Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

Bænir og orð kvöldsins hverfa af rás 1 - of stutt „uppbrot“ segir nýr dagskrár­stjóri - boðar bænaefni á netinu


14. ágúst 2014 klukkan 14:38

Þess er beðið með nokkurri eftirvæntingu hvaða breyting verði á dagskrá ríkisútvarpsins með Magnúi Geir Þórðarsyni, nýjum útvarpsstjóra, og liðsmönnum hans í stjórnendarteymi stofnunarinnar.

Samið hefur verið við Óðin Jónsson, fyrrverandi fréttastjóra, um að hann verði með morgunútvarpið á rás 2 en eins og kunnugt er vitnar fréttastofan gjarnan í viðtöl þar sem gefa tóninn í fréttaboðskap dagsins.

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri rásar 1, hefur nú sent frá sér tilkynningu um að nokkrar breytingar verði á dagskrá rásar hans. Í fyrstu ræðst hann á garðinn þar sem hann er lægstur með því að loka fyrir morgunbæn, morgunandakt og orð kvöldins á rásinni. Þetta eru örstuttir þættir fluttir af prestum eða þeim sem bjóða fram krafta sína til lestrar í kvölddagskránni.

Árið 2007 var gerð atlaga að orði kvöldsins af yfirstjórn ríkisútvarpsins. Var flutningi þessara kristilegu orða hætt í þrjá mánuði þar til Páll Magnússon, þáv. útvarpsstjóri, sá að sér fyrir hönd stofnunarinnar. Það er því ekki frumlegt hjá Þresti að höggva í þennan knérunn.

Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 14. ágúst mótmælir sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur þessum áformum Þrastar Helgasonar og bendir á að ekkert komi í stað bænahalds, með því að leggja rækt við það veiti ríkisútvarpið ákveðna þjónustu við hlustendur, fólkið í landinu.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir í sama Fréttablaði að eldra fólk sé dyggustu hlustendur rásar eitt. „Það er ósvinna að taka bænirnar af dagskránni. Fólk hlustar á Rás eitt, þar á meðal bænirnar,“ segir Jóna Valgerður og hún bætir við þessum orðum:

„Ég vona að biskupinn og prestar landsins mótmæli þessari ákvörðun og það verði hætt við hana.“

Þröstur Helgason, segir að hluti breytinganna sem verði um næstu mánaðamót snúi að því að „skerpa á dagskrárframsetningu og fækka stuttum uppbrotum á dagskránni.“

Óljóst er hvað í þessum orðum felst, hver verði lágmarkslengd hvers þáttar. Í sumar hafa til að mynda verið á dagskrá rásar 1 alls 10 um 50 mínútna langir þættir um ferðalag höfundar til Singapúr og skottúra hans til nágrannabyggða þar sem lýst er matseðlum á hótelum og ferðum með leigubifreiðum auk fróðleiks sem liggur á lausu á netinu. Er þetta til marks um skarpari framsetningu efnis án stuttra uppbrota? Eða átta þættir um rúmbu á Kúbu?

Fyrir utan að það falli ekki lengur að skipulagi dagskrár að hafa stutt „uppbrot“ færir dagskrárstjórinn þau rök fyrir afnámi hins daglega kristilega efnis að fáir hlusti á það og í stað þess verði efnt til nýs þáttar „á besta útsendingatíma eftir kvöldfréttir á sunnudögum þar sem fjallað verður um trú, menningu og samfélag. “Um er að ræða pistlaröð þar sem prestar, guðfræðingar og annað fólk innan þjóðkirkjunnar hafa orðið ásamt fleirum sem hugleitt hafa samspil trúar, menningar og samfélags fyrr og nú,„ segir Þröstur í Fréttablaðinu þá verði “bænaefni gert aðgengilegt á nýjum vef sem fari í loftið í haust og þannig verði fjöldi bæna gerður aðgengilegur fyrir almenning„.

Að ímynda sér að þáttur á borð við það sem dagskrárstjórinn nefnir eða bænaefni á netinu komi í stað morgunbæna og orða kvöldsins sýnir ekki mikinn skilning á þörfum hlustenda rásar 1. Hverjum mun detta í hug að fara inn á vefsíðuna ruv.is í leit að bænaefni? Að telja þá marga sem bíði eftir slíku efni á þeim stað sýnir meira hugmyndaflug hjá dagskrárstjóranum en birtist í þeim orðum hans að hlustendur setjist hópum saman við viðtækin eftir kvöldfréttir á sunnudögum til að hlusta á það efni sem hann nefnir – minnir það helst á dagskrárefni sem árum saman hefur verið í boði kl. 09.03 á sunnudagsmorgnum undir stjórn guðfræðings í hópi dagskrárgerðarmanna.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS