Laugardagurinn 6. mars 2021

Ögmundur og Össur deila um NATO, kalt stríð og Líbíustríð á alþingi


25. september 2014 klukkan 13:59

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, og allur þingflokkur VG hefur flutt gamalkunna tillögu á alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að NATO. Tillagan var rædd á þingi þriðjudagiunn 23. september og tóku tveir þingmenn þátt í henni auk Ögmundar: Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, sem settist á þing eftir að Árni Þór Sigurðsson sagði af sér þingmennsku og gerðist sendiherra.

Össur gagnrýndi Ögmund fyrir að velja rangan tíma til að endurflytja þessa tillögu í ljósi hættuástands í Úkraínu og ótta Eystrasaltsþjóða og fleiri nágrannaþjóða Rússa. Þeim væri mikil vörn í aðildinni að NATO. Ögmundur sagði:

„Ég er ekki að velja rangan tíma, ég er að velja mjög góðan tíma. Ég er að velja tíma þegar Evrópa stendur á barmi nýs kalds stríðs. Ég er búinn að skrifa um þetta greinar í blöð og ég tók afstöðu í samræmi við þetta þegar Evrópuráðið vildi úthýsa Rússum frá Evrópráðinu og þá frá Evrópudómstólnum líka. […] Nei, ég er ekki að velja rangan tíma. Ég vil ekki vera í þessu púkki.“

Össur Skarphéðinsson svaraði og sagði:

„Hann segir að við stöndum á jaðri kalds stríðs í Evrópu. (ÖJ: Já.) Ég held ekki. Ég held að við séum í köldu stríði. Það er því miður hugsanlegt að miklu heitara skeið sé að færast nær okkur. Það er hægt að halda því fram að við stöndum á jaðri heitrar styrjaldar. Ég tel t.d. að þeir sem búa í vesturhluta Úkraínu líti svo á. Ég hugsa að staða Úkraínu væri allt önnur ef ríkið væri t.d. innan Atlantshafsbandalagsins. Það stóð aldrei til vegna landfræðilegra og pólitískra ástæðna. Þetta er mín skoðun.“

Steinunn Þóra Árnadóttir hún gagnrýndi að Íslendingar hefðu gerst aðilar að hernaðarátökum undir merkjum NATO og nefndi þá meðal annars hernaðaraðgerðir gegn Líbíu 2012 þegar Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra.

Össur tók Steinunni Þóru í sögutíma og sagði:

„Við verðum alltaf, þegar við förum yfir söguna, að greina rétt frá henni. Við eigum ekki að falsa hana, við eigum alltaf að segja rétt frá. Hv. þingmaður [Steinunn Þóra] kom hingað eins og hvítskúraður engill og ræddi hin ýmsu stríð sem hún sagði að herstjórar íslenska lýðveldisins hefðu att íslensku þjóðinni út í. Þar á meðal var Libíustríðið en þá var ég utanríkisráðherra. Hvernig var það mál afgreitt af hálfu utanríkisráðherra sem þá var? Hann ræddi það hér í þinginu, gerði það með eins lýðræðislegum hætti og hægt var. Það var tekið til sérstakrar umræðu hér. Og alveg sama hvað VG segir í dag, þá getur það ekki breytt þeirri staðreynd að í þeirri umræðu lýstu allir þingmenn sig samþykka þeirri ákvörðun sem tekin var, þ.e. að Ísland legðist ekki gegn þessu. Það er vert fyrir hv. þingmann að fara og lesa þingtíðindin og skoða sérstaklega ræður þingmanna VG. Þeir voru ekki ósammála því.

Tveir þingmenn VG töluðu í þeirri umræðu og voru því sammála. Annar þeirra talaði með þeim hætti að ég, í þeirri umræðu og síðar, túlkaði ræður hennar á þann veg að hún hefði gengið lengst allra, hún taldi að við slíkar aðstæður, sem þá voru að skapast í Líbíu, hefði þjóð eins og Ísland skyldu til að bregðast við. Það var enginn í þingsal sem talaði gegn þessu, enginn frá VG á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin og þess vegna var hún tekin.“

Í tilefni af þessum orðum Össurar sagði Ögmundur Jónasson:

„Við hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson vil ég segja: Ríkisstjórn hefur verið kölluð saman til fundar af minna tilefni en þessu. Hann segir að það hafi ekki verið eins og hann orðaði það “kjaftur á móti„. Ég gæti talið upp nokkra kjafta sem höfðu um þetta efasemdir og voru þessu ráðslagi andvígir.“

Össur Skarphéðinsson hefur skrifað bók um árið 2012 og kallar hana Ár drekans. Í henni kemur fram að þeir Ögmundur hafi haft ráð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í hendi sér. Sumarið 2012 kom til harkalegra átaka milli þeirra félaga vegna fjárveitinga til loftrýmisgæslu og ratsjárkerfis vegna NATO-samstarfsins – reyndi Ögmundur að setja þumalskrúfur á aðra ráðherra við afgreiðslu fjárlagafrumvarps með hótunum gegn NATO. Hann gafst auðvitað upp gagnvart Össuri þegar á reyndi.

Að þeir félagar hafi deilt vegna aðildar að hernaðargerðum NATO í Líbíu og að Ögmundur hafi verið með „kjaftinn uppi“ vegna þeirra kemur lesendum bókar Össurar á óvart.

Það segir hins vegar mikla sögu um áhugaleysi þingmanna á utanríkis- og öryggismálum að aðeins núverandi og fyrrverandi herstöðvaandstæðingar skuli hafa tekið þátt í þessum umræðum.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS