Þriðjudagurinn 10. desember 2019

Þjóðaskúta ESB er að sigla í strand-nánast ómögulegt að samræma ólíka hagsmuni


Styrmir Gunnarsson
26. júlí 2013 klukkan 10:22

Í dag birtast fréttir um að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi áhyggjur af því að áhrif þeirrar ákvörðunar Seðlabanka Bandaríkjanna að draga smátt og smátt úr kaupum á markaði á evrusvæðið verði neikvæði og geti ýtt veikustu evruríkjunum niður í spíral skulda og verðhjöðnunar. Þessa hefur orðið vart alveg frá því að Ben Bernanke, aðalbankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna gaf til kynna að bankinn stefndi að því að draga sig smátt og smátt út úr þeim sérstöku aðgerðum, sem hann hóf þegar fjármálakreppan skall á í Bandaríkjunum fyrir 5-6 árum. Þá byrjaði ávöxtunarkrafa á skuldabréf rikja á borð við Spán og Ítalíu að hækka á markaði.

Þessi aðvörun AGS birtist sömu dagana og fréttir koma sem gefa til kynna að framleiðsla í evruríkjunum sé að taka við sér á ný og að einkageirinn sé að ná sér á strik á evrusvæðinu. Slíkar tölur segja þó ekki alla söguna vegna þess, að það er fyrst og fremst einkageirinn í Þýzkalandi sem er að ná sér á strik og að einhverju leyti í Frakklandi. Það jákvæða við þróunina að undanförnu í suðurríkjum Evrópu er að þar er samdrátturinn í framleiðslu heldur minni en verið hefur en engu að síður samdráttur.

Þessar misvísandi tölur sýna vel hve flókin sú vegferð er sem aðildarríki evrunnar lögðu upp í, þegar þau tóku upp sameiginlegan gjaldmiðil. Að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil var pólitísk ákvörðun, sem var ekki sízt skilyrði Frakka fyrir því að styðja sameiningu þýzku ríkjanna. Henni var hrint í framkvæmd áður en hinar peningalegu hliðar hennar höfðu verið útfærðar til fulls. Það var stokkið til sunds, þótt ekki sæi til lands.

Nú eru að kom út beggja vegna Atlantshafs fleiri og fleiri bækur, sem varpa ljósi á fjármálakreppuna, sem þessi ríki hafa verið að fást við. Eitt er að verða alveg ljóst. Hið upphaflega björgunarlán til Grikklands vorið 2010 var vissulega björgunarlán til Grikkja en hið endanlega markmið þess var ekki sízt að bjarga þýzkum bönkum, sem höfðu lánað með glannalegum hætti til Grikklands og fleiri ríkja í suðurhluta Evrópu.

Annað er líka að verða ljóst. Vaxtapólitík Seðlabanka Evrópu hefur verið miðuð við þarfir Þýzkalands en ekki tekið mið af t.d. hagsmunum Írlands. Það er kannski skiljanlegt vegna þess að hlutur Írlands í sameiginlegri vergri landsframleiðslu evruríkja hefur verið mjög lítill. En það breytir ekki því, að af þessum ástæðum varð efnahagskreppan á Írlandi verri viðureignar en ella. Vaxtapólitík Seðlabanka Evrópu verkaði eins og þegar olíu er hellt á eld fyrir Írland. Hið sama gerðist í suðurríkjum Evrópu.

Það er alveg sama hvað forystumenn einstakra ESB-ríkja halda margar og fallegar ræður og hvað talsmenn framkvæmdastjórnar Evrópu tala oft gersamlega úr takti við allan veruleika í kringum þá: Þjóðaskúta Evrópusambandsins er að sigla í strand vegna þess að það er nánast ómögulegt að samræma þá ólíku hagsmuni, sem þarna eru á ferð.

Spurning er hvort líta má á aðvörun AGS sem eins konar neyðarkall um að Bandaríkin verði að koma evrusvæðinu til bjargar með markaðslegum björgunaraðgerðum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS