Þriðjudagurinn 26. janúar 2021

Ríkisendurskoðun birti reglulegar upplýsingar um kostnað við aðildarumsókn


Styrmir Gunnarsson
27. desember 2010 klukkan 08:42

Hér á Evrópuvaktinni birtist um helgina frétt um mjög nákvæma greinargerð, sem ríkisendurskoðun á Írlandi hefur birt opinberlega um kostnað írskra stjórnvalda vegna fjármálakreppunnar. Greinargerðin er svo nákvæm að tilgreint er hvað tiltekin lögfræðistofa þar í landi fékk greitt fyrir ráðgjöf vegna vandamála írsku bankanna og í ljós kom að sú stofa hafði fengið greiddar sem svaraði rúmlega 500 milljónum íslenzkra króna fyrir vinnu sína.

Upplýsingagjöf af þessu tagi vekur upp spurningar um, hvort betur megi gera hér á Íslandi. Nú skal tekið fram, að starfshættir Ríkisendurskoðunar hljóta að teljast til fyrirmyndar og það var mikilvæg ákvörðun, þegar sú stofnun var færð undir Alþingi. En er kannski hægt að gera enn betur?

Enn er það svo, að einstakir þingmenn leitast við að fá fram upplýsingar um tiltekna útgjaldaliði og svo hefjast deilur um það, hvort svörin séu fullnægjandi. Slíkar fyrirspurnir og umræður eiga að vera óþarfar ef upplýsingagjöf Ríkisendurskoðunar er einfaldlega aukin og engin ástæða til annars. Það eru skattgreiðendur, sem borga og þeir eiga rétt á að vita fyrir hvað þeir eru að borga.

Eitt af því sem æskilegt er að birta reglulegar upplýsingar um er kostnaður okkar við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Kostnaður við aðildarumsóknina er verulegur og þess vegna væri eðlilegt að birta í mánuði hverjum nýjustu staðfestar tölur um þann kostnað. Og jafnframt verður að ganga út frá því sem vísu, að Ríkisendurskoðun tryggi að sá kostnaður sé ekki falinn inn í tölum um aðra kostnaðarliði utanríkisþjónustunnar.

Evrópusambandið hefur boðið fram 4 milljarða íslenzkra króna til að standa undir kostnaði við aðild Íslands. Það framlag er háð mótframlagi af Íslands hálfu, sem talið er nema um einum milljarði króna. Deilt er um það innan ríkisstjórnarinnar, hvort taka eigi við þessum peningum. Það er önnur saga. Verði tekið við þeim að einhverju leyti skiptir máli að fram komi hvernig mótframlaginu er háttað og um hve mikla fjármuni er að ræða.

Bæði hér og annars staðar hafa stjórnvöld á orði, að þau vilji gagnsæi í meðferð almannafjár. Þeir tala að vísu mest um gagnsæi, sem leggja minnsta áherzlu á það í raun. Núverandi stjórnarflokkar hafa í málflutningi sínum lagt mikla áherzlu á gagnsæi í stjórnarathöfnum. Hins vegar hefur lítið farið fyrir því m.a. í sambandi við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

En hver sem skoðun manna kann að vera á þeirri umsókn og aðild sem slíkri ættu allir að geta verið sammála um, að eðlilegt sé að þeir, sem borga kostnaðinn, skattgreiðendur, séu reglulega upplýstir um hver hann er.

Til þess að gera það þarf enga ákvörðun ríkisstjórnar. Ríkisendurskoðun getur á eigin vegum ákveðið að birta reglulegar upplýsingar um þann kostnað.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS