Mánudagurinn 18. janúar 2021

Alþingi ræður ekki við ESB-málið - hvað gerir forsætis­ráðherra?


Björn Bjarnason
17. maí 2014 klukkan 11:21

Nýr vinkill í ESB-umræðunum birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 17. maí þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tekur sér fyrir hendur að gefa einstökum setningum í ESB-tillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra einkunn og segist sakna þess að alþingi hafi ekki að minnsta kosti samþykkt þá setningu úr tillögunni að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu að stefna að ESB-aðild. Forsætisráðherra setur þessa setningu skör hærra en hinar tvær í tillögu ráðherrans, annars vegar um að draga aðildarumsóknina til baka og hins vegar að ríkisstjórnin skuli treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.

Rök forsætisráðherra eru að við völd sitji ríkisstjórn sem hafi „engin áform um að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið“. Setningarnar tvær sem ráðherrann telur litlu skipta snúist „bara um að árétta afstöðu ríkisstjórnarinnar“.

Baldur Arnarson blaðamaður spyr forsætisráðherra hvort til greina komi að samþykkja á haustþingi að draga umsóknina til baka og hafa síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu þjóðarinnar til ESB-aðildar. Vilji þjóðin aðild yrði málið tekið upp aftur. Forsætisráðherra svarar:

„Menn eru svo sem með ýmsar hugmyndir í þessu efni. En við höfum ekkert rætt framhaldið hvað þetta varðar. Þessi tillaga snerist um að árétta það sem ríkisstjórnin hefur þegar sagt, að hún telji ekki að það eigi að standa í þessum viðræðum. Því viðræður fela í sér yfirlýsingu um að menn vilji inn.“

Svör forsætisráðherra vekja spurningar um hvers vegna í ósköpunum hann vildi að fram kæmi stjórnartillaga til þingsályktunar um afturköllun þessa mikla ágreiningsmáls telji hann það í raun svo litlu skipta að alþingi samþykki á formlegan hátt fyrir sitt leyti að afturkalla ESB-umsóknina. Varla var það leikaraskapur? Pólitískt reynsluleysi skýrir ef til vill alla meðferð þessarar tillögu. Málsmeðferðin hefur hvað sem öðru líður orðið stjórnarflokkunum dýrkeypt og til álitshnekkis.

Ríkisstjórnin og meirihluti hennar á þingi hefur ekki einu sinni burði til að nýta sér það sem birst hefur í skýrslum tveggja háskólastofnana og styður málstað stjórnarinnar. Þar kemur skýrt fram að í tíð ESB-ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lauk viðræðunum í raun vegna ágreinings um sjávarútvegsmál. Þeim verður ekki fram haldið nema íslenska þjóðin samþykki að ESB fái ráð yfir 200 mílna efnahagslögunni að 12 mílum og það verði undir ákvörðun ráðherraráðs ESB komið hverjir veiði á Íslandsmiðum.

Verði uppgjöf niðurstaða alþingis í ESB-málinu undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er samhljómur milli þess vandræðagangs og þess sem gerðist undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur þegar haldið var umhugsunar- og undirbúningslaust til Brussel. Meginlærdómurinn af ESB-málinu síðan 2009 er þessi: Á öðrum áratug 21. aldar virðist íslenska stjórn- og stjórnmálakerfið ekki ráða við mál af þessari stærðargráðu. Það er stóralvarlegt á tímum alþjóðavæðingar.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa talað á þann veg í tæpt ár að óhjákvæmilegt sé að taka betur af skarið gagnvart ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB. Þeir hafa stjórnskipulegt umboð til þess hvað sem líður vandræðagangi á alþingi. Þeir hafa einnig öll rmálefnaleg rök til þess. Ef marka má orð þeirra sjálfra vilja þeir ekki að málið hafi formlega þá stöðu sem það hefur nú. Þeir eiga næsta leik. Ráða þeir við hann?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS