Laugardagurinn 6. mars 2021

Nýr áfangi í samskiptum Grænlendinga og Íslendinga


Björn Bjarnason
9. nóvember 2013 klukkan 11:58

Stórviðburður varð í stjórnmálasögu Grænlands og samskiptum Íslendinga og Grænlendinga föstudaginn 8. nóvember þegar Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, opnaði sendiræðisskrifstofu Íslands í Nuuk, höfuðstað Grænlands, að viðstöddum Alequ Hammond, formanni grænlensku landstjórnarinnar, og fleiri fyrirmönnum á Grænlandi. Í fáein ár þegar Danmörk var hernumin af nasistum héldu stjórnir Bandaríkjanna og Kanada úti stjórnarerindrekum á Grænlandi. Síðan hafa grænlensk stjórnvöld ekki átt sambærileg samskipti við erlent ríki fyrr en Pétur Ásgeirsson sendiherra sest að í Nuuk sem aðalræðismaður Íslands.

Í tilefni af þessum viðburði rituðu Aleqa Hammond og Gunnar Bragi Sveinsson undir samstarfsyfirlýsingu. Þar kemur fram að landstjórnin á Grænlandi hafi til athugunar hvernig hún ætli að efla fyrirsvar sitt á Íslandi á næstu árum. Grænlensk stjórnvöld halda úti skrifstofu í Brussel til að gæta hagsmuna sinna gagnvart Evrópusambandinu.

Í apríl 2007 varð Eiður Guðnason sendiherra fyrsti aðalræðismaður Íslands með aðsetur í sendiræðisskrifstofunni í Þórshöfn í Færeyjum. Eiður lagði þar grunn að góðu starfi sem síðan hefur orðið til að efla samskipti Íslendinga og Færeyinga. Færeyska landstjórnin hefur um árabil rekið sendiræðisskrifstofu hér á landi.

Áhersla íslenskra stjórnvalda á að styrkja samstarfið við næstu nágranna Íslendinga í vestri og austri er í samræmi við aukinn skilning og áhuga á að skilgreina stöðu vestnorrænu þjóðanna á skarpari hátt en áður í samræmi við aukinn áhuga almennt á norðurslóðum og þjóðunum sem þar lifa.

Nýlega sendi Heiðar Guðjónsson frá sér bók undir heitinu Norðurslóðasóknin - Ísland og tækifærin þar sem varpað er ljósi á hraða þróun á norðurslóðum undanfarin ára og reifuð tækifæri Íslands. Árið 2012 gaf Fróðskaparsetrið í Færeyjum út safnritið Naboer í Nordatlanten – Færøerne, Island og Grønland. Ómetanlegt sagnfræðilegt rit fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér meginatriði vestnorrænnar sögu undanfarin 1000 ár.

Í Norðurslóðasókninni er lögð sérstök áhersla á samskipti Grænlendinga og Íslendinga og minnt á hve Ísland var mikilvæg miðstöð fyrir 800 til 1000 árum vegna allra ferða og viðskipta manna frá norðurslóðum til annarra hluta heimsins. Hið sama á við enn þann dag í dag eins og endurspeglast í samstarfsyfirlýsingunni sem ritað var undir í Nuuk 8. nóvember 2013.

Í yfirlýsingunni er minnt á aukinn áhuga á nýtingu auðlinda á norðurslóðum, meiri ferðamennsku og aukna flutninga. Með nýtingu tækifæra á þessu sviði megi auka hagsæld þjóðanna samhliða því sem hugað sé að vernd umhverfisins. Að þessu ætli stjórnir landanna að vinna sameiginlega á sviði fiskveiða og verslunarviðskipta. Þá verði samvinna um matvælaöryggi aukin og staðinn vörður um nýtingu hefðbundinna fæðutegunda norðurslóðamanna. Stuðla skal að afnámi tæknilegra hindrana í vegi fyrir viðskiptum með matvæli á milli landanna. Samstarf á sviði heilbrigðismála á að efla og dýpka enn frekar. Í auknum sjóflutningum felist bæði tækifæri og áskoranir fyrir Íslendinga og Grænlendinga.

Nýr áfangi er að hefjast í samskiptum Grænlendinga og Íslendinga. Áform stjórnvalda þjóðanna er að treysta bönd þeirra enn frekar. Að því ber að vinna eftir öllum skynsamlegum og færum leiðum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS