Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Varðstaða um íslenzka hagsmuni-nýr og óvæntur vandi


Styrmir Gunnarsson
29. apríl 2011 klukkan 07:22

Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu standa frammi fyrir óvæntum vanda. Svo virðist sem lítið sem ekkert eftirlit sé með því sem frá Evrópusambandinu kemur og tengist aðildarviðræðum. Þess vegna er hætta á að textar verði samþykktir, sem augljóslega á ekki að samþykkja frá sjónarhóli þeirra, sem andvígir eru aðild.

Drög að ályktun sameiginlegs þingmannanefndarfundar Íslands og ESB, sem hér var haldinn sl. miðvikudag eru skýrt dæmi um þetta. Drögin eru samin úti í löndum. Sennilega hafa íslenzkir embættismenn komið þar eitthvað við sögu, þótt það hafi ekki verið staðfest. Breytingartillögur áttu að liggja fyrir eigi síðar en 20. apríl. Slíkar breytingatillögur komu frá erlendum þingmönnum en ekki íslenzkum.

Ætla verður að aðalmenn í sameiginlegu þingmannanefndinni hafi fengið drögin í hendur með viðunandi fyrirvara. Hitt er ljóst að varamenn, sem mættu á fundinn í fyrradag vissu lítið um þau fyrr en rétt fyrir fundinn.

Nú skal ekki dregið í efa að vinnuálag á þingmenn er mikið ekki sízt á formenn flokka, sem eiga sæti í þingmannanefndinni. En þá er auðvitað ljóst, að þeir verða að hafa einhverja aðra til þess að fylgjast með því, sem kemur frá ESB. Hefðu drögin verið samþykkt sem ályktun fundarins hefði um hneyksli verið að ræða út frá íslenzkum þjóðarhagsmunum.

Þetta tiltekna mál fór betur en á horfðist en það undirstrikar nauðsyn þess að komið verði upp einhvers konar vaktakerfi, sem fylgist með öllum textum, sem koma frá ESB á meðan á þessu ferli stendur. Því miður er ekki hægt að byggja á utanríkisráðuneytinu í þessu tilviki vegna þess, að þeir embættismenn sem þar fjalla um ESB-ferlið eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í ESB og þess vegna eru þeir nánast blindir á það, sem frá sjónarhóli andstæðinga aðildar eru íslenzkir hagsmunir í þessu sambandi.

Það er út af fyrir sig athyglisvert hvað grasrótarsamtök, sem sprottið hafa upp um einstök mál á undanförnum misserum hafa verið virk í þjóðmálabaráttunni á sama tíma og flokkarnir hafa verið eins og steindauðar stofnanir. Kannski er það vísbending um það, sem koma skal. Í þessu ljósi er auðvitað spurning, hvort samtök á borð við Heimssýn, sem eru þverpólitísk samtök, sem vinna gegn aðild Íslands að ESB geti tekið að sér að fara yfir alla texta, sem frá ESB koma í þessu samhengi. Vandinn við það er tvíþættur: í fyrsta lagi hefur Heimssýn ekki yfir þeim fjármunum að ráða, sem slík varðstaða kostar. Í öðru lagi er ljóst að farið er með suma af þessum textum, sem trúnaðarmál, þannig að jafnvel þótt Heimssýn setti upp slíka vakt mundu samtökin ekki fá alla slíka texta í hendur til skoðunar.

Það er svo annað mál, að fáránlegt er að krefjast trúnaðar um nokkra texta, sem frá ESB koma í tengslum við aðlögunarferlið. Þetta er ekkert einkamál örfárra stjórnmálamanna og embættismanna. Þetta er mál þjóðarinnar allrar. Þess vegna má kannski segja, að fyrsta skrefið í þá átt, sem hér er um fjallað eigi að vera að allir slíkir textar verði birtir opinberlega þegar í stað. Það mundi auðvelda þessa varðstöðu.

Þeir þingmenn, sem andvígir eru aðild Íslands að ESB hljóta að ræða þetta mál sín í milli af þessu gefna tilefni. Þessi mistök mega ekki endurtaka sig. Það verður að finna leið til þess á meðan umsóknarferlið er í gangi að farið verði vandlega yfir allt sem frá ESB kemur frá sjónarhóli andstæðinga aðildar og viðeigandi viðbrögð undirbúin, þegar það á við.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS