Mánudagurinn 18. janúar 2021

Stórveldaleikur Evrópu­sambandsins


Styrmir Gunnarsson
2. maí 2011 klukkan 10:42

Þrátt fyrir hina fallegu hugsjón um að sameina Evrópuríki í eina heild og koma með þeim hætti í veg fyrir stríð þeirra í milli er óneitanlega athyglisvert að fylgjast með því hvað þessi ríki leggja mikla áherzlu á að nýta sér allar hugsanlegar undanþágur frá sameiginlegum reglum eins lengi og þau mögulega geta og ganga jafnvel stundum lengra með því að brjóta þær eða vilja brjóta þær vísvitandi.

Nýjasta dæmið um þetta er opnun vinnumarkaða í dag í Þýzkalandi og Austurríki fyrir íbúa frá átta löndum í austurhluta Evrópu, sem áður töldust til leppríkja Sovétríkjanna en gengu í Evrópusambandið árið 2004. Þá var það gert með þeim skilmálum, að þau aðildarríki, sem fyrir voru gætu haldið vinnumörkuðum sínum lokuðum fyrir fólki frá þessum nýju aðildarríkjum í 7 ár. Tvö aðildarríkjanna, Austurríki og Þýzkaland, nýttu sér þennan frest til fulls en urðu að opna landamæri sín fyrir vinnuafli frá nýju ríkjunum átta í morgun.

Aðeins þrjú aðildarríkjanna opnuðu dyr sínar strax, þ.e. Bretland, Írland og Svíþjóð. Bretar búa auðvitað að langri hefði í sambandi við innflytjendur og Svíar hafa lengi talið sig hafa siðferðilega yfirburði yfir aðrar þjóðir í samskiptum við annað fólk.

Í Hollandi er nú komin upp mikil andstaða við innflytjendur frá ríkjunum í austurhluta Evrópu og kröfur um að þeim verði vísað heim. Hollenzk stjórnvöld hafa haft við orð að setja sérstakar reglur þar um. Þegar Evrópusambandið bendir á, að slíkt væri brot á sameiginlegu regluverki aðildarríkjanna á þessu sviði segja talsmenn hollenzkra stjórnvalda að þeir viti það vel en ætli samt að gera þetta. Það er kannski ekki að ástæðulausu, að þeir eru svo harðir í afstöðu sinni vegna þess, að bæði Þjóðverjar og Frakkar hafa sýnt í verki að þeir eru tilbúnir til að gera hið sama ef það hentar hagsmunum þeirra.

Þessi tregða að hleypa fólki frá öðrum löndum inn snýst ekki fyrst og fremst um, að þeir sem fyrir eru líti á þá, sem koma frá austurhluta Evrópu sem annars konar fólk. Þetta snýst sem sagt ekki um ólíka kynþætti. Tregðan snýst ekki sízt um ótta verkafólks við að missa vinnu til útlendinga og að vinnuveitendur noti tækifærið og lækki launakostnað sinn með nýjum innflytjendum.

Auðvitað má segja, að hér sé um að ræða vaxtarverki nýrrar þjóðfélagsskipunar í Evrópu og ekki við öðru að búast en að þeir komi fram með ýmsum hætti.

En tilhneigingin til þess að nýta sér allar undanþágur til hins ýtrasta og ganga jafnvel lengra sýnir að þrátt fyrir allt er mikil fyrirstaða til staðar innan Evrópuríkjanna við sameiningu þeirra í eitt ríki.

Þessi andstaða á eftir að vaxa eftir því, sem kröfur Þjóðverja og Frakka um meiri miðstýringu efnahagsstefnu, ríkisfjármálastefnu og skattheimtu fara vaxandi. Þær kröfur munu aukast einfaldlega vegna þess, að slík sameining er forsenda þess, að evran hafi nokkra möguleika á að lifa af.

Í þessari stóru mynd er Ísland svo örlítil eining að það er beinlínis hlægilegt að halda því fram að eftir okkur verði tekið eða að við munum hafa þar einhver áhrif. Evrópusambandinu er alveg sama um Ísland sagði evrópskur þingmaður á dögunum, ekki vegna þess að þið eruð Íslendingar heldur vegna þess að þið eruð svo fáir. Og þessi maður bætti við: Í dag er Evrópusambandið svæðisbundið stórveldi. Það hefur áhuga á Íslandi vegna þess að þá kemst það að samningaborðinu um Norðurslóðir og verður þar með heimsveldi að semja við önnur heimsveldi, ekki sízt Kína og Bandaríkin.

Eigum við að láta nota okkur í þessum stórveldaleik Evrópusambandsins?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS