Vaxandi þungi er að færast í umræður í Bretlandi um afstöðu Breta til Evrópusambandsins. Síðustu misseri hafa þær umræður einkennzt af áhyggjum vegna fjölda innflytjenda frá öðrum aðildarríkjum ESB en meira og meira snúast þær nú um kröfur um að Bretar endurheimti eitthvað af því valdi, sem þeir hafa framselt til Brussel. Cameron, forsætisráðherra hefur brugðizt við þessum umræðum með því að gefa fyrirheit um að endursemja við Evrópusambandið um stöðu Bretlands innan þess og lofar þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu Breta til ESB á árinu 2017.
Um helgina birtust fréttir þess efnis að 95 þingmenn Íhaldsflokksins hefðu skrifað Cameron bréf þar sem þeir hvetja til þess að löggjöf verði sett á brezka þinginu, sem geri Bretum kleift að hafna einstökum þáttum í laga- og regluverki ESB ef þeim sýnist svo. Talið er að sex þingmenn til viðbótar séu sama sinnis þótt þeir hafi ekki skrifað undir. Einstakir ráðherrar í ríkisstjórn Camerons hafa brugðizt við og segja slíkar hugmyndir óraunsæjar eins og lesa má um í fréttum Evrópuvaktarinnar.
Ástæðan fyrir þessum óróa í Íhaldsflokknum er margþætt. Í fyrsta lagi er augljóst að það er einlæg sannfæring stórs hóps í þingflokki íhaldsmanna á Bretaþingi að sameiningarþróunin innan ESB hafi gengið of langt og henti ekki lengur hagsmunum Breta. Í öðru lagi hafa íhaldsmenn áhyggjur af því að Ukip (UK Independence Party) nái miklum árangri í kosningum til Evrópuþingsins í vor og í þriðja lagi að þar með væri Ukip kominn í stöðu til að ná verulegu fylgi frá Íhaldsflokknum í þingkosningum þar á næsta ári og greiða leið Verkamannaflokksins til valda á ný.
Í þessu samhengi má ekki gleyma því að Bretland er eitt af þremur öflugustu aðildarríkjum Evrópusambandsins og þess vegna skipta slíkar umræður þar miklu máli en jafnframt er ljóst að slík sérstaða Breta gagnvart Evrópusambandinu er ekki ný. Hún hefur alltaf verið til staðar enda tók það langan tíma fyrir Breta að gera upp við sig hvort þeir vildu aðild að ESB. Það tók líka langan tíma fyrir sumar meginlandsþjóðanna og þá sérstaklega Frakka að gera upp við sig hvort þær vildu fá Breta með og þáverandi Frakklandsforseti, Charles de Gaulle, beitti tvívegis neitunarvaldi gegn aðild Breta.
Umræðurnar í Bretlandi nú eru einn af mörgum þáttum í málefnum ESB, sem sýna að þetta samstarf stendur á ákveðnum krossgötum. Efasemdir um evruna hverfa ekki og innan evrusvæðisins sjálfs eru mikil átök. Gagnrýni Breta á frjálsa för fólks innan ESB finnur víða hljómgrunn ekki sízrt vegna þess að einstök aðildarríki telja sig ekki hafa efni á því að taka mikinn fjölda innflytjenda inn í velferðarkerfi sín. Það eru ekki bara Bretar sem tala á þann veg. Sambærileg gagnrýni hefur komið fram í Danmörku og að hluta til hafa Þjóðverjar lýst svipuðum áhyggjum.
Það styttist í að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu viðræðna og þróun Evrópusambandsins komi fram. Það er rétt sem fram kom hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra í gær, að lítið hefur farið fyrir umræðum um þróun Evrópusambandsins hér á Íslandi. Þeim hefur þó verið haldið uppi bæði í Morgunblaðinu, hér á Evrópuvaktinni, af hálfu talsmanna Heimssýnar og annarra en aðildarsinnar hafa ekki tekið þátt í þeim umræðum.
Að mörgu leyti virðist sem aðildarsinnar vilji einfaldlega horfa fram hjá þeirri þróun, sem þar hefur orðið og hefur leitt til þess að umræður innan ESB um framtíðina harðna stöðugt. Embættismannakerfið í Brussel vill Bandaríki Evrópu með svipuðu stjórnskipulagi og í Bandaríkjunum.
Yrði Ísland aðili að slíku ríkjabandalagi mundi Ísland hverfa sem sjálfstætt ríki.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...