málefnalegt samstarf.
Þinginu er ég þakklátur fyrir að mikilvæg stefnumál hafa verið unnin á grundvelli breiðrar samstöðu á Alþingi og á tíðum einróma samþykkis. Það herðir ráðherrann í þungum róðrum á útlönd. Sterkt bakland í snerrum fyrir Ísland, eins og um makrílinn sem fjallað er um hér í skýrslunni, er gulli betra. Er þá ótalið Icesave, þar sem frægur sigur vannst fyrir dómi. Fyrir utan málsefni góð ber þann sigur ekki síst að þakka þeirri gæfu að eftir að málið var stemmt í farveg dómsmáls sneru Íslendingar bökum saman og hættu að karpa. Í þeim anda unnum við í utanríkisráðuneytinu eftir að málið kom á forræði okkar. Þá var það hlutverk mitt að splæsa saman teymi til málsvarnar. Það gerði ég á þeirri forsendu að engum skoðunum var úthýst og allar prófaðar. Eftir yfirlegu og skoðun á úrvali reyndra lögmanna var það niðurstaða mín að ráða að lokum Tim Ward sem aðalmálflytjenda. Happahrókur reyndist hann okkur, hógvær og látlaus, en afrenndur að rökvísi. Þess sáust bestir staðir í því að röksemdir hans og þess vaska liðs sem að baki honum stóð voru allar teknar upp í forsendur dómsins. Í þessu ferli gættum við þess jafnan líka, ríkir að reynslu úr fyrri lotum Icesave, að hafa reglulega samráð á vettvangi utanríkismálanefndar um hvaðeina sem málsefnið varðaði.[…]
Icesave-málið var öðrum þræði merkileg tilraun um stjórnarskrá. Jón Grunnvíkingur dró saman allar Íslendingasögur í þrjú orð: Bændur flugust á. Mátti vel nota þau um hin heiftarlegu átök sem urðu um hvort semja skyldi, eða fara að dæmi Dario Fó sem bjó til heilt leikrit með titlinum: Við borgum ekki. En stjórnarskráin var svo haganlega gerð að valdþættir samfélagsins völduðu hver annan, hún virkaði, og bjó yfir því gagnmerka stjórnskipulega tæki, málskotsréttinum, sem tókst að stemma gerólíka strauma saman í einn farveg. Fyrir hans tilstilli varð niðurstaðan það besta sem báðir hinna andstæðu vængja höfðu barist fyrir. Þetta var galdur stjórnarskrárinnar.
Á stund hins mikla sigurs flaug mér af tungu bókmenntalegt seinni tíma minni frá Silvíu
Nótt: Til hamingju Ísland!„
Í annan tíma hefur engum utanríkisráðherra verið jafnmikið í mun að lýsa eigin ágæti. Er engu líkara en Össur Skarphéðinsson hafi gengið í skóla hjá Steingrími J. Sigfússyni og lært af honum þá aðferð að þakka sér sjálfum allt sem til framfara horfir jafnvel þótt það hafi gerst þvert á vilja ráðherrans.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming
Brezka flugfélagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.
Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra
Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.
PIMCO: Evrusvæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu
Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heims, segja að evrusvæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evrusvæðinu h...