Laugardagurinn 23. febrúar 2019

Allur vindur úr ESB-stefnu Samfylkingar­innar - vill ekki halda áfram viðræðum við ESB nema samþykkt sé í þjóðar­atkvæða­greiðslu


22. mars 2015 klukkan 14:55

Landsfundur Samfylkingarinnar ályktaði hinn 21. mars 2015 um ESB-mál á þann veg sem aldrei hefur verið gert áður frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2000. Í ályktuninni nú segir að Samfylkingin vilji að Íslendingar fái, sem fyrst, að taka um það ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Í þessu felst stefnubreyting sem rekja má til reynslunnar af hinni misheppnuðu ESB-umsókn sem flokkurinn barðist fyrir og varð að veruleika árið 2009.

Í samþykkt landsfundarins felst að Samfylkingin felst á það sem var eitur í beinum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Össurar Skarphéðinsson utanríkisráðherra í júlí 2009 þegar þau töldu hættu á að meirihluti alþingis mundi samþykkja tillögu sjálfstæðismanna um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema þjóðin samþykkti í atkvæðagreiðslu.

Þegar greidd voru atkvæði um málið 16. júlí 2009 stóð Jóhanna utan þingsalar og kallaði þingmenn úr VG sem þóttu ekki sterkir í ESB-trúnni fyrir sig og hótaði þeim stjórnarslitum samþykktu þeir tillögu sjálfstæðismanna.

Tillaga sjálfstæðismanna var þessi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Tillagan var felld með 32 atkvæðum gegn 30 – með tillögunni greiddu fimm þingmenn VG atkvæði, þrír eru ekki lengur á þingi: Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Jón Bjarnason; einn er genginn Framsóknarflokkinn Ásmundur Einar Daðason en Lilja Rafney Magnúsdóttir situr enn á þingi fyrir VG. Þá studdu þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar tillöguna: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari – Margrét og Þór eru ekki lengur á þingi. Fjórði þingmaður Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, sem síðar gekk í VG, studdi ríkisstjórnina í málinu og það gerði auk þess einn þingmaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, sem situr ekki lengur á þingi.

Samfylkingin hefur skipað sér í forystu fyrir aðild að ESB og er gjarnan rætt um flokkinn sem „einsmáls-flokk“ vegna þess. Hér fyrir neðan er ESB-stefna flokksins rakin frá fyrsta landsfundi hans eftir stofnfundinn sem var árið 2000. Eins og þessi samantekt ber með sér urðu þáttaskil með samþykktinni á síðasta fundi 21. mars 2015, er greinilega allur vindur úr stefnu flokksins og ekki er lengur minnst á evruna sem bjargvætt. Þá bera samþykktirnar einnig með sér að á vettvangi Samfylkingarinnar hafa menn aldrei komið sér saman um samningsmarkmið gagnvart ESB eins og ætlunin var á fyrstu stigum málsins.

Fyrir neðan dagsetningar birtast kaflar úr ályktunum þess landsfundar sem lauk þann dag sem getið er í millifyrirsögninni.

18. nóvember 2001

Í tengslum við landsfundinn hefur flokkurinn nú gert Evrópuúttekt þar sem kostir og gallar aðildar eru vegnir og metnir og lýst þeim markmiðum sem Ísland ætti að setja sér á ýmsum sviðum, ef og þegar til greina kæmi að sækja um aðild. Samfylkingin hefur haft að markmiði að gangast fyrir Evrópuumræðu sem byggist á efnislegri umfjöllun um staðreyndir en ekki upphrópunum, gífuryrðum og fyrirfram gefinni niðurstöðu. Landsfundurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram með Evrópuumræðu á þessum grunni og leitað eftir samráði og skoðanaskiptum við verkalýðshreyfinguna, samtök atvinnulífsins og önnur hagsmunasamtök, með það að markmiði að skapa sýn á Evrópumálin sem á hljómgrunn meðal meiri hluta þjóðarinnar. Í þessu ljósi mun Samfylkingin nú þegar taka Evrópuúttekt flokksins til umfjöllunar á almennum fundum vítt og breitt um landið, þar sem flokksmönnum og stuðningsmönnum flokksins gefst færi á að taka þátt í þeirri umræðu sem hafin hefur verið innan Samfylkingarinnar. Þannig fá flokksmenn allir tækifæri til að gaumgæfa öll rök með og á móti aðild að Evrópusambandinu og fá sömu innsýn og þeir sem gerst til þekkja. Landsfundurinn samþykkir að þessu ferli ljúki með almennri póstkosningu um afstöðu flokksmanna til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Miðað verði við að þessi kosning fari fram á árinu 2002. Með þeim hætti munu flokksmenn allir ákveða með hverjum hætti spurningin um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði sett á dagskrá.

2. nóvember 2003

Samfylkingin ákvað á stofnfundi sínum vorið 2000 að gera heildstæða úttekt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. Í ljósi áhrifaleysis og einstakra milliríkjamála verður æ ljósara að erfitt verður að byggja á EES-samningnum til frambúðar.

Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf.

22. maí 2005

Breiða samstöðu þarf að skapa meðal þjóðarinnar um samningsmarkmið sem látið verði reyna á í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Niðurstöðurnar verði lagðar undir þjóðaratkvæði.

14. apríl 2007

Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði.

29. mars 2009

Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn. Liður í því er að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði. Að viðræðum við ESB skal koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meða fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka.

Samfylkingin mun í viðræðum tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir landsins. Hún mun hefja þegar í stað undirbúning að gjaldmiðlaskiptum.

Umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku Evru mun styrkja efnahag heimilanna og fyrirtækja í landinu þar sem gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og vextir að lækka vegna bættra lánskjara landsins erlendis.

Staða heimilanna mun batna verulega með Evrópusambandsaðild þar sem matvælaverð, vaxtagjöld og almennar neysluvörur munu lækka auk þess sem verðtrygging leggst af með upptöku nýs gjaldmiðils. Full þátttaka í samstarfi Evrópuríkja mun auk þess tryggja áframhaldandi ferðafrelsi, aðgang að menntastofnunum og vísindasamstarfi og aðgengi að stærsta vinnumarkaði og markaðssvæði heims. Aðild að Evrópusambandinu er lýðræðismál sem mun bæta réttarstöðu launafólks og minnihlutahópa og styrkja öryggi þjóðarinnar.

Samfylkingin mun beita sér fyrir því að aðild feli í sér uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni með þátttöku í byggðastefnu sambandsins og tryggja aðkomu sveitarfélaga að ákvaðanatöku um mál sem þau varða. Evrópusambandsaðild mun leiðrétta þann lýðræðishalla sem EES-samningurinn felur í sér og tryggja aðkomu Íslendinga að setningu allra laga sem gilda á landinu.

23. október 2011

Aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið miðar vel áfram og nýleg framvinduskýrsla sýnir að Íslendingar eru ágætlega í stakk búin til að takast á við það metnaðarfulla verkefni að gerast fullgildir aðilar að sambandinu. Eðlilegur framgangur aðildarviðræðna er jafnframt úrslitaatriði og mikilvægt að í samningsgerðinni verði áfram lögð áhersla á fagleg vinnubrögð, gagnsæi í ákvarðanatöku og óháða miðlun upplýsinga. Markmiðið er að tryggja eins góðan samning og kostur er í samræmi við meginhagsmuni Íslands. Fyrirhugaðar breytingar á stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegi og landbúnaði eru fagnaðarefni fyrir Íslendinga. Líklegt er að breytingarnar munu auðvelda samningaviðræður í þessum mikilvægu málaflokkum. Aðildarsamningurinn verði að endingu verði lagður í dóm þjóðarinnar.

3. febrúar 2013

Hagsmunir Íslands eru best tryggðir með samvinnu innan fjölþjóðlegra stofnana og bandalags þjóða. Ísland á heima í samfélagi Evrópuríkja og á að hafa áhrif eins og fullvalda þjóð sæmir. Það er forgangsverkefni jafnaðarmanna að halda aðildarviðræðum áfram af fullri einurð og leggja fullbúinn samning í þjóðaratkvæði.

Milliríkjaviðskipti landsins eru að langstærstum hluta við aðrar Evrópuþjóðir. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eru mikilvægasta skrefið í átt til efnahagslegs stöðugleika, hagvaxtar og betri rekstrarskilyrða fyrir heimili og fyrirtæki. Stefna að evru felur í sér afnám fjármagnshafta, ver almenning fyrir afleiðingum gengissveiflna, leiðir af sér lægri vexti og viðskiptakostnað og greiðir fyrir fjárfestingum hér á landi.

Losun fjármagnshafta verður eitt af meginviðfangsefnum næsta kjörtímabils. Æskilegt er að ná þverpólitískri samstöðu um nauðsynleg skref í því verkefni, samhliða víðtækri samstöðu um efnahagslegan stöðugleika og stöðugt gengi. Samfylkingin leggur fram varðaða leið að lokamarkinu sem felur í sér inngöngu í ERM II-myntsamstarfið og síðan upptöku evru, í samvinnu við Evrópusambandið, Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

21. mars 2015

[A]fnám viðskiptahindranna gagnvart nágrannalöndum okkar sem nauðsynlegum lið í að tryggja íslensku atvinnulífi betra og samkeppnishæfara starfsumhverfi. Viðræður um aðild að ESB er hornsteinn þeirrar stefnu.[…]

Atvinnulífið þarf stöðugan gjaldmiðil og vaxtastig sem er sambærilegt við samkeppnislöndin, ekki síst hinn mikilvægi alþjóðageiri. Því er brýnt að lokið verði viðræðum um aðild að Evrópusambandinu svo þjóðin geti tekið upplýsta afstöðu til aðildar.

Samfylkingin leggur áherslu á að: þjóðin fái tækifæri til að taka upplýsta afstöðu til aðildar að ESB á grundvelli upplýsinga um áhrif aðildar á íslenskt atvinnulíf og áætlunar um hvernig tryggja megi stöðugleika íslensku krónunnar við afnám fjármagnshafta og þar til unnt er að taka upp evru í þágu atvinnulífs og neytenda.[…]

[A]ð efla umræðu um þá möguleika sem opnast með aðild að ESB hvað varðar arðsama vinnslu sjávarafurða á Íslandi. Með aðild fæst fullt tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir á Evrópumarkað. Aðildin skapar líka áður óþekkt tækifæri til útflutnings og nýsköpunar fyrir íslenskan landbúnað enda valda höft á Íslandi því að ekki er hægt að fá raunverulegan aðgang að öðrum mörkuðum vegna gagnkvæmnisreglna.[…]

Samfylkingin vill að Íslendingar fái, sem fyrst, að taka um það ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Þjóðin á kröfu á að fá fullgerðan samning í hendur til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu. […]

Hann [EES-samningurinn] nálgast nú þolmörk gagnvart innlendri stjórnskipan og jafnframt reynist sífellt erfiðara að tryggja samræmdar reglur á evrópska efnahagssvæðinu eftir því sem stjórnskipan Evrópusambandsins breytist. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar byggir því á fullri aðild að Evrópusambandinu. Hún styrkir í senn aukið fullveldi íslensku þjóðarinnar og þjónar hagsmunum einstaklinga, fyrirtækja og umhverfis.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS