Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Marta Andreasen talar af reynslu um ESB - skýr varnaðarorð


Björn Bjarnason
31. ágúst 2013 klukkan 10:12

Marta Andreasen, ESB-þingmaður úr breska Íhaldsflokknum, flutti erindi í Háskóla Íslands föstudaginn 30. ágúst á vegum samtaka gegn ESB-aðild auk Evrópuvaktarinnar. Ræddi hún hvert ESB stefndi. Hún sagðist ekki hafa orðið andstæð ESB fyrr en eftir að hún starfaði þar í nokkra mánuði sem yfirmaður innri endurskoðunar og kynntist spillingu og sóun í framkvæmdastjórn sambandsins.

Marta Andreasen var kjörin á ESB-þingið 2009 fyrir UKIP, flokk breskra sjálfstæðissinna. Hún sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun 2013 og gekk í breska Íhaldsflokkinn. Hún bindur miklar vonir við að stefna íhaldsmanna undir forystu Davids Camerons muni leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðildina að ESB og niðurstaða hennar valdi þáttaskilum innan Evrópusambandsins og veki þjóðir og ráðamenn til vitundar um nauðsyn lýðræðislegri stjórnarhátta.

Í erindi sínu og svörum við spurningum ræddi ESB-þingmaðurinn jafnan um „þá“ og „þeir“ mundu ekki samþykkja eitt eða annað. Þegar hún var spurð hverjir þessir „þeir“væru svaraði hún að það væru embættismenn stofnana ESB, einkum framkvæmdastjórnarinnar sem gjarnan væru kallaðir „mandarínarnir“ og réðu í raun ferðinni. Framkvæmdastjórar ESB kæmu og færu en embættismennirnir sætu og héldu sínu striki án nokkurs lýðræðislegs umboðs. Markmið þeirra væri að auka miðstýringu og ná meira af fullveldi þjóða í sínar hendur. Hún hefði á sínum tíma lent í átökum við „þá“ þegar hún vildi endurskipuleggja reikningshald ESB til að draga úr spillingu og sóun.

Hún sagði ESB-þingið eins og stimpil fyrir framkvæmdastjórnina og þar væri að jafnaði samstaða milli stærstu þingflokka um afgreiðslu mála. Þingmenn vildu helst ganga lengra í átt til sambandsríkis en framkvæmdastjórnin. Margt benti hins vegar til að í ESB-þingkosningum í maí 2014 mundi þeim fjölga í hópi ESB-þingmanna sem hefðu efasemdir um að ESB væri á réttri braut þegar stefnt væri til sambandsríkis.

Andreasen var spurð hvort hún héldi, ræddu Íslendingar áfram um aðild við ESB, að þeir fengju sérlausn í sjávarútvegsmálum. Hún sagði að væri um varanlega sérlausn að ræða yrði að tryggja hana með „opt out“, það er varanlegri undanþágu frá Lissabon-sáttmálanum og það yrði ekki gert án þess að breyta honum. Þá breytingu yrði að bera undir þjóðþing allra ESB-ríkja. Það væri formlega hlið málsins og mjög sterk rök þyrfti til að þetta yrði gert. Efnislega yrðu menn að hafa í huga að ESB hefði mótað sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum annars vegar og sjávarútvegsmálum hins vegar – það væri óhugsandi að fá „opt out“ frá þessum stefnum. Menn þyrftu ekki annað en kynna sér framgöngu ESB í makrílmálinu til að átta sig á að ESB sé ekki þeirrar skoðunar að virða beri einhver sérréttindi Íslendinga.

Þetta eru sterk rök gegn sjónarmiðum þeirra sem halda að Íslendingar geti tryggt rétt sinn til yfirráða yfir 200 mílna lögsögunni og ákvörðunarvald um nýtingu deilistofna þrátt fyrir ESB-aðild. Evrópusambandið mun aldrei samþykkja að breyta sáttmálum sínum og sjávarútvegsstefnu á þann veg að Íslendingar njóti þar lögskipaðrar sérstöðu. Þetta vita allir sem þekkja til mála innan ESB.

Margt bendir til að þeir sem fylgja íslensku „kíkja í pakka-stefnunni“ átti sig einnig á þessu þótt þeir flíki því ekki og þetta sé ástæðan fyrir tregðu þeirra til að láta reyna á hin raunverulegu ágreiningsmál – sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál – í upphafi viðræðna við ESB. Þá hefðu þeir strax kynnst innihaldi pakkans og orðið frá að hörfa. Þeir vildu það hins vegar ekki heldur hitt að þvæla Íslendingum inn í ómarkvisst viðræðuferli til margra ára í von um að ESB gæti keypt sér fylgi meirihluta Íslendinga.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS