Laugardagurinn 27. febrúar 2021

WikiLeaks sækir að dönskum stjórnvöldum vegna Sigga hakkara og FBI


13. júlí 2014 klukkan 13:22

Sagan af samskiptaslitum WikiLeaks og Sigurðar Inga Þórðarsonar (Sigga hakkara) heldur áfram en WikiLeaks leitast við að breyta gagnasölu Sigurðar Inga til FBI í vandamál ríkisstjórna landanna þar sem lagt var á ráðin um þessi viðskipti og lyktir þeirra. Hér verður sagt frá nýjasta þætti málsins sem snýr að dönskum yfirvöldum.

„Lekasamtökin WikiLeaks óska nú eftir rannsókn á því hvort dönsk yfirvöld hafi átt aðild að lögbrotum þegar fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar FBI efndu þrisvar sinnum til funda í Danmörku með “WikiLeaks-afhopper„ sem veitti FBI með leynd innri upplýsingar um samtökin.“ Þannig hefst frétt á vefsíðu danska blaðsins Politiken sunnudaginn 13. júlí.

Á íslensku má nota orðið liðhlaupi fyrir danska orðið afhopper. Bæði orðin hafa neikvæða merkingu því að ekki þykir til fyrirmyndar að hlaupast undan merkjum eða yfirgefa lið sitt í baráttu eins og þeirri sem WikiLeaks hefur háð.

Politiken segir að liðhlaupinn hafi í smáatriðum staðfest við blaðið að fundirnir í Danmörku hafi verið hluti af rannsókn bandarískra yfirvalda eftir að WikiLeaks birti í samvinnu við fjölmiðla um heim allan íþyngjandi leyniskjöl um stríð Bandaríkjamanna í Afganistan og Írak.

Í Politiken segir:

„Ég gaf fulltrúunum innri skjöl frá WikiLeaks og þeir vildu vita allt um öryggisráðstafanir í þágu Julians Assange [stofnanda WikiLeaks],“ segir liðhlaupinn, hinn íslenski Sigurdur Thordarson [Þórðarson].

Krafan frá WikiLeaks var lögð fram á föstudag [11. júlí] með kæru á hendur Thordarson og ónafngreindum FBI-fulltrúum til Østjyllands Politi (lögreglu Austur-Jótlands) auk kæru á hendur Politiets Efterretningstjeneste (PET, dönsku leyniþjónustunni) og Østjyllands Politi til Den Uafhængige Politiklagemyndighed (óháðrar rannsóknarnefndar vegna kvartana í garð lögreglu).

Østjyllands Politi er undir smásjá vegna þess að síðasti fundurinn þar sem Thordarson afhenti nokkra harða diska með innri WikiLeaks-skjölum gegn greiðslu var haldinn í Árósum.

„Þetta er ólögmætt athæfi á danskri jörð. Okkur finnst erfitt að trúa að það hafi gerst án heimildar yfirvalda,“ segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks.

Viðræður fulltrúa FBI við Thordarson hófust á Íslandi þar sem fulltrúarnir dvöldust með vitneskju íslenskra yfirvalda en þess var óskað að þeir hyrfu úr landi af því að þeir hefðu ekki heimild til að rannsaka mál gegn WikiLeaks. Við svo búið héldu viðræðurnar áfram í Danmörku segir Sigurdur Thordarson.

Lars Bo Langsted, lagaprófessor við háskólann í Álaborg, segir að dönsk yfirvöld verði að heimila slíkt.

Hans Jørgen Bonnichsen, fyrrverandi aðgerðastjóri hjá PET, segir að því fari fjarri að reglunum sé alltaf fylgt:

„Menn skulu ekki halda að FBI upplýsi PET og danska lögreglu um allt sem þeir gera. Menn vinna saman en þeir eru ekki vinir og trúnaðarvinir sem segja hver öðrum allt – hjá PET gera menn sér góða grein fyrir því,“ segir hann.

Hjá PET vilja menn hvorki segja neitt um þetta mál né almennt um störf erlendra löggæsluaðila í Danmörku.

Vagn Martinussen, lögreglustjóri hjá Østjyllands Politi, segir að „enginn hafi heyrt neitt um slíkan fund í Árósum“.

Þegar fyrst var sagt frá FBI-fundunum í Danmörku í bandarískum fjölmiðlum fyrir einu ári svaraði Morten Bødskov, þáverandi dómsmálaráðherra, á þjóðþinginu: „Hvorki dómsmálaráðuneytið, PET né ríkislögreglustjóri hafa nokkra frekari vitneskju“ um fundina og ráðuneytið taldi „ekki ástæðu til“„rannsaka málið frekar“.

Nú vill dómsmálaráðuneytið ekki svara spurningum um málið.

WikiLeaks segist til þess búið að fara alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg:

„Hér er gengið á rétt einstaklinga og hlutum hefur verið stolið. Vilji danska lögreglan ekki rannsaka málið til hlítar er það alvarlegt mál sem verður fylgt eftir á æðsta stigi,“ segir Kristinn Hrafnsson talsmaður.„

Á vef ríkisútvarpsins (ruv.is) hefst frétt um þessa frétt í Politiken á þennan veg:

„Wikileaks - samtökin hafa óskað eftir formlegri rannsókn á því hvort dönsk yfirvöld hafi brotið lög þegar fulltrúar frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, tóku skýrslu af Sigurði Inga Þórðarsyni, betur þekktum sem Sigga hakkara, á þremur stöðum í Danmörku.“

Þessi upphafssetning gefur aðra mynd af málinu en fréttin í Politiken. Af henni er augljóst að Sigurður Ingi Þórðarson sagði skilið við WikiLeaks, stal þaðan gögnum sem hann seldi FBI. Eftir að hafa verið rekinn frá Íslandi vegna viðræðna við fulltrúa við FBI flutti Sigurður Ingi sig til Danmerkur til að stunda þessi viðskipti.

WikiLeaks sérhæfir sig í að safna og birta opinberlega gögn í óþökk viðkomandi ríkisstjórna. Samtökin telja að öflun skjala sem lekið er til þeirra og miðlun þeirra sé ekki lögbrot. Að baki opinberrar birtingar skjala í vörslu WikiLeaks liggja flóknir samningar samtakanna við fjölmiðla. Um það allt hefur verið fjallað í bókum í óþökk Julians Assange.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS