Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar


31. mars 2015 klukkan 20:00

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum.

Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefur verið fylgst með framvindu alþjóðlegra stjórnmála og efnahagsmála í þessu ljósi. Efni síðunnar hefur verið reist á fréttum, fréttaskýringum, pistlum og ritstjórnardálkum.

Alþingi Íslendinga tók sögulega og örlagaríka ákvörðun 16. júlí, 2009, þegar samþykkt var að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fyrir okkur, sem að Evrópuvaktinni stöndum, hefur vakað að sjá til þess, að Íslendingar fljóti ekki sofandi inn í Evrópusambandið.

Nú er ljóst að það gerist ekki. Aðildarviðræður hafa reynst árangurslausar vegna ágreinings um sjávarútvegsmál. Þær hefjast ekki að nýju nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur óskað eftir að Ísland verði ekki lengur skráð sem umsóknarríki hjá Evrópusambandinu – um þá ákvörðun er deilt á heimavelli og í Brussel hefur ESB ekki orðið við óskinni.

Umsjónarmönnum Evrópuvaktarinnar er ljóst að ESB-aðild verður ekki tekin af dagskrá íslenskra stjórnmála. Þeir gera hins vegar hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar vegna þáttaskilanna sem við blasa að því er hugsanlega aðild Íslands varðar. Hún er fjarlægari en fyrir 16. júlí 2009. Umræður liðinna ára hafa leitt í ljós að allur málatilbúnaður aðildarsinna er hruninn til grunna.

Um leið og umsjónarmenn þakka þúsundum lesenda Evrópuvaktarinnar samfylgdina undanfarin fimm ár vilja þeir minna á vefsíður sínar styrmir.is og bjorn.is þar sem þeir lýsa skoðunum sínum auk þess sem þeir láta að sér kveða annars staðar á vettvangi fjölmiðla.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í pottinum

Easy-Jet fækkar ferðum London-Moskva um helming

Brezka flug­félagið Easy-Jet hefur fækkað ferðum á flugleiðinni London-Moskva um helming. Ástæðan er minnkandi eftirspurn og að sögn Moskvutíðinda eru önnur alþjóðleg flugfélög að gera hið sama. Farþegum á þessari flugleið hefur fækkað um 20% það sem af er þessu ári samanborið við sama tíma fyrir ári. Ástæðan er staða rúblunnar og versnandi alþjóðleg samskipti vegna deilunnar um Úkraínu.

Pengingaþvætti fyrir alþjóðlega glæpahringi ógnar bankakerfi Andorra

Athygli beinist að bankakerfinu í Andorra um þessar mundir og yfirvofandi hruni þess.

PIMCO: Evru­svæðið á sér ekki framtíð að óbreyttu

Forsvarsmenn PIMCO, stærsta skuldabréfa­sjóðs heims, segja að evru­svæðið eigi sér ekki framtíð nema evruríkin sameinist í eins konar „Bandaríkjum Evrópu“. Í því felst að sögn Daily Telegraph að aðildarríkin afsali sér sjálfstæði sínu. Talsmaður PIMCO bendir á að veikur hagvöxtur á evru­svæðinu h...

Grikkland: Einkavæðing Piraeus-hafnar endurvakin - Kínverjar líklegir kaupendur

Skömmu eftir að stjórn róttækra vinstrisinna, Syriza, tók við völdum í Grikklandi í janúar var tilkynnt að fallið hefði verið frá sölunni á meirihluta­eign gríska ríkisins í Piraeus-höfn skammt utan við Aþenu. Það félli ekki að kosninga­stefnu flokksins og sósíalískum viðhorfum að einkvæða hafnarrekstur eða opinbera starfsemi á ýmsum öðrum sviðum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS