Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þessar mundir í Úkraínu væri „forkastanlegt“ og hann sagði einnig:
„Í rúm 20 ár höfum við reist varnaráætlanir okkar á þeirri skoðun að ekki stafaði yfirvofandi ógn af Rússum en nú höfum við kynnst rússneskri kenningu sem reist er á því að Rússar áskilji sér rétt til að hlutast til um málefni annarra þjóða til að gæta hagsmuna rússneskra samfélaga og við höfum séð á Krím og í Úkraínu að þessi kenning er ekki orðin tóm – henni er auðveldlega hrundið í framkvæmd.
Við vitum að í hernaðarstefnu Rússa er litið á NATO sem andstæðing og ég tel að við eigum að taka það alvarlega.“
Þá sakaði framkvæmdastjóri NATO Vladimír Pútín Rússlandsforseta um lygar þegar hann segðist hafa kallað herlið Rússa á brott frá landamærum Úkraínu, hann hefði þrisvar sinnum gefið yfirlýsingar um þetta án þess að hermennirnir hyrfu af vettvangi. Enginn vafi væri á miklum afskiptum Rússa af tilraunum í austurhluta Úkraínu til að koma illu af stað. NATO yrði að endurskoða varnarstefnu sína og áætlanir fyrr leiðtogafund bandalagsins sem haldinn yrði í september.
Með þessum orðum hefur Anders Fogh Rasmussen dregið skarpa línu gagnvart Rússum og Vladimír Pútín. Hann reisir skoðun sína á umræðum innan Atlantshafsráðsins og þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá aðildarríkjum NATO. Í orðum hans felst þó ekki aðeins viðvörun gagnvart Rússum heldur einnig ríkisstjórnum aðildarríkja NATO um að þær verði að taka mið af nýrri stöðu í mati sínu á öryggismálum og fjárveitingum til varnarmála.
Sama dag og Anders Fogh Rasmussen flutti þennan harða boðskap í höfuðstöðvum NATO bjó Vladimír Pútín sig undir för til Kína og sagði að góð samskipti við Kínverja væri forgangsmál sitt. Í fjölmiðlum segir að aldrei fyrr hafi pólitískt samband Rússa og Kínverja verið eins gott og nú. Í þeim orðum felst nokkur ögrun en þó ekki eins mikil og í framgöngu Kínverja gagnvart Víetnam í Suður-Kínahafi. Þar hefur kínverskur olíu-borpallur verið dreginn inn í efnahagslögsögu Víetnams í heimildarleysi. Víetnamar saka Kínverja um yfirgang og efna til fjöldamótmæla í eigin landi en einnig annars staðar eins og sannaðist fyrir framan kínverska sendiráðið í Reykjavík mánudaginn 19. maí.
Atburðirnir í Suður-Kínahafi og samstaða Rússa og Kínverja að baki sókn stórveldis inn í lögsögu og land nágrannaþjóða í þágu eigin hagsmuna kunna að vera fyrirboðar þess sem gerist á Norður-Íshafi. Rússar gera kröfu til mikils hluta landsgrunns utan lögsögu sinnar í Norður-Íshafi og Kínverjum er kappsmál að ná fótfestu á norðurslóðum eins og kaupæði Huangs Nubos, auðmanns í Kína, sýnir. Fréttir herma að hann hafi fest kaup á norsku landi fyrir sunnan Tromsö og það sé aðeins fyrsta skrefið í landvinningum hans á norðurslóðum.
Viðvörunarorð Anders Foghs Rasmussens eiga erindi til okkar Íslendinga bæði sem aðildarþjóðar NATO en ekki síður sem aðildarþjóðar að Norðurskautsráðinu.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur um árabil ferðast um heiminn og rætt norðurslóðamál eins og þau séu sameiningartákn stórþjóða. Hann hefur tekið að sér að kynna málstað Rússa og Kínverja með vísan til samtala sinna við æðstu menn þessara þjóða og hann hefur ítrekað boðið Vladimír Pútín í heimsókn til sín á Íslandi.
Ólafur Ragnar Grímsson verður að skoða hug sinn eins og aðrir forystumenn á Vesturlöndum í ljósi framgöngu Kínverja gagnvart nágrönnum sínum, Víetnömum, og Rússa gagnvart Úkraínumönnum. Það er í hróplegri andstöðu við utanríkisstefnu Íslendinga fyrr og síðar að bera blak af stórveldum sem ógna nágrönnum sínum með valdi eða undirróðri.
Íslensk stjórnvöld eiga að krefjast þess innan NATO að af hálfu bandalagsins verði lögð meiri áhersla á gæslu næröryggis aðildarþjóðanna en gert hefur verið undanfarna tvo áratugi. Það er óþarfi fyrir NATO að leita að nýju hlutverki. Bandalagið á að helga sig því að tryggja öryggi aðildarþjóða sinna innan hins hefðbundna varnarsvæðisins síns sem nær inn í Noröur-Íshaf og yfir Atlantshaf.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Hvað ætlast ríkisstjórnin fyrir?-Krafa um gagnsæi
Eitt af því, sem einkenndi vinnubrögð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG vegna ESB-mála var skortur á gagnsæi. Þótt sú ríkisstjórn hefði uppi miklar yfirlýsingar um mikilvægi gagnsæis í stjórnarháttum í lýðræðisríki lagði hún áherzlu á að iðka það ekki í stærstu málum þjóðarinnar.