Mánudagurinn 25. janúar 2021

Ræða Osbornes og afturköllun aðildarumsóknar


Björn Bjarnason
16. janúar 2014 klukkan 10:34

Eitt af því sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tók að sér að gera fyrir utanríkisráðuneytið var að leggja mat á framtíðarþróun innan Evrópusambandsins og breytingar á því. Um þetta var samið á milli stofnunarinnar og ráðuneytisins í október 2013 og átti skýrsla stofnunarinnar að sjá dagsins ljós 15. janúar 2014. Sá dagur er nú liðinn en Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, sagði í samtali á sjónvarpsstöðinni ÍNN miðvikudaginn 15. janúar að von væri á skýrslunni næstu daga.

Vigdís vill að samhliða því sem skýrslan er tekin til umræðu leggi ríkisstjórnin fram tillögu á alþingi um að draga ályktun alþingis frá 16. júlí 2009 um ESB-aðildarumsóknina til baka. Það sé rökrétt skref í ljósi stefnu stjórnarflokkanna og þróunar mála á vettvangi ESB frá því að umsókn Íslands var lögð fram.

Þessi skoðun Vigdísar Hauksdóttur fellur að því mati sem fram kom í ræðu George Osbornes, fjármálaráðherra Breta, á ráðstefnu Open Europe í London miðvikudaginn 15. janúar. Ráðherrann gekk að því sem vísu að evru-ríkin mundu ganga til enn nánara samstarfs til að bjarga hinni sameiginlegu mynt. Bretar ætluðu sér ekki að taka upp evru, þeir vildu hins vegar að réttarstaða sín og annarra ESB-ríkja án evru yrði skýrð og treyst. Varðstaða um hinn sameiginlega innri markað yrði tryggð í þágu ríkjanna sem ekki eru með evru án þess að á þau yrðu lagðar frekari skuldbindingar vegna samruna evru-ríkjanna. Yrði ekki komið til móts við kröfur Breta um þetta ættu þeir ekki annan kost en segja skilið við ESB.

Orð breska fjármálaráðherrans sýna að hann telur miklar breytingar í vændum innan ESB. Myntsamstarfið muni þróast áfram á kostnað fullveldis aðildarríkja þess.

Bretar og Danir sköpuðu sér sérstöðu gagnvart myntsamstarfinu fyrir rúmum tveimur áratugum þegar Maastricht-sáttmálinn var gerður. Þeim er einum ESB-þjóða ekki skylt að taka upp evru. Engin ný aðildarþjóð ESB getur skapað sér sömu sérstöðu og Bretar og Danir fengu á sínum tíma. Breski fjármálaráðherrann er þó ekki fullviss um að sérstaða Breta haldist, hann vill meiri tryggingar, aukna sérstöðu annars segi Bretar skilið við ESB.

Aðildin að myntsamstarfinu og upptaka evrunnar hefur verið helsta gulrót ESB-aðildarsinna á Íslandi til þessa. Nú renna meira að segja á þá tvær grímur vegna aðildar að myntsamstarfinu, talað er um sérlausnir vegna þess eins og vegna landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála. „Allir aðildarsamningar að Evrópusambandinu og nýjar grundvallarsamþykktir, eins og Maastricht-samningurinn um myntbandalagið, hafa að geyma sérákvæði sem varða einstök aðildarríki,“ sagði Einar Benediktsson sendiherra í Morgunblaðsgrein miðvikudaginn 15. janúar.

Sérlausnatal aðildarsinna er raunar þess eðlis að óskiljanlegt er hvers vegna þeir styðja aðildarumsóknina. Þetta tal er þó aðeins áróðursbragð. Umsóknarríki eru ekki aðilarríki ESB, umsóknarríkið fær ekki sömu undanþágu og aðildarríki, umsóknarríkið verður að gleypa alla ESB-löggjöfina, viðræður snúast um hve langan tíma nýja þjóðin fær til að kyngja.

Takist Bretum að ná markmiðinu sem George Osborne lýsti í ræðu sinni 15. janúar verður til nýtt tvískipt Evrópusamband með einsleitan innri markað. Aðild að því sambandi verður allt annars eðlis en því sem nú er þar sem Brusselmenn hafa fært sig meira upp á skaftið en góðu hófi gegnir. Sé ekki litið til annars en breytingarinnar á ESB síðan 2009 og þess sem í vændum er innan ESB ber að draga aðildarumsókn Íslands til baka. Hún er umsókn að Evrópusambandi sem rís ekki úr öskustónni nema í nýrri mynd.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS