Mánudagurinn 25. janúar 2021

ESB-málinu breytt í Þyrnirósu


Björn Bjarnason
13. maí 2014 klukkan 10:07

Það er í samræmi við margt annað sem einkennir stjórnmálaumræður líðandi stundar hér á landi að ESB-málið verði að Þyrnirósu í stað þess að tekið sé af skarið og aðildarumsóknin degin til baka.

Augljóst er að aðildarviðræðum verður ekki haldið áfram nema meirihluti verði fyrir því á alþingi að breyta skilyrðum sem sett voru um sjávarútvegsmál í álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis. Fulltrúar ESB neituðu að halda áfram viðræðunum nema þessum skilyrðum yrði breytt.

Þeir sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB verða framvegis að kynna samningsmarkmið sín í sjávarútvegsmálum um leið og þeir óska eftir umboði frá kjósendum um að blása lífi í umsóknarferlið að nýju.

Eftir að vinstri-grænir sneru við blaðinu í ESB-málinu að loknum kosningum vorið 2009 og Árni Þór Sigurðsson, þingmaður þeirra, varð formaður utanríkismálanefndar alþingis tók hann höndum saman við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og ráðgjafa hans og samdi með þeim álit til stuðnings ESB-umsókninni. Í flestu tilliti er þetta álit loðmullulegt en þó þorðu höfundar þess ekki að fella það að sjávarútvegsstefnu ESB. Þeir ímynduðu sér hins vegar að ESB mundi ekki vilja ráð yfir 200 mílna efnahagslögu Íslands og settu fyrirvara vegna eignarhalds á útgerðarfyrirtækjum og umboðs til að semja um deilistofna.

Eftir að ESB-viðræðurnar hófust lýsti Össur yfir að hann sæktist ekki eftir varanlegum undanþágum frá sjávarútvegsstefnu ESB. Hann ætlaði á þennan hátt að draga úr gildi skilyrðinna í áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Þegar makríldeilan tók að magnast gætti undanhalds hjá fulltrúum Össurar í viðræðunefndinni varðandi deilistofnana, því var meira að segja haldið fram að Íslendingar væru betur settir í makríldeilunni innan ESB en utan. Unnið var að leiðum til að fara í kringum bannið við fjárfestingu útlendinga í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Í ljós kom að fyrirheitin um undanslátt í sjávarútvegsmálum dugðu ekki fyrir ESB. Fulltrúar sambandsins vildu að íslensk stjórnvöld gæfu meira eftir áður en tekið yrði til við að ræða formlega um sjávarútvegsmálin. Til að knýja fram samþykki við þeirri kröfu hélt ESB rýniskýrslu sinni um sjávarútvegsmál hjá sér. Viðræðurnar stöðvuðust og Össur taldi sér fyrir bestu að slá þeim opinberlega á frest fjórum mánuðum fyrir þingkosningar 2013.

Þetta er staðan enn þann dag í dag með þeirri mikilvægu viðbót að utanríkisráðherra og forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn fóru til Brussel sumarið 2013 og sögðu ríkisstjórnina frá viðræðunum og síðan var viðræðunefndin afmunstruð. Í febrúar og apríl 2014 komu út tvær háskólaskýrslur um stöðu málsins. Í annarri var tekið af skarið um að viðræðunum væri sjálfhætt. Hin var rituð í viðtengingarhætti með vísan til nafnlausra heimildarmanna hjá ESB í Brussel sem sögðu að örugglega mætti finna einhverja lausn en Íslendingar yrðu að hafa frumkvæði í málinu, þeir hefðu upphaflega óskað eftir viðræðunum.

Þegar fram líða stundir verður litið á það sem dæmi um forystuleysi ríkisstjórnar og ábyrgðarleysi alþingismanna við stjórn utanríkismála að ákveðið hafi verið að svæfa þetta stórmál í stað þess að taka af skarið um það í samræmi við augljósa stöðu þess og afturkalla umsóknina.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS