Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

Merkel og Tsipras leggja sig fram um að lægja öldur og treysta framtíðar­samstarf


24. mars 2015 klukkan 11:50

Af fjölmiðlum í Þýskalandi og Frakklandi má ráða að fundur Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í Berlín mánudaginn 23. mars hafi verið á vinsamlegum nótum. Merkel hamraði enn á því sama og áður að Grikkir yrðu að leggja fram trúverðugar tillögur um leið út úr fjárhagsvanda sínum en Tsipras sagði að Merkel væri manneskja sem „hlustaði“ á fólk.

Angela Merkel og Alexis Tsipras í kanslarahöllinni í Berlín mánudaginn 23. mars 2015.

Þau lögðu sig fram um að gera gott úr því sem þeim bar á milli þar á meðal kröfum Grikkja um stríðsskaðabætur á hendur Þjóðverjum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Tsipras gerði að gamni sínu og sagðist hafa komið með góða veðrið til Berlínar: „Við verðum að skilja hvort annað. Eina leiðin felst í samræðum,“ sagði gríski forsætisráðherrann en orðahnippingar hafa einkennt samskipti þýskra og grískra stjórnvalda frá því að Tsipras settist að völdum fyrir tveimur mánuðum.

Merkel lagði áherslu á „nána vináttu“ þjóðanna tveggja. Margir Þjóðverjar nytu þess mjög að eyða frídögum sínum í Grikklandi og hinir mörgu Grikkir sem byggju í Þýskalandi hefðu smíðað „lifandi brú“ milli „.þjóða okkar“.

Kanslarinn sagði að allir lánardrottnar Grikkja ekki aðeins Þjóðverjar yrðu að ákveða hvort stjórnin í Aþenu hefði gripið til nógu róttækra aðgerða til að eiga rétt á að fá 7,2 milljarða evru útgreiðslu af neyðarláni sem þeim hefur verið veitt. Sagt er að gríski ríkissjóðurinn komist í greiðsluþrot miðvikudaginn 8. apríl fái hann ekki þetta fé.

Um tíma var talið að gríska ríkisstjórnin ætlaði að ganga að eignum þýska ríkisins í Grikklandi, eins og húsi Goethe Institut. Tsipras aftók að það yrði gert. Þá er bent á að hann hafi notað mun mildari orð um stríðsskaðabæturnar í Berlín en hann gerði í gríska þinginu á dögunum.

Nú sagði hann: „Við verðum að varpa birtu á skugga fortíðarinnar. Þetta er ekki aðeins spurning um efnislega þætti heldur er um siðferðilegt vandamál að ræða.“

Angela Merkel sagði að öllu uppgjöri vegna stríðsskaðabóta væri lokið „á stjórnmálalegum og lögfræðilegum vettvangi“. Þjóðverjar gerðu sér grein fyrir þeim „grimmdarverkum“ sem þeir hefðu unnið og „óréttlætið og þjáningarnar“ væru ef til vill ekki „eins hugstæðar mörgum Þjóðverjum“ og þær mættu vera.

Utanríkismálaritstjóri Frankfurter Allgemeine Zeitung segir að fyrir fundinn í Berlín hafi verið talað eins og menn gerðu á tíma kalda stríðsins um væntanlega toppfundi milli Bandaríkjamanna og Sovétmanna þar sem jafnvel örlög alls heimsins kynnu að vera í húfi. Hann segir að nú sé tímabært að milda orðræðuna og horfast í augu við raunveruleikann, málum sé nefnilega þannig háttað að um „sameiginlega framtíð“ þjóðanna sé að ræða.

Hvetur ritstjórinn til þess að menn hætti að stunda „trúðapólitík“ og vonar að Tsipras átti sig betur á því eftir heimsóknina til Berlínar hver séu markmið Evrópustefnu þýsku ríkisstjórnarinnar, þar ráði hvorki drottnunarþörf né fyrirmælaþrá. Vilji Grikkir nota evru áfram og njóta virðingar sem samstarfsaðili verði þeir að haga sér í samræmi við það. Undan því verði ekki vikist. Það sé spor í rétta átt að Tsipras segist ætla að virða gerða samninga. Hitt sé ekki síður mikilvægt að hætta að tala um þjóðir á þann veg að skella á þær einhverjum stimplum.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS