Þriðjudagurinn 2. mars 2021

Stríðið vegna evrunnar magnast á æðstu stöðum ESB


Björn Bjarnason
8. maí 2012 klukkan 10:45

Niðurstaðan í grísku þingkosningunum sunnudaginn 6. maí sýndi að 60% kjósenda styðja stjórnmálaflokka sem hafna niðurskurði opinberra útgjalda. Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði mánudaginn 7. maí að hvað sem liði þessari niðurstöðu kosninganna yrðu Grikkir að standa við fyrri skuldbindingar um niðurskurð til að fá 130 milljarða evru neyðarlán. Þarna blasir við gjá sem ekki verður unnt að brúa í umboði grískra kjósenda. Á þessu stigi veit enginn hvað gerist næst. Helst er talað um að kjósa að nýju til þings í Grikklandi í júní.

Vandinn snýr ekki aðeins að Grikkjum. Hann hvílir eins og mara á Evrópusambandinu öllu. Hér á síðunni hefur verið birtur kafli úr einskonar SOS-neyðarbréfi sem Anna Diamantopoulou, sem lætur nú af embætti þróunarráðherra Grikklands og áður sat í framkvæmdastjórn ESB, sendi Jacques Delors og Romano Prodi, tveimur fyrrverandi forsetum framkvæmdastjórnar ESB. Gríski ráðherrann vonar að þessir tveir fyrrverandi forsetar framkvæmdastjórnarinnar geti bjargað ESB frá glötun. Bréfinu var lekið til breska blaðsins The Guardian. Þar segir að niðurskurðurinn í Evrópu hafi skapað hálfgert stríðsástand innan ESB:

„Það líkist aðeins stríði þegar þjóð tapar 20% af landsframleiðslu sinni á 18 mánuðum. Það líkist stríði þegar aftur er gripið til skömmtunar í evrópskum höfuðborgum. Það líkist stríði þegar milljónir ungs fólks, hinir bestu og gáfuðustu, yfirgefa land sitt. […]

Grikkir, Ítalir, Spánverjar, Portúgalir, Írar og jafnvel Frakkar eru í miðjum skógareldi sem breiðir ótrúlega hratt úr sér. Það er misskilningur að eldur af þessu tagi stöðvist við landamæri. Leiðtogaráð ESB hefur verið gert áhrifalaust af fjármálaaflstöð þess, Þýskalandi.“

Þetta er ófögur lýsing stjórnmálamanns sem ber ekki síður hag ESB fyrir brjósti en eigin lands. Anna Diamantopoulou gerir sér grein fyrir því að óvildin í garð Angelu Merkel í Grikklandi á rót í ósætti við aðild að ESB-samstarfi sem sviptir Grikki fjárræði og setur þá í óbærilega spennitreyju.

Hið sama blundar undir niðri í Frakkalandi þar sem gengið verður til þingkosninga 10. og 17. júní. François Hollande, nýkjörinn forseti, sagðist ekki vilja sætta sig við einhliða aðhaldsstefnu ríkisfjármálasamnings 25 ESB-ríkja. Hvernig ætlar hann að marka spor innan ESB í anda eigin stefnu fyrir þingkosningar eftir nokkrar vikur? Hann verður að stofna til átaka á vettvangi Evrópusambandsins við Angelu Merkel. Margt bendir til að hann hafi framkvæmdastjórn ESB í liði með sér. Henni hefur fundist Merkel og Sarkozy ýta sér til hliðar við töku afdrifaríkra ákvarðana.

Stríðinu við skuldavandann á evru-svæðinu er alls ekki lokið. Það er háð innan einstakra ESB-ríkja og nú verður einnig barist á æðstu valdastöðum innan ESB.

Eins og kunnugt er fer þessi vandi alveg fram hjá ríkisstjórn Íslands. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að vandi evrunnar sé fyrir löngu leystur og hún bíði sterkari en nokkru sinni fyrr eftir því að Íslendingar hefji að nota hana í stað krónunnar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS