Jean-Claude Juncker, forsætis- og fjármálaráðherra Lúxemborgar, er formaður 16-ríkja evruhópsins innan Evrópusambandsins. Hann hefur kallað fundinn saman til bráðafundar í Brussel síðdegis sunnudaginn 2. maí í von um, að þar takist að komast að niðurstöðu, sem dragi úr spennu á fjármálamörkuðum, þegar þeir verða opnaðir að morgni mánudags 3. maí.
Undanfarna sólarhringa hefur verið unnið myrkranna á milli í öllum grísku ráðuneytunum undir forsjá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB til að finna sparnaðarleiðir í gríska ríkisrekstrinum. Héldu menn aftur af sér við ströngustu kröfugerð og þungbærustu yfirlýsingar fram yfir 1. maí af ótta við, að sannleikurinn um það, sem gera þyrfti, til að Grikkir fengju nauðsynlega alþjóðlega aðstoð, myndi kalla fram enn kröftugri mótmæli en ella í körfugöngum 1. maí.
Grikkir eru ekki lengur sjálfs síns herrar. Vikuritið The Economist segir Grikki ekki geta unnið sig út úr vandanum vegna þess, hve mjög hið opinbera verði að draga saman seglin og þar sem útflutningsþróttur þeirra sé enginn. Grikkir geti ekki fellt gengið, af því að þeir noti evru sem mynt. Þá virðist almenningur ekki sætta sig við þann niðurskurð á launum og þjónustu, sem einn dugi til að hagkerfið verði samkeppnisfært. „Í stuttu máli, Grikkland virðist á hausnum,“ segir The Economist.
Tilgangur bráðafundarins í Brussel á sunnudag er samþykkja lán, sem dugi Grikkjum til að fleyta sér áfram í þrjú ár. Tveir þriðju fjárhæðarinnar komi frá evru-ríkjunum en afgangurinn frá AGS. Þýskir þingmenn hafa sagt, að alls þurfi 120 milljarði evra til bjargar Grikkjum, þótt ESB hafi til þessa aðeins nefnt töluna 30 milljarða frá evru-ríkjunum og 15 milljaðri frá IMF á fyrsta ári aðstoðarinnar.
Minni þetta Íslendinga á eitthvað ætti það að vera helgina í október 2008, áður en neyðarlögin voru sett. Þá hafði ríkið eignast Glitni í von um, að sú ráðstöfun dygði til að bjarga því, sem bjargað yrði í bankaheiminum. Vonin um það varð að engu og eftir stíf fundarhöld í ráðherrabústaðnum fyrstu helgina í október, rann upp fyrir mönnum, að eina ráðið væri að setja neyðarlögin svonefndu, þar sem ríkið fékk úrslitavald á fjármálamarkaðnum. Að öðrum kosti væri ekki forsvaranlegt að setja opinbert fé inn í bankakerfið.
Staða Grikkja nú svipar til stöðu íslensku bankanna, áður en þeir voru teknir frá eigendum sínum, vegna þess að þeim væri ekki unnt að treysta lengur fyrir rekstri þeirra. Evru-hópurinn og AGS vilja ekki leggja fé í botnlausa gríska hít, þess vegna verður að taka Grikkland í bóndabeygju. Að því er unnið undir merkjum AGS og ESB, því að annars vilja Þjóðverjar, sem verða í raun stærstu lánveitendurnir, ekki leggja fé af mörkum.
Við Íslendingar höfum einnig kynnst því, hve langan tíma getur tekið að fá lánsloforð efnd. Hvað sem gerist á evru-fundinum 2. maí er eins líklegt, að Þjóðverjar dragi lappirnar fram yfir 9. maí vegna kosninga til þings í Nordrhein Westfalen þann dag. Grikkir knýja hins vegar á um skjóta lausn, því að þeir eiga ekki fé til að greiða lán á gjalddaga 19. maí.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er milli tveggja elda, þegar hún horfist í augu við kröfur á hendur ríkisstjórn sinni vegna gríska vandans. Grikkjum verða ekki veitt nein lán án stuðnings Þjóðverja. Þýskir skattgreiðendur vilja hins vegar ekki, að fé þeirra sé kastað í gríska fjárlagahít.
Þar sem sérhver ríkisstjórn er að lokum ábyrg gagnvart umbjóðendum sínum, eigin þjóð, finnst evrópskum valdsmönnum í Brussel, að þýskur og grískur almenningur þvælist aðeins fyrir í þessu máli. Huga beri að því, að hagstjórnarvaldið verði fært frá þjóðríkjunum til framkvæmdastjórnar ESB í Brussel og Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Frá Frakklandi berast hins vegar þær fréttir, að þar á bæ þyki mönnum evrópsku stofnanirnar hafa brugðist í eftirlitinu með Grikkjum og Frakkar vilji ekki koma að láni til Grikkja, nema ESB-stofnunum sé haldið fjarri.
Oft hefur reynt á innviði ESB-samstarfsins, en þó líklega sjaldan eins og nú, þegar hætta er á því, að lekinn á evru-skútunni, sem hófst í Grikklandi, eigi aðeins eftir að aukast, hvað sem gert verði. Spurningin er sú, hvort tekst að stöðva lekann um helgina eða hvort menn fari að losa um björgunarbátana til að komast frá borði.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...