Laugardagurinn 16. janúar 2021

Hreinsa ber skjöld Íslands gagnvart ESB


Björn Bjarnason
29. apríl 2014 klukkan 10:33

Þingsályktunartillagan um afturköllun ESB-aðildarumsóknarinnar sem utanríkisráðherra lagði fram á alþingi 21. febrúar 2014 liggur enn óafgreidd í utanríkismálanefnd alþingis. Stjórnarandstaðan reyndi að drepa málinu á dreif með á sjötta hundrað ræðum um fundarstjórn forseta alþingis.

Hinn 18. febrúar 2014 birti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu sína til utanríkisráðherra um stöðu ESB-viðræðnanna og framvindu þeirra frá 16. júlí 2009 þegar sótt var um aðild að ESB. Í skýrslunni kom fram að aðildarviðræðunum væri sjálfhætt. Þær hefðu í raun verið marklausar frá árinu 2011 þegar ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál en íslensk stjórnvöld settu afhendinguna sem skilyrði fyrir kynningu á samningsmarkmiðum sínum í sjávarútvegsmálum.

Úttekt Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið fyrir Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands var kynnt hinn 7. apríl. Í skýrslunni er mjög byggt á viðtölum við nafnlausa heimildarmenn, einkum í Brussel, og er textinn að verulegu leyti í viðtengingarhætti um hvað hugsanlega kynni að gerast yrði ESB-aðildarviðræðunum haldið áfram.

Skilafrestur umsagna til utanríkismálanefndar alþingis rann út þriðjudaginn 8. apríl. Eftir það var nefndarmönnum ekkert að vanbúnaði að setjast yfir þau gögn sem eðlilegt er að aflað sé við vandaða málsmeðferð. Af orðum nefndarformann má nú ráða að vinnan sem við blasi sé svo viðamikil að henni verði ekki lokið á þremur vikum sem enn eru til þingloka í vor.

Að taka af skarið um afturköllun er auðveldara en það var á sínum tíma að ákveða hvort sækja ætti um ESB-aðild. Það var hins vegar hrist fram úr erminni á fáeinum vikum í krafti svika Steingríms J. Sigfússonar, þáv. formanns VG, sem sagðist daginn fyrir kjördag í apríl 2009 aldrei mundu styðja aðild að ESB!

Umsóknin var lögð fram án þess að fyrir lægju neinar sambærilegar athuganir og úttektir og nú hafa verið gerðar. Fulltrúi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í ESB-viðræðunefndinni upplýsti laugardaginn 26. apríl að enn hefði „engin djúp greining farið fram á því hvernig“ ESB stæði að samningum við þriðju ríki um fiskveiðiheimildir úr deilistofnum. Þá væri ástæða til að „greina“ betur „hversu miklar takmarkanir á erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi [væru] æskilegar“. Þar ættu menn „ekki að hrapa að niðurstöðum“.

Að fulltrúi í ESB-viðræðunefnd sem skipuð var haustið 2009 til að fjalla um þessa brýnu hagsmuni Íslendinga skuli nú upplýsa að engar haldbærar niðurstöður rannsókna liggi fyrir um þessi mikilvægu viðræðusvið sýnir enn einu sinni hve illa var staðið að ákvörðunum um ESB-aðildarumsóknina. Hinar nýju upplýsingar um óvandaða málsmeðferð undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar eru enn ein rökin fyrir afturköllun umsóknarinnar.

ESB-umsóknin var ekki aðeins lögð fram í krafti svika Steingríms J. á kosningaloforði, hún var einnig illa undirbúin efnislega. Skýrsla hagfræðistofnunar og nú orð viðræðunefndarmanns sýna að vitneskja þeirra sem sendu inn umsóknina var lítil og gloppótt um flesta meginþætti málsins. Hefðu réttu spilin verið lögð á borðið fyrir þingmenn hefði ekki fengist meirihluti fyrir umsókninni á alþingi.

Að illa undirbúið skjal sem alþingi samþykkti á fölskum forsendum sé látið rykfalla í skúffum ESB í Brussel er fráleitt. Það ber að afturkalla. Undarlegt er að fylgismenn aðildar að ESB átti sig ekki á nauðsyn afturköllunarinnar. Án hennar ná Íslendingar ekki vopnum sínum gagnvart ESB vilji þeir í alvöru og að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu sækja um aðild að sambandinu. Utanríkismálanefnd ber að afgreiða málið sem fyrst svo að hreinsa megi skjöld Íslands.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS