Í dag fer fram í Berlín mikilvægur fundur á milli Angelu Merkel, kanslara Þýzkalands og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Þau eru á öndverðum meið um framtíð Evrópusambandsins. Angela Merkel vill meiri samruna, meiri völd til Brussel. David Cameron vill það þveröfuga. Hversu lengi getur svo náið ríkjasamstarf gengið, sem engin samstaða er um hvert skuli stefna?
Það er auðvitað ljóst að Þjóðverjar eru mesta efnahagsveldið í Evrópu. Þess vegna hafa þeir mest pólitísk áhrif. Enn einu sinni er þessi sterka staða Þjóðverja byrjuð að þvælast fyrir öðrum ríkjum Evrópu. Áður hefur verið gert út um slíkar deilur með vopnavaldi. Vonandi verður það aldrei aftur. Eftir sem áður þurfa leiðtogar Evrópu að komast að einhverri niðurstöðu. Og væntanlega er öllum ljóst, að þótt það séu hagsmunir Frakka að tengjast Þjóðverjum sem mest eru það síður en svo hagsmunir Breta. Þeir munu stefna í aðra átt.
Í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag kemur fram, að fjárfestar í Asíu eru byrjaðir að selja þýzk skuldabréf. Ástæðan sem gefin er upp er sú, að þeir hafa enga trú á því að leiðtogar Evrópu komi sér saman og að ástandið verði óbreytt. Evrópa hrekist um stjórnlaust í fjárhagslegum ólgusjó.
Í þessari stóru mynd skiptir aðildarumsókn Íslands engu máli. Auðvitað tekur Evrópusambandið á móti umsóknum um aðild og auðvitað fara þær í ákveðið ferli. En það er nánast sama við hverja er talað innan Evrópusambandsins. Spurningin er alls staðar sú sama: af hverju eruð þið að sækja um?
Þeirri spurningu hefur fyrst og fremst verið svarað hér með því að við þurfum á evrunni að halda. En hverjum dettur í hug, sem á annað borð hefur fylgzt með atburðarásinni í Evrópu að undanförnu, að við þurfum á evrunni að halda? Nær væri að segja, að það yrði eitthvert mesta glapræði, sem íslenzku þjóðinni hefði orðið á í samanlagðri rúmlega 1100 ára sögu sinni, ef við tækjum upp evru nú.
Deilurnar innan Evrópusambandsins eru að beinast í réttan farveg, þ.e. þær eru að byrja að snúast um grundvallaratriði. Hvert á að stefna? Bandaríki Evrópu, sem Merkel og Sarkozy virðast stefna að en De Gaulle vildu vissulega ekki stefna að og hugmyndir hans eiga sér enn sterka fylgismenn í Frakklandi, eða laustengdara hagsmunabandalag ríkja í þessum heimshluta, sem er það, sem Bretar vilja.
Hver ætli sé sýn Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum á þessa þróun? Það verður fróðlegt að sjá, hvort hún birtist landsfundarfulltrúum nú í dag og um helgina. Eða eru þeir jafn uppteknir af evrunni og Samfylkingin?!
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...