Eins og við mátti búast er fátt merkilegt að finna í svonefndum Wikileaksskjölum. Að því er Ísland varðar í raun og veru ekki neitt, alla vega miðað við það, sem komið er fram. Þetta er almennt tal á milli fólks úr bandaríska sendiráðinu og einstaklinga, ekki síður embættismanna en stjórnmálamanna. Mat sendiráðsins á stöðu einstaklinga í íslenzku samfélagi er á köflum hlægilegt. Stundum er ruglið í orðsendingum til Washington frá Laufásvegi nánast ótrúlegt, eins og Valur Ingimundarson, sagnfræðingur sýnir fram á með skýrum hætti í Fréttablaðinu í dag.
Jafnvel upplýsingar, sem koma frá meiri átakasvæðum en Ísland hefur verið seinni árin segja fátt nýtt. Árum saman hefur mátt lesa í tímaritinu Foreign Affairs upplýsingar um, hvernig leyniþjónusta Pakistana hefur leikið tveim skjöldum á milli Bandaríkjamanna og Talibana og notað peninga frá þeim fyrrnefndu til, þess að kaupa sér frið hjá hinum síðastnefndu. Þar hefur einnig mátti lesa um fjárstuðning Sádi-Araba við hryðjuverkaöfl í heiminum, sem verið hafa í fréttum síðustu daga úr Wikileaksskjölunum.
Hins vegar er ljóst, að birting skjalanna mun hafa víðtæk áhrif, þótt í þeim sé fátt merkilegt að finna.
Í fyrsta lagi mun bandarískum sendimönnum um víða veröld reynast erfitt að fá menn til þess að tala við sig í trúnaði. Hver vill tala við þá, þegar í ljós er komið, hvernig farið er með trúnaðinn og við því má búast að trúnaðarsamtöl verði birt?!
Í öðru lagi og það skiptir meira máli: Skjölin sýna á hve lágu plani þær upplýsingar eru, sem sendar eru frá sendiráðum Bandaríkjanna til Washington. Það er engin sérstök ástæða til að ætla, að gæði upplýsinga frá sendiráðum annarra ríkja séu meiri, þótt auðvitað sé ekki hægt að útiloka það. Utanríkisþjónusta Breta stendur auðvitað á gömlum merg og vel má vera, að þar sé staðið betur að málum. Þýzka utanríkisþjónustan er margreynd og hefur löngum haft mikil tengsl við ríkin í austurhluta Evrópu og Rússland. Vel má vera, að upplýsingagjöfin þaðan sé á öðru plani. Hið sama má segja um Frakkland, sem lengi hefur haft djúp tengsl við einstök ríki í Afríku, Miðausturlöndum og austurhluta Evrópu.
En þegar á heildina er litið hljóta skattgreiðendur í ríkjum um víða veröld að spyrja sig þeirrar spurningar, fyrir hvað þeir séu að borga. Utanríkisþjónustur eru mjög dýrar. Þær halda úti starfsstöðvum, sem mikið er kostað til í húsnæði, starfsmannahaldi og öðrum búnaði. Allt á þetta sér langa sögu. Veröldin er gjörbreytt. Upplýsingaflæðið er allt annað en áður var. Það er gagnlegra að lesa Foreign Affairs heldur en bandarísku skjölin á Wikileaks!
Þess vegna hlýtur birting þessara skjala að vekja upp þá spurningu, hvort ekki sé tímabært að gjörbreyta þessum gömlu og hefðbundnu samskiptaháttum þjóða. Þótt utanríkisþjónusta okkar Íslendinga sé fámenn miðað við það, sem gerist hjá öðrum þjóðum er eðlilegt að spyrja hvort það dugi ekki til að gæta hagsmuna okkar gagnvart öðrum þjóðum að hafa enn minni og ódýrari starfsstöðvar í einstökum löndum en hafa svo kannski nokkra starfsmenn með sendiherratitil í ferðum á milli landa, þegar sérstakt tilefni er til. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa fastanefndir hjá alþjóðasamtökum á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið, svo að dæmi séu nefnd og sendiráð í mikilvægustu ríkjum eins og t.d. í Washington, Berlín og sennilega London. En að öðru leyti ættu litlar skrifstofur að duga með 1-2 starfsmönnum og án þess umbúnaðar, sem nú er talin nauðsynlegur. Nýtt hús fyrir sendiherrann í London kostar 800 milljónir svo að dæmi sé tekið.
Birting Wikileaksskjalanna gefur tilefni til að hér fari fram umræður um slíka endurskipulagningu á samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Það mundi spara mikið fé og draga úr ónauðsynlegri yfirbyggingu á þessu fámenna samfélagi okkar.
Slíkar umræður hljóta einnig að hefjast með öðrum þjóðum. Wikileaksskjölin sýna tilgangsleysi margs þess, sem gert er í sendiráðum.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...