Sunnudagurinn 7. ágúst 2022

Hagfræði­stofnun semur ESB-úttektarskýrslu


Björn Bjarnason
5. nóvember 2013 klukkan 10:08

Það tók Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fimm mánuði að finna einhvern til að gera úttekt á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það var ekki fyrr en 25. október 2013 sem ritað var undir samning milli utanríkisráðuneytisins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um að úttektin færi fram á hennar vegum. Hinn 17. október lagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram skriflega fyrirspurn á alþingi til utanríkisráðherra um stöðu úttektarmálsins. Það var ekki fyrr en svarið við henni var lagt fram á alþingi 4. nóvember að loks var upplýst hvernig að úttektinni yrði staðið.

Í tíð Gunnars Braga sem utanríkisráðherra hefur endurtekið sig hið sama og gerðist undir stjórn forvera hans, Össurar Skarphéðinssonar, að tímasetningar virðast hreint aukaatriði þegar á reynir í samskiptum utanríkisráðuneytisins og ESB. Þegar aðildarleiðangurinn hófst 16. júlí 2009 var látið eins og honum mundi kannski ljúka á ári, ef til vill á 18 mánuðum en örugglega fyrir árslok 2012. Allt reyndust þetta spár út í loftið. Leiðangrinum er ekki lokið enn. Gert hefur verið hlé á honum og ekki verður lagt af stað að nýju nema þjóðin veiti heimild til þess í atkvæðagreiðslu.

Gunnar Bragi Sveinsson hélt snarlega til Brussel eftir að hann varð utanríkisráðherra og sagði Brusselmönnum frá áformum ríkisstjórnarinnar. Hann sagði einnig að á haustþingi 2013 yrði úttektarskýrslan um umræðurnar kynnt. Fögnuðu Brusselmenn því og sögðu að þeir yrðu að fá að vita eins fljótt og kostur væri hvað ríkisstjórn, alþingi og íslenska þjóðin ætlaði að gera.

Af beggja hálfu var um fyrirslátt að ræða. Í fyrsta lagi lá ekki lífið við að semja skýrsluna góðu og í öðru lagi þurftu Brusselmenn ekki að bíða eftir neinu. Þeir áttu að geta áttað sig tafarlaust á stöðunni á Íslandi sem þeir gerðu auðvitað og settu viðræðumennina við Íslendinga í önnur verkefni. Hið eina sem fékk að lifa af þeirra hálfu var Evrópustofa sem starfar enn í óþökk stjórnarflokkanna ef marka má samþykktir landsfunda þeirra. Hefur hún nú snúið sér að styrkveitingum til kvikmyndahátíða.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur sinnt mörgum vandasömum verkefnum á grundvelli verktakasamninga við íslenska ríkið. Eins og nafn stofnunarinnar gefur til kynna er sérsvið hennar að glíma við hagfræðileg eða efnahagsleg úrlausnarefni. Það ber því vott um lifandi hugmyndaflug utanríkisráðherra að leita til hagfræðistofnunar um þetta verkefni sem lýtur að verulegu leyti að lögfræðilegum og pólitískum úrlausnarefnum auk þekkingar á innviðum og starfsháttum Evrópusambandsins. Úr því að stofnunin tók verkefnið að sér skal ekki dregið í efa að hún vinni það af óhlutdrægni og fræðilegum heiðarleika.

Að óathuguðu máli hefði verið talið að þetta verkefni ætti heima hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Val utanríkisráðherra á henni hefði hins vegar kallað yfir ráðherrann gagnrýni frá þeim sem telja að alþjóðamálastofnunin hafi í mörgu tilliti gengið erinda ESB eftir að umsóknarferlið hófst. Stofnunin hefur á sér stimpil þátttakanda í ESB-aðildarleiðangrinum.

Hagfræðistofnun ber að skila skýrslu í formi þingskjals hinn 15. janúar 2014 segir í samningi stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins. Hún fær helmingi skemmri tíma til að vinna sjálft verkið en tók utanríkisráðherra og ráðuneyti hans að finna skýrsluhöfundinn.

Eins og sagði í upphafi er tíminn afstæður þegar rætt er um samskipti Íslands og ESB. Raunar er óskiljanlegt að ráðamenn telji að best sé að láta óðagot ráða þegar fjallað er um þau. Ein helsta ástæðan fyrir því að ESB-málið klúðraðist í höndum Össurar Skarphéðinssonar var skortur á fyrirhyggju og vandvirkni.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS