Föstudagurinn 22. janúar 2021

Þjóðaratkvæða­greiðslan í Sviss


Styrmir Gunnarsson
10. febrúar 2014 klukkan 07:31

Stundum setur hinn almenni borgari strik í reikninginn með afgerandi hætti. Það gerðist hér á Íslandi í Icesave-málinu og það gerðist í Sviss í gær. Fyrir nokkrum vikum bentu skoðanakannanir til þess að tillaga um að takmarka fjölda innflytjenda til Sviss yrði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var hins vegar samþykkt. Í frétt Evrópuvaktarinnar um þessa niðurstöðu segir:

„Kjósendur í Sviss samþykktu sunnudaginn 9. febrúar að “binda enda á fjöldakomu innflytjenda„. Meirihlutinn að baki samþykktinni var mjög naumur, 50,3%. Tillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna kom frá hægri flokknum SVP, Þjóðarflokknum. Markmiðið er að setja kvóta um fjölda innflytjenda og semja við ESB um breytingar á reglunni um frjálsa för fólks á milli ESB og Sviss en Svisslendingar taka auk þess þátt í Schengen-samstarfinu. Talið er að vegna óska Sviss myndist spenna í samskiptum Sviss og ESB.

Þetta eru mikil tíðindi. Þetta er niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þrátt fyrir að leiðandi skoðanamyndandi öfl í landinu hafi snúist gegn henni með ríkisstjórnina í fararbroddi og forystumenn í atvinnu- og viðskiptalífi í kjölfarinu. Og vafalaust að spenna verður í samskiptum Evrópusambandsins og Svisslendinga á næstunni af þessum sökum. En niðurstaðan liggur fyrir. Þetta er vilji svissnesku þjóðarinnar og honum ber að hlýða.

Svisslendingar eru hins vegar ekki einir í heiminum inn í miðri Evrópu og í ljósi þessarar niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu þar vaknar sú spurning, hvort af henni megi draga einhverjar ályktanir um afstöðu fólks í öðrum löndum Evrópu til þessa grundvallaratriðis í stjórnskipun Evrópusambandsins um frjálsa för fólks.

Það er ekki fráleitt að ætla að svo sé.

Umræður í Bretlandi um innflytjendur og kostnað velferðarkerfisins þar vegna þeirra benda mjög eindregið til þess að áþekk viðhorf séu uppi meðal almennings þar. Ríkisstjórn David Camerons hefur þegar gripið til ýmiss konar aðgerða til þess að takmark aðgang innflytjenda að velferðarkerfinu. Og raunar er frjáls för fólks á milli aðildarríkja ESB orðinn kjarninn í þeim umræðum, sem fram fara í Bretlandi um aðild Breta að ESB og óskum þeirra um breytingar á þeim samningum.

Svipuð viðhorf hafa skotið upp kollinum í Danmörku, þótt þar hafi umræður um málið ekki orðið jafn víðtækar og í Bretlandi. Í Danmörku beinast áhyggjur ekki sízt að því að danska velferðarkerfið geti ekki staðið undir auknum kostnaði vegna innflytjenda. Sambærilegar áhyggjur hafa líka komið upp í Þýzkalandi en það sama á við um Þýzkaland og Danmörku að þar hafa umræður um málið ekki orðið jafn háværar og í Bretlandi. Þjóðverjar gera sér skýra grein fyrir því, að þeir þurfa á innflytjendum að halda af öðrum ástæðum og þá ekki sízt vegna þess að þýzka þjóðin er að eldast.

Það er hins vegar ánægjulegt að þessar umræður snúast ekki um að takamarka för fólks vegna litarháttar eða annarra trúarbragða en ríkjandi eru í Evrópu. Þær snúast um kostnað. Úrslitaátökin, sem fram fóru á sjöunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum um samskipti fólks með ólíkan litarhátt og fordæmi Nelsons Mandela hafa gjörbreytt viðhorfum fólks hvers til annars að því leyti.

Það er ekki ólíklegt að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss eiga eftir að að auka á þessar umræður í öðrum löndum Evrópu. Og það er í sjálfu sér af hinu góða. Það er ekki hollt fyrir nokkurt samfélag að umræður af þessu tagi kraumi undir yfirborðinu. Það fer bezt á því að ræða þessi viðkvæmu mál fyrir opnum tjöldum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS