Mánudagurinn 18. janúar 2021

Hvaða erindi eigum við í þennan grautarpott?


Styrmir Gunnarsson
25. apríl 2011 klukkan 08:58

Aðildarríki Evrópusambandsins eiga við margvísleg innri vandamál að etja þessa dagana, eins og fram kemur nánast daglega í fréttum Evrópuvaktarinnar.

Í Bretlandi spyrja stjórnvöld hvernig á því standi, að brezkir skattgreiðendur og reyndar skattgreiðendur allra annarra aðildarríkja ESB einnig, þurfi að taka á sig auknar byrðar vegna sífellt aukins rekstrarkostnaðar við stjórnkerfi ESB, sem reyndar má fremur líkja við bákn. Á sama tíma og framkvæmdastjórn ESB gerir kröfur um að flest aðildarríkin skeri niður opinber útgjöld telur sama framkvæmdastjórn sjálfsagt að auka eigin útgjöld langt umfram verðbólgu.

Í Hollandi rísa stjórnmálamenn upp gegn innflytjendum, sem koma bæði frá ríkjum innan Evrópusambandsins og utan. Þessa dagana beinist gagnrýni þeirra að pólskum innflytjendum en þeir spyrja á móti: hvernig stendur á því að Hollendingar opnuðu landamæri sín fyrir okkur en vilja okkur nú burt?

Bæði pólsk stjórnvöld og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB segja að áform Hollendinga um að losa sig við Pólverja séu brot á ESB-reglum. Hollendingar viðurkenna það en halda fast við þau sömu áform!

Í Finnlandi eru hefðbundnir stjórnmálaflokkar í „sjokki“ eftir úrslit þingkosninganna fyrir rúmri viku, sem endurspegluðu reiði almennra borgara í Finnlandi í garð ESB-samstarfsins. Ellílífeyrisþegar og láglaunafólk í Finnlandi skilja ekki hvernig á því stendur að Finnland hefur efni á að taka þátt í björgunaraðgerðum í þágu Grikkja, Portúgala og Íra en hafi ekki efni á að borga þeim viðunandi lífleyri og laun.

Í Portúgal standa yfir þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þeir ætla ekki að endurtaka mistök sín frá Írlandi. Þar sást þeim yfir, að hægt væri að efna til þingkosninga og ný ríkisstjórn gæti komið með nýjar kröfur. Nú á að koma í veg fyrir að það sama gerist í Portúgal. Þess vegna er fulltrúum alllra stjórnmálaflokka stefnt að samningaborðinu. Þar eiga þeir að skrifa undir skuldbindingu um að ný ríkisstjórn, sem mynduð verði eftir kosningar muni ekki hafa uppi nýjar kröfur á hendur ESB og félögum eins og ný írsk ríkisstjórn hefur gert.

Í Bretlandi eru menn að uppgötva, að sambærilega settir brezkir embættismenn fá sem svarar 6,5 milljónum íslenzkra króna í eftirlaun á ári en embættismenn ESB sem fara á eftirlaun fá rúmlega 11 milljónir króna á ári, sem brezkir skattgreiðendur taka þátt í að borga. Bretar eiga erfitt með að skilja þetta kerfi.

Á morgun hittast þeir Sarkozy, Frakklandsfoseti og Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu en nú vill Sarkozy segja Frakkland tímabundið úr Schengen-samstarfinu vegna straums flóttamanna frá Túnis og Líbýu.

Þannig mætti lengi telja.

Það er hægt að hafa samúð með aðildarríkjum Evrópusambandsins í göfugri baráttu þeirra við að sameina Evrópu og setja niður deilur og stríð, sem hafa einkennt þessi ríki öldum saman.

En hvernig í ósköpunum getur það þjónað hagsmunum okkar Íslendinga að lenda í þessum grautarpotti?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS