Þriðjudagurinn 10. desember 2019

Pukur, græðgi og lítilmennska vegna IPA-styrkja


Björn Bjarnason
19. maí 2012 klukkan 11:22

IPA-styrkir Evrópusambandsins eru til umræðu á alþingi á lokadögum þinghaldsins í vor. Þingmenn ræða annars vegar tillögu til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að semja um þessa styrki og hins vegar frumvarp til laga aðferðir við að veita styrkina og skattfrelsi þeirra. Engum blöðum er um það að fletta að hér er um að ræða styrki sem veittir eru ríki sem sótt hefur um aðild að ESB til að auðvelda því að fullnægja kröfum ESB um breytingar á lögum og stjórnsýslu, laga sig að ESB-aðildinni. Þetta eru með öðrum orðum aðlögunarstyrkir í samræmi við þá staðreynd að viðræður um aðild að ESB snúast um aðlögun að lögum og skilyrðum ESB en ekki um að „kíkja í pakkann“.

Þegar umsóknin um aðild að ESB var rædd og samþykkt á alþingi í júlí 2009 hefði átt að leggja tillögurnar um IPA-styrkina fyrir alþingi. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert var pólitísk ákvörðun um að leyna hinu rétta eðli umsóknarferlisins. Það féll ekki að blekkingarleiknum um að „kíkja í pakkann“ að segja alla söguna. Þess í stað ráku ESB-aðildarsinnar um hneykslunaróp þegar á þá staðreynd var bent að þeir segðu ósatt um eðli ESB-aðildarviðræðnanna með því að kalla þær könnunarviðræður.

Gripið var til þess ráðs innan stjórnarráðsins að ýta á opinberar stofnanir og aðra sem gátu átt rétt á IPA-styrkjum að sækja um þá þótt innlenda regluverkið og heimildir skorti vegna styrkjanna. Markmiðið var að búa til þrýstihóp fjárþyrstra eða fjársveltra umsækjenda sem sætu uppi með tóma vasa og sárt enni ef ekki yrði unnt að veita þeim styrkina vegna andstöðu á alþingi. Það er undir slíkum þrýstingi sem IPA-málin eru til afgreiðslu á þingi um þessar mundir.

Þessi háttur við innleiðingu ESB-krafna um aðlögun er ógeðfelldur en þó er hann fastur liður innan Evrópusambandsins. Hann ber vott um hið ólýðræðislega eðli sambandsins þar sem embættismenn nota öll tæki í tösku sinni til að ná því fram sem þeir vilja með góðu eða illu. Cristian Dan Preda, Íslandsfulltrúi utanríkisnefndarinnar á ESB-þinginu, orðaði þetta svo: „Fulltrúar okkar eru hins vegar einnig mjög vel undir það búnir að tryggja að lagabálkur ESB verði samþykktur.“ Með því átti hann við að þeir sem kæmu fram fyrir hönd ESB gagnvart Íslandi kynnu að knýja fram niðurstöðu í þágu ESB.

Eitt er að þessar aðgerðir tíðkist innan ESB annað að þær ráði ferð í ríkisstjórn Íslands. Þær eru ámælisverðar í mörgu tilliti hér skulu nefnd þrjú gagnrýnisatriði:

  • Íslensk stjórnvöld hafa gerst sek um yfirhylmingu „cover up“. Þau hafa vísvitandi leynt íslensku þjóðina réttu eðli ESB-viðræðnanna. Richard Nixon hrökklaðist frá völdum vegna yfirhylmingar.
  • Íslensk stjórnvöld hafa án þess að fyrir liggi heimild í samningi eða lögum hvatt opinberar stofnanir til að sækja um styrki til ESB í þeim tilgangi að skapa þrýsting á þingmenn í þágu krafna ESB.
  • Íslensk stjórnvöld hafa veikt stöðu Íslands í viðræðunum gagnvart ESB með því að gerast fjárhagslega háð aðlögunarstyrkjum.

Margur pólitískur afleikur einkennir ESB-umsóknarferli Íslands. Pukrið, græðgin og lítilmennskan í tengslum við IPA-styrkina sýnir hve lágt er unnt að leggjast.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS