Laugardagurinn 14. desember 2019

Evru-vandinn eykst - ráðalausir ESB-ráðamenn


Björn Bjarnason
14. janúar 2012 klukkan 12:22

Lengi hefur legið í loftinu að bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor´s íhugaði að lækka lánshæfiseinkunn Frakklands og ýmissa annarra evru-ríkja. Látið var til skarar skríða föstudaginn 13. janúar, þá urðu níu ríki fyrir barðinu á matsmönnum fyrirtækisins. Þennan sama föstudag barst jafnframt tilkynning um að slitnað hefði upp úr viðræðum fulltrúa Grikkja og samtaka lánveitenda sem gæta hagsmuna lánastofnana sem eiga hæstu kröfur á hendur Grikkjum. Bæði þessi tíðindi sýna að því fer víðsfjarri að tekist hafi að skapa fast land undir fótum evrunnar eða finna leið úr skuldakreppunni á evru svæðinu.

Einlægir stuðningsmenn evrunnar á borð við Össur Skarphéðinsson virtust trúa því að á leiðtogafundi ESB-ríkjanna 8. og 9. desember 2012 hefði tekist að sigla evrunni í skjól og hennar biðu aðeins í blóm í haga. Össur lét sem svo að Íslendingar ættu sérstaklega að fagna niðurstöðu fundarins af því að hún tryggði þeim aðild að betri og sterkari evru en til hefði verið fyrir fundinn. Össur hefur enn einu sinni reynst marklaus eftir hástemmdar yfirlýsingar um ágætu ESB-aðildarstefnu sinnar. Íslensk stjórnmálasaga geymir sem betur fer ekki dæmi um að utanríkisráðherra hafi ratað í jafnmiklar villur með meginbaráttumál sitt. Eina fordæmið er Icesave-villa Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar. Allir lúta þessir samningamenn Íslands leiðsögn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem hrópar hæst á nauðsyn þess að ljúka samningum við Evrópusambandið.

Vandi íslenskra ráðherra vegna evrunnar er meira í orði en á borði vegna þess að sem betur fer er langt að bíða þess að þeim takist að þröngva Íslendingum inn á evru-svæðið. Þjóðin getur enn gripið fram fyrir hendur þeirra og á að fá leyfi til þess sem fyrst í þingkosningum. Vandi ráðamanna á evru-svæðinu er miklu meiri en hinna íslensku. Þeir eiga pólitískt líf sitt undir því að þeim takist að finna trúverðug úrræði til að snúa vörn í sókn. Evru-samningurinn sem nú er í smíðum dugar ekki til þess. Jean-Claude Piris, fyrrverandi forstöðumaður lagasviðs ráðherraráðs ESB, sagði í vikunni að evru-samningsdrögin væru alltof máttlaus.

Um 100 dagar eru þar til kjósendur í Frakklandi velja sér forseta. Nicolas Sarkozy lofaði því fyrir fimm árum þegar hann settist á forsetastól að hann mundi umbreyta og styrkja franskan efnahag. Hann gat ekki fengið blautari tusku í andlitið en frá S&P í þann mund sem kosningabaráttan er að taka flugið. Í raun brotlenti Sarkozy í flugtakinu. Hann vildi þakka sér árangurinn á desember-fundinum í Brussel en verður nú talinn hafa fallið á prófinu. Næstu vikur hugsar hann um eigin örlög. Stóra spurningin er hvenær hann sér ekki lengur hag af því að halla sér að Angelu Merkel og Þjóðverjum.

Hinn svarti föstudagur evrunnar dregur dilk á eftir sér. Umræður um framtíð hennar munu breytast innan evru-svæðisins sjálfs. Líkur á uppbroti samstarfsins aukast enn frekar. Markleysi stuðningsmanna evru-samstarfsins eykst jafnt og þétt bæði hér á landi og erlendis.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS