Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

Þögnin um fiskveiðifundinn í Brussel og undirgefni utanríkis­ráðherra


Björn Bjarnason
27. janúar 2011 klukkan 09:32

Fiskveiðinefnd ESB-þingsins efndi til fundar um íslensk sjávarútvegsmál í Brussel þriðjudaginn 25. janúar eins og sagt var frá sér á síðunni 18. janúar sl. Fundinn ávörpuðu meðal annarra Stefán Haukur Jóhannesson, formaður ESB-viðræðunefndar Íslands, og Kolbeinn Árnason, formaður þess viðræðuhóps, sem fjallar um sjávarútvegsmál. Í hópi annarra ræðumanna voru Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, Kristján Þórarinsson frá Landsambandi íslenskra útgerðarmanna, Elín Björg Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, og Ian Gatt, Samtökum skoskra uppsjávarveiðimanna, fyrir hönd Europêche, evrópskra sjávarútvegssamtaka.

Fréttir af þessum fundi hafa ekki verið neinar í íslenskum fjölmiðlum utan Evrópuvaktarinnar hvorki áður en hann var haldinn né eftir að honum lauk. Þótt leitað sé logandi ljósi á vefsíðum íslenskra ráðuneyta sem hafa lofað gagnsæi og hvatt til upplýstrar umræðu um ESB-aðildina finnst ekki stafkrókur um fundinn í Brussel 25. janúar.

Utanríkisráðuneytið hampaði á sínum tíma sérstakri vefsíðu um ESB-aðildarferlið og látið var í veðri vaka að þar mætti fylgjast með sérhverju skrefi í samskiptum Íslands og ESB. Ekkert er að finna á þessari síðu um fiskveiðifundinn í Brussel. Samkvæmt vefsíðunni um þátt sjávarútvegsmála þá hefur hópurinn um þau mál ekki komið saman síðan 24. september 2010 þegar hann hitti Joe Borg, fyrrverandi sjávarútvegsstjóra ESB og núverandi háttlaunaðan hagsmunamiðlara, sem knýr á um aðild Íslands að ESB.

Sé hins vegar farið til Skotlands og litið á vefsíður þar má finna frásögn af ræðu Ians Gatts á íslenska fiskveiðafundinum, eins og vitnað hefur verið til hér á Evrópuvaktinni. Hann vandaði Íslendingum ekki kveðjurnar frekar en fyrri daginn. Hvatti hann til þess að ESB gripi til enn harðari refsiaðgerða gegn Íslendingum til að knýja þá til eftirgjafar í makrílmálinu og sagði réttilega: „Það er ótrúlegt að framkvæmdastjórnin verði að grípa til refsiaðgerða gegn þjóð sem sækir um aðild að ESB, en réttilega verður varðstaða um rétt aðildarríkis að njóta forgangs.“

Áhugaleysi opinberra íslenskra aðila sem tóku þátt í fiskveiðifundinum í Brussel á að skýra frá því sem þar gerðist er óskiljanlegt og brýtur algjörlega í bága við allt talið um upplýsta umræðu. Því verður ekki trúað að boðskapur íslensku ræðumannanna eigi ekki erindi inn í ESB-umræðurnar hér landi.

Þögnin um einn fund er þó hreint smáræði í samanburði við hina máttlausu varðstöðu íslenskra stjórnvalda um rétt Íslendinga gagnvart ESB í makrílmálinu. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, leitast við að gera sem minnst úr því að ESB beiti Íslendinga refsiaðgerðum. Hann sættir sig við að halda áfram aðildarviðræðum undir ótrúlegum refsivendi ESB.

Undirgefni utanríkisráðherra og ESB-erindreka hans þrátt fyrir refsiaðgerðir ESB færa embættismönnum sambandsins aðeins heim sanninn um að þeir komist upp með að sýna Íslendingum í tvo heimana. Utanríkisráðherra Íslands láti sér það lynda. Er nokkur furða þótt íslensk stjórnvöld vilji þegja um eigin aumingjahátt á heimavelli?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS