Mánudagurinn 25. janúar 2021

Kínverjar sjá tækifæri til fótfestu á Svalbarða


Björn Bjarnason
1. maí 2014 klukkan 10:28

Hér var sagt frá því þriðjudaginn 29. apríl að í Noregi teldu menn líklegt að Kínverjar hefðu áhuga á að kaupa land á Svalbarða sem er í einkaeign og hefur verið boðið til sölu. Í norska blaðinu VG hafði birst frétt um að eigendurnir hefðu lengi rætt við fulltrúa norska ríkisins, sem á næstum allt land á Svalbarða, um að það keypti af þeim landið. Áhugaleysi ríkisins í viðræðunum væri túlkað á þann veg að það hefði ekki áhuga á viðskiptunum.

Miðvikudaginn 30. apríl birtist forsíðufrétt í Hong Kong-blaðinu South China Morning Post (SCMP) um málið og þar segir að Kínverjar hafi nú tækifæri til að kaupa sér „fyrstu fótfestu“ á norðurhjara. Öllum lesendum blaðsins er ljóst af lestri fréttarinnar og uppslætti hennar á forsíðu þess að ritstjórnin telur um einstakt og mikilvægt tækifæri fyrir Kínverja að ræða.

Í blaðinu er meðal annars vitnað í norska heimskautafræðinginn Willy Østreng sem segir að kaupi Kínverjar landið „fái þeir þar fasta fótfestu“. Hann bendir hins vegar á að kauptilboð kunni að berast frá öðrum löndum. Sárasjaldan sé land á Svalbarða til sölu og ráðstöfun á landi þarna kunni að snerta svæðisbundið öryggi á þessum slóðum. SCMP vitnar enn í Østreng sem segist vænta þess að ríkisstjórnin endurmeti afstöðu sína með tilliti til öryggishagsmuna. Fjölskyldan sem eigi landið hafi á hinn bóginn frelsi til að selja það.

Í fréttum norskra fjölmiðla um málið er minnt á að Kínverjar hafi hin síðari ár sýnt sívaxandi áhuga á norðurslóðum. Kína hafi á árinu 2013 fengið fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu „þrátt fyrir hið slæma samband milli Noregs og Kína“ eins og segir í Dagbladet. Þá er minnt á að kínverski auðmaðurinni Huang Nubo hafi síðan 2011 reynt að kaupa stórt land á Íslandi að sögn til að þróa ferða- og útisvistarþjónustu. Íslensk stjórnvöld hafi að lokum tekið sig til og sagt nei vegna strategískra öryggissjónarmiða.

Hér skal engu spáð um niðurstöðu þessa máls hjá norskum stjórnvöldum. Ráðamenn segjast hafa heimildir til afskipta af sölunni en alþjóðasáttmáli gildir um stjórnsýslulegt forræði Norðmanna á hinum stóra eyjaklasa fyrir norðan Ísland þar sem þeir og Rússar hafa fast aðsetur undir stjórn norsks sýslumanns.

Við Íslendingar höfum að eigin raun kynnst því að ekki er einfalt við að eiga fái kínverskur auðmaður augastað á jörð. Huang Nubo taldi að í krafti auðs síns og áhrifa innan Samfylkingarinnar yrðu honum allar leiðir færar á Íslandi. Eftir að annað kom í ljós hefur hann annaðhvort beitt fagurgala eða hnjóðsyrðum til að koma ár sinni fyrir borð. Honum tókst með aðstoð spunaliða meira að segja að draga suma sveitarstjórnamenn á norðausturlandi á asnaeyrunum og enn talar hann eins og hann muni fá nægilega marga innan íslenska stjórnkerfisins á sitt band til að ná hér fótfestu.

Umræðurnar um landsöluna á Svalbarða minna á að ekki er allt sem sýnist í þessu efni. Íslensk stjórnvöld eiga að taka af skarið gagnvart Huang Nubo og reka hann af höndum sér. Það er ólíðandi að hann tali niður til íslensku stjórnsýslunnar og láti jafnframt eins og hún muni að lokum hlaupa á eftir duttlungum hans.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS