Þriðjudagurinn 16. ágúst 2022

Hverjir eru „frjálslynda fólkið“ í Sjálfstæðis­flokknum


3. mars 2014 klukkan 09:10

Í frétt á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins í gær, sunnudag segir:

„Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að frjálslynda fólkið sé að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn...“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Enn gefur Þorgerður Katrín tilefni til að íhuga orðanotkun í pólitískum umræðum. Hverjir eru þeir sem kallast „frjálslynda“ fólkið í Sjálfstæðisflokknum? Hvernig er .það mælt hverjir eru „frjálslyndir“ og hverjir ekki?

Að vísu varð Sjálfstæðisflokkurinn til með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins og vafalaust hefur mátt greina þá skiptingu fyrstu árin eftir stofnun flokksins en tæplega eftir lýðveldisstofnun og alls ekki eftir 1950.

Skiptar skoðanir eru um það hvað felist í orðinu „frjálslyndur“ í pólitísku samhengi. Á tímabili varð þess vart að svonefndir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum skilgreindu sig sem frjálslynda og hafa vafalaust litið svo á að í orðinu fælist að þeir sem auðkenndu sig þannig vildu sem mest frelsi. Í því sambandi er athyglisvert að tveir flokkar í Austurríki og í Hollandi, sem taldir eru lengst til hægri kalla sig Frelsisflokka.

Þorgerður Katrín lítur bersýnilega svo á, miðað við samhengið í orðum hennar af þessu tilefni að „frjálslynda fólkið“ í Sjálfstæðisflokknum séu aðildarsinnar að ESB. Ef hins vegar er til þess horft að aðild að Evrópusambandinu mundi óumdeilanlega takmarka frelsi Íslendinga í víðum skilningi þess orðs virðist mótsögn í því samkvæmt orðanna hljóðan að kalla aðildarsinna frjálslynda.

Hins vegar eru aðrir, sem hafa litið svo á að samhengi væri á milli þess að vera frjálslyndur í pólitík og að vera miðjusækinn ef svo má að orði komast, þ.e. að þeir Sjálfstæðismenn, sem vilji sækja meira inn á miðjuna séu „frjálslyndir“.

Ef það er hugsunin hjá fyrrverandi varaformanni Sjjálfstæðisflokksins má horfa á slíka skilgreiningu viðhorfa út frá ýmsum hliðum. Stuðningsmenn Gunnars Thoroddsens, sem lengi var varaformaður Sjálfstæðisflokksins töldu hann gjarnan frjálslyndari en aðra forystumenn Sjálfstæðisflokksins. En ef horft er til verka þeirra manna fyrr á tíð er erfitt að færa rök að því að Gunnar hafi verið það umfram aðra. Hins vegar er athyglisvert að í borgarstjóratíð Geirs Halgrímssonar var framkvæmd mesta bylting fyrr og síðar í félagslegri þjónustu borgarinnar. Hugmyndafræðingurinn að baki henni var Þórir Kr. Þórðarson, prófessor í guðfræði við HÍ, sem þá var einn af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Í borgarstjóratíð Geirs var stefnan líka tekin í nýja átt í málefnum framhaldsskóla og hugmyndafræðingurinn að baki þeirri breytingu var Kristján J. Gunnarsson, skólastjóri.

Geir Hallgrímsson hafði því forystu um mjög miðjusækna pólitík á þeim árum.

Hvað um helztu forystumenn þeirra sjálfstæðismanna, sem vilja aðild að Evrópusambandinu, sem auk Þorgerðar Katrínar eru Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður flokksins, Benedikt Jóhannesson og Helgi Magnússon? Er hægt að færa rök fyrir því að þeir Þorsteinn, Benedikt og Helgi hafi verið sérstaklega miðjusæknir í sínum pólitísku viðhorfum ef samasemmerki er sett á milli frjálslyndis og miðjusækni? Tæpast.

Hitt fer ekki á mála, að það hefur Þorgerður Katrín sjálf verið.

Þegar horft er á þetta í sögulegu samhengi er erfitt að færa rök fyrir því að að aðildarsinnar í Sjálfstæðisflokknum séu „frjálslyndari“ en annað fólk.

SG

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS