Fimmtudagurinn 26. apríl 2018

Norðmenn vilja alls ekki í Evrópu­sambandið


Björn Bjarnason
14. september 2010 klukkan 10:10

Norska ríkisstjórnin hefur ESB-aðild ekki á stefnuskrá sinni. Því var spáð á sínum tíma, að hið eina, sem gæti komið ESB-aðildarumræðu af stað á ný í Noregi, væri ESB-umsókn af Íslands hálfu. Þessi umsókn liggur nú fyrir. Hún hefur þó ekki orðið til þess að ýta Norðmönnum til hreyfings inn í ESB. Skoðanakannanir í Noregi sýna þvert á móti vaxandi andstöðu við ESB-aðild.

Nýjasta könnun um ESB-afstöðu Norðmanna birtist 13. september. Samkvæmt henni eru tæp 65% Norðmanna andvígir aðild. 25% eru hlynntir aðild en 10% taka ekki afstöðu. Í frétt Morgunblaðsins af könnuninni er haft eftir Paal Frisvold, formanni norsku Evrópusamtakanna, að hann sé ekki undrandi á niðurstöðunni. Þá segir formaðurinn í blaðinu:

„Evrópusambandið freisti ekki eins og sakir standa. Fólki finnist Norðmenn jafnframt valdalausir þegar kemur að innleiðingu tilskipana Evrópska efnahagssvæðisins [EES]. Hann segir að efla þurfi upplýsingagjöf um kosti aðildar.“

Engin ástæða er til að efast um, að rétt sé haft eftir formanni norsku Evrópusamtakanna. Skýring hans um valdaleysi Norðmanna við innleiðingu EES-tilskipana hefur til þessa verið sett fram til að knýja á um aðild að ESB. Með því að stíga skrefið inn í ESB fái Norðmenn öll þau völd, sem þurfi til að gæta eigin hagsmuna. Á hvaða hátt ber að skilja orð formannsins um þetta? Lokasetningin er gamalkunn. ESB-aðildarinnar halda, að allt lagist með auknum upplýsingum. Norðmenn hafa tvisvar sinnum gengið í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild, þar sem upplýsingum var dembt yfir þá. Samt sögðu Norðmenn nei við aðild í bæði skiptin.

Morgunblaðið birtir einnig viðbrögð Hemings Olaussen, formanns samtakanna „Nei við ESB“, sem lýsir mikilli ánægju með niðurstöðuna og segir:

„Það er ótrúlegt að andstaðan skuli vera svona mikil. Ég hefði haldið að drægi úr henni þegar áhrif fjármálakreppunnar fjöruðu út. Ég er feginn að vera ekki í sporum aðildarsinnanna...Verkefnið [það er ESB] verður stöðugt yfirþjóðlegra, með of marga meðlimi. Fólk vill fá ákvörðunarréttinn til baka.“

Í þessum orðum birtist einnig sama hugsun og hjá formanni norsku Evrópusamtakanna. Að fólki finnist ákvörðunarréttur tekinn af sér með aðild að ESB. Norðmenn mundu ekki fá meiri rétt til að stjórna málum sínum með því að ganga í ESB.

Fullveldisrétturinn virðist með öðrum orðum ráða miklu, hvort heldur um er að ræða EES-aðild eða ESB-aðild. Óttinn við að missa hann eða hafa misst hann valdi mestu um neikvæða afstöðu til ESB-aðildar.

Þessi túlkun á niðurstöðunum um afstöðu Norðmanna kemur heim og saman við það, sem Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, hefur hvað eftir annað sagt, þegar hann ræðir aðildarumsókn Íslendinga. Hann segir: Þið verðið að átta ykkur á því, að aðild að ESB snýst um annað og meira en efnahagsmál. Hún snýst um stjórnmál og vilja til að laga sig að allt öðrum kröfum en áður að því er varðar stöðu lands og þjóðar. Ellemann-Jensen telur, að þessu hafi ekki verið haldið nógu markvisst að Dönum. Þeir hafi gengið í ESB með rangan skilning á eðli sambandsins. Þess vegna hafi þeir fylgt fyrirvarapólitík varðandi ýmsa þætti samstarfsins, á meðan þeim var leyft það.

Upplýsingamiðlun á vegum ESB miðast ekki við að halda þessum staðreyndum að fólki. Hún snýst þvert á móti um að mála allt í sem fegurstu litum til að laða sem flesta til stuðnings við ESB og aðild að ESB. Fyrir þeim, sem fyrir ESB-áróðrinum standa, vakir aðeins eitt: Að koma þjóð inn í ESB. Það sé hins vegar annarra að taka á málum, þegar þjóðin vakni upp við vondan draum eftir inngöngu í ESB.

Íslendingar eru nú á hinu viðkvæma stigi, þegar reynt er að lokka þá í ESB með gulli og grænum skógum. Enn er svigrúm til að stöðva og hugsa sinn gang.

Norðmenn vöknuðu ekki af vondum draumi við ESB-umsókn Íslendinga. Norska ríkisstjórnin hefur þvert á móti hvað eftir annað áréttað gildi EES-aðildarinnar. Hún segir afdráttarlaust, að EES lifi góðu lífi og muni gera áfram, þótt Íslendingar gangi í ESB.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS