Fimmtudagurinn 21. febrúar 2019

Ungir bændur og hervæðing ESB


Björn Bjarnason
1. júní 2010 klukkan 09:41

Hér á síðunni hefur verið rætt um viðkvæmni ESB-aðildarsinna á Íslandi vegna auglýsingar frá Samtökum ungra bænda, þar sem þeir vöktu athygli á því, að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, nefndi hinn 13. maí sl. sameiginlegan her Evrópu sem næsta stórverkefni í samrunaþróun innan Evrópusambandsins, eftir að tekist hefði að bjarga evrunni.

Að takist að bjarga evrunni, er enn óvíst. Angela Merkel á undir högg að sækja bæði heima fyrir og gagnvart leiðtogum annarra ESB-ríkja vegna þess máls. Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, hefur sagt, að Þjóðverjar hafi aldrei orðið fyrir viðlíka álitshnekki í alþjóðasamskiptum síðan þýska sambandslýðveldið var stofnað árið 1949, eins og þegar Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, tókst að þakka sér niðurstöðu leiðtogafundar evru-ríkjanna 7. maí á kostnað Angelu Merkel og Þjóðverja.

Hinn 6. febrúar 2010 birtist frétt á mbl.is, þar sem sagði:

„Þjóðverjar styðja stofnun evrópsk hers í komandi framtíð svo að Evrópusambandið geti “spilað með„. Þetta sagði utanríkisráðherra Þýskalands, Guido Westerwelle, á alþjóðlegu öryggisráðstefnunni í München í dag.

„Til lengri tíma litið er markmiðið að stofna Evrópuher undir stjórn þingsins. Evrópusambandið verður að standa undir pólitísku hlutverki sínu sem þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og geta spilað með. Það verður að geta brugðist við vandamálum sem koma upp með sjálfstæðum hætti. Það verður að geta brugðist hratt við, af sveigjanleika og geta tekið sjálfstæða afstöðu,“ sagði Westerwelle í morgun.

Hann sagði jafnframt að enginn ætti að hafa ástæðu til að óttast Evrópu, en allir ættu hinsvegar að geta reitt sig á Evrópu. Hugmyndin um evrópskan her var kynnt til sögunnar í hinum s.k. Lissabon sáttmála sem allar þjóðir sambandsins hafa nú samþykkt.“

Hér fer ekkert á milli mála. Þjóðverjar, forystuþjóð ESB, vilja, að komið verði á fót herafla ESB til að ESB geti „spilað með“, það er orðið gjaldgengt með öðrum stórveldum á alþjóðavettvangi. Þjóðverjar átta sig á því, að þýskur her getur aldrei gegnt slíku hlutverki. Þeir eiga fullt í fangi með að leggja sitt hernaðarlega af mörkum undir þýskum fána og fána NATO í Afganistan. Horst Köhler, forseti Þýskalands, sagði af sér í skyndi 31. maí, þegar hann sætti gagnrýni fyrir að lýsa hlutverki þýskra hermanna í Afganistan á þann veg, að þeir væru að gæta þýskra viðskiptahagsmuna.

Fari ESB-þingið með pólitíska ábyrgð vegna ESB-herafla, eins og Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, víkur að í ræðu sinni, hvílir hún ekki lengur beint á stjórnvöldum í Berlín.

Undan þeirri staðreynd verður ekki vikist, að hugmyndin um ESB-her er ljóslifandi meðal leiðtoga ESB-ríkja. Um hana kunna að vera skiptar skoðanir eins og svo margt annað, sem síðan er hrundið í framkvæmd. Er nærtækt að nefna evruna í því sambandi eða sjálfan Lissabon-sáttmálann.

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og einlægur talsmaður þess, að Ísland gangi í ESB, ritar leiðara í blað sitt 1. júní undir fyrirsögninni: Yfirgripsmikið þekkingarleysi. Með henni vísar Ólafur Þ. til þeirrar skoðunar sinnar, að ungir bændur viti ekki um hvað þeir séu að tala í auglýsingu sinni, kallar hann skoðanir þeirra „bull“.

Full ástæða er til að taka upp hanskann fyrir unga bændur gegn yfirlætisfullum upphrópunum eins og þeim, sem birtast í leiðara Ólafs Þ. Í auglýsingu sinni vekja þeir máls á mikilvægum framtíðarþætti í starfi Evrópusambandsins, sem óhjákvæmilegt er til að ræða til hlítar, þegar hugað er að því, að Ísland gangi í ESB. Það er ekki unnt að blása málið út af borðinu á þann veg, að ESB-her sé „ákaflega fjarlægt stefnumið og raunar ólíklegt að aðildarríkin nái nokkurn tímann um það samstöðu,“ eins og Ólafur Þ. gerir. Hér er um stefnumið að ræða, sem hefur verið heimilað að framkvæma í Lissabon-sáttmálanum, þótt mismunandi skoðanir kunni að vera á útfærslunni.

ESB-aðildarsinnar leitast við að „selja“ okkur Íslendingum skoðun sína með þeim rökum, að sjávarútvegsstefna ESB eigi eftir að breytast í framtíðinni og verða okkur hagstæðari. Auðvelt er að færa fyrir því rök, að sú framtíð sé fjarlægari og meiri óvissu háð en framtíðin um ESB-her, enda hafa Þjóðverjar og fleiri leiðandi þjóðir innan ESB meiri hag af því að hervæða ESB en veita Íslendingum einkarétt á nýtingu 750 þúsund ferkílómetra svæðis á Norður-Atlantshafi.

ESB-aðildarsinnar geta ekki blásið umræðuna um hervæðingu ESB út af borðinu með því að reyna að gera lítið úr þekkingu ungra, íslenskra bænda á málefnum Evrópusambandsins. Í því felst ekki annað en hroki og yfirlæti.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS